Search
Close this search box.

Aðventa lesin í Gunnarshúsum

download

Aðventa, saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum, verður að venju lesin í Gunnarshúsum í Reykjavík og á Skriðuklaustri 10. desember, annan sunnudag í aðventu.

Hjá Rithöfundasambandi Íslands á Dyngjuvegi 8, les Sólveig Pálsdóttir leikkona og rithöfundur söguna og hefst lestur kl. 13.30.

Allir eru velkomnir á þessa kyrrðarstund í amstri aðventunnar meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á kaffi og smákökur með lestrinum sem tekur rúmar tvær klukkustundir.

Frá árinu 2005 hefur Gunnarsstofnun staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og unnið að því að breiða þá hefð út. Í tilefni 20 ára afmælis Gunnarsstofnunar verður sagan lesin á a.m.k. tíu tungumálum á Skriðuklaustri þetta árið í hinum mörgu vistarverum hússins sunnudaginn 10. desember. Íslenskuna les Gunnar Björn Gunnarsson, barnabarnabarn skáldsins. Opið verður á Skriðuklaustri kl. 13-17 og geta áheyrendur flutt sig á milli herbergja að vild.

Norðlendingar geta einnig notið þess að hlýða á Aðventu lesna sunnudaginn 10. des. Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður mun lesa söguna á Icelandair Hótel Akureyri og hefst sá lestur kl. 14.

Á öllum þremur ofangreindum stöðum er frítt inn og heitt á könnunni fyrir gesti.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember. Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum. Hún kemur reglulega út í Þýskalandi hjá Reclam forlaginu og selst í allt að 2000 eintökum á ári enn þann dag í dag. Árið 2016 kom hún út á ítölsku, norsku og hollensku og seldist vel í þeim löndum. Í október á þessu ári kom síðan út ný tékknesk þýðing frá hendi Helenu Kadeckovu.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email