Search
Close this search box.

Aðventa lesin í Gunnarshúsi

Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum verður að venju lesin í Gunnarshúsum í Reykjavík og á Skriðuklaustri 12. desember, þriðja sunnudag í aðventu.

Hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 les Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, leikkona og handritshöfundur, og hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri les heimamaðurinn Þór Ragnarsson áhugaleikari. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 13.30.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum.

Allir eru velkomnir á þessa kyrrðarstund í amstri aðventunnar en fjöldi gesta verður takmarkaður við þrjátíu. Boðið verður upp á kaffi og smákökur með lestrinum sem tekur rúmar tvær klukkustundir. Streymt verður frá lestrinum í Gunnarshúsi á fésbókarsíðu Rithöfundasambandsins.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email