Afkoma, réttindi og framtíð rithöfunda á Norðurlöndum
Ársfundur Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins í Hörpu
Um miðjan maí hélt Rithöfundasamband Íslands í samráði við Hagþenki ársfund Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins. Til fundarins mættu fjörutíu og fimm fulltrúar félaga okkar á Norðurlöndum auk fulltrúa RSÍ og Hagþenkis.
Rætt var um fjárhagslega afkomu höfunda og opnaði Dr. Ágúst Einarsson þá umræðu með erindi um hagræn áhrif ritlistar á Íslandi. Í kjölfarið voru gagnlegar og upplýsandi umræður um ástandið í nágrannalöndunum. Samanburður leiddi í ljós að við megum nokkuð vel við una þegar að samningum við útgefendur kemur, en erum aftarlega á merinni hvað varðar bókasafnsgreiðslur og rafræna þróun.
Jan Constantine, lögmaður bandaríska rithöfundasambandins Authors´Guild, var sérlegur gestur fundarins. Hún flutti afar forvitnilegt erindi um áralanga baráttu rithöfunda við rafræna risann Google um höfundarrétt. Sú barátta stendur enn og sér ekki fyrir endann á henni og hvergi bilbug að finna á bandarískum höfundum sem berjast gegn frjálsri og ótakmarkaðri birtingu bókverka á veraldarvefnum. Þessi málaferli eru fordæmisgildandi um alla veröld og því fylgjast aðrir grannt með.
Þá var staða höfundarréttar á Íslandi til umfjöllunar á fundinum og hélt Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður RSÍ, erindi um nýleg frumvörp um breytingar á höfundaréttarlögum. Í kjölfarið spannst afar forvitnileg pallborðsumræða á milli lögmanna félaganna þar sem fram kom að höfundarréttarmálin eru að þróast með ólíkum hætti á norðurlöndunum og ljóst að nauðsynlegt er að þessar þjóðir gangi í takt og gæti samræmis svo Norðurlöndin búi við svipað lagaumhverfi í framtíðinni.
Magnea J. Matthíasdóttir, formaður Félags þýðenda og túlka, hélt erindi um þýðingar á milli Norðurlandanna, verðlaun og útgáfustyrki. Magnea kynnti sláandi tölur sem sýna að þýðingum á milli norrænu þjóðanna fækkar ört. Einna helst eru bókverk þýdd á milli Danmerkur og Noregs, en lítt á milli hinna landanna.
Starfssemi Reykjavíkur Bókmenntaborgar var einnig kynnt á fundinum og góður rómur gerður að. Fundurinn var afar gagnlegur og ljóst að félögin á norðurlöndum þurfa að ganga þétt saman í þeim rafræna frumskógi sem fer ört stækkandi.