Search
Close this search box.

Skáld í skólum fær viðurkenningu á degi íslenskrar tungu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, skáld og rithöfundur.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, veitti verkefninu Skáld í skólum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2018. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson er upphafsmaður Skálda í skólum og tók hann við viðurkenningunni fyrir hönd Höfundamiðstöðvar RSÍ við hátíðlega athöfn á Höfn í Hornafirði.

Rithöfundasambandið fagnar þessari viðurkenningu og þakkar Aðalsteini frumkvæðið og gott og gjöfult samstarf við verkefnið Skáld í skólum í rúman áratug.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

Verkefnið Skáld í skólum hefur verið starfrækt frá árinu 2006 á vegum Höfundamiðstöðvar Rithöfundasambands Íslands. Þar hefur grunnskólum um allt land boðist að brjóta upp hefðbundna kennslu með heimsóknum frá rithöfundum, handritshöfundum, skáldum og myndasöguhöfundum. Dagskráin er ætíð fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir hvert skólastig, bæði styttri fyrirlestrar og kveikjur en einnig ritsmiðjur sem geta spannað nokkra daga. Í dagskránni í ár má til dæmis finna fyrirlestur um „Veiðilendur ævintýranna“, þar sem nemendur í 1.-4. bekk fá hjálp við að veiða hugmyndir og kveikjuna „Ef ég mætti ráða …“ þar sem nemendur í 5.-7. bekk fá hjálp við að búa til sína eigin myndasögubók. Öll erindin byggja þó á sama grunni: Skáldin ræða sögur og lestur, sköpun og skrif og hjálpa nemendum að fá hugmyndir að sínum eigin sögum.

Það er skemmst frá að segja að Skáld í skólum hefur hlotið góðar viðtökur bæði nemenda og kennara. Skemmtilegt, fróðlegt og gagnlegt eru orð sem kennarar nota í umsögnum um verkefni. Skáldin eiga því sannarlega erindi í skólana. Hæfileikinn til að segja og skrifa sögur er nátengdur hæfileikanum til að setja sig í spor annarra, sem er mikilvægur hluti af þroska allra ungmenna. Á tímum þar sem bóklestur á undir högg að sækja hlýtur einnig að vera hvetjandi fyrir unga lesendur að komast í beint samband við höfunda, en eitt af markmiðum verkefnisins er einmitt að „smita nemendur af ólæknandi lestrar- og sköpunargleði!“ Sú sköpunargleði er eldsneyti fyrir unga málnotendur og lífsnauðsynleg tungumáli sem þarf að vaxa og dafna andspænis nýjum áskorunum.

Ávarp Aðalsteins Ásbergs:

Aðalsteinn Ásberg
Aðalsteinn Ásberg

„Það er mér heiður og sérstök ánægja að veita viðtöku þessari viðurkenningu fyrir verkefnið Skáld í skólum sem Höfundamiðstöð Rithöfundasambandsins hefur haft veg og vanda af í 13 ár og má segja að hafi eðli málsins samkvæmt verið í stöðugri framsókn og þróun. Ástæða þess að ég stend hér fyrir hönd miðstöðvarinnar er sú að hugmyndin að verkefninu og titill voru á sínum tíma hugarfóstur mitt og mér síðan falið að vera við stjórnvölinn á skútu skólaskáldanna í áratug.

Í upphafi studdi Reykjavíkurborg við verkefnið á tilraunastigi, en síðan mennta- og menningarmálaráðuneytið og fleiri opinberir aðilar, auk menningarsjóða. Ég vil nefna sérstaklega framkvæmdastjóra rithöfundasambandsins og höfundamiðstöðvarinnar, Ragnheiði Tryggvadóttur, sem tók þátt í því af lífi og sál að koma verkefninu á koppinn og hefur átt drjúgan þátt í nauðsynlegri eftirfylgni. Eftir því sem ég kemst næst hafa hátt í 100 höfundar, lífs og liðnir, átt hlut í verkefninu og um 70 mismunandi dagskrár litið dagsins ljós. Sumar þeirra hafa reynst skammlífar en aðrar orðið eins konar framhaldsþættir og flust á milli ára hvað eftir annað. Höfundarnir eiga að sjálfsögðu stóran þátt í því að verkefnið hefur vaxið og dafnað í áranna rás. Ennfremur eiga skólarnir allir sem hafa sýnt verkefninu áhuga allt frá fyrsta misseri og fram til dagsins í dag þakkir skildar.“

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipa að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Einar Falur Ingólfsson og Dagur Hjartarson.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email