Valgarður Egilsson, yfirlæknir og rithöfundur er látinn 78 ára að aldri. Auk starfa að læknavísindum var Valgarður skáld og rithöfundur og vann nokkuð við leiðsögn ferðafólks.
Valgarður var fæddur 20. mars 1940 á Grenivík og ólst upp í Hléskógum í Höfðahverfi.
Hann lauk prófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1968 og doktorsgráðu frá Lundúnaháskóla tíu árum síðar.
Valgarður var læknir hér heima að námi loknu og var síðan við rannsóknarstörf í frumulíffræði og krabbameinsfræðum við rannsóknarstofnanir og læknaskóla í London. Hann hóf störf sem sérfræðingur í frumumeinafræði á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði á árinu 1979 og var yfirlæknir frá 1997 til starfsloka, 2010. Hann var útnefndur klínískur prófessor við læknadeild HÍ árið 2004.
Valgarður var virkur í félagsmálum á ýmsum áhugasviðum, meðal annars formaður Listahátíðar í Reykjavík og varaforseti Ferðafélags Íslands. Hann sinnti leiðsögn ferðamanna og skrifaði greinar í Árbækur Ferðafélagsins.
Eftir hann liggja skrif á fræðasviði auk þess sem hann gaf út bækur með leikritum, ljóðum, sögum og upplýsingum fyrir ferðafólk. Leikritið Dags hríðar spor var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu leikárið 1980-81 og síðar sýnt í Belfast á Norður-Írlandi. Síðasta bók hans, Ærsl, kom út á síðasta ári.
Ritrhöfundasamband Íslands þakkar Valgarði samfylgdina og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.