Search
Close this search box.

Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi afhentar

vorvindar2015

Í gær voru í Gunnarshúsi afhentar Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi. Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu.

Viðurkenningarnar hlutu:

Bergur Þór Ingólfsson. Bergur Þór Ingólfsson er leikhúslistamaður sem hefur undanfarin ár gefið sig æ meira að verkefnum sem höfða til allrar fjölskyldunnar. Bergur vinnur verk sín af alúð og virðingu fyrir áhorfendum og sýningar hans eru til þess fallnar að búa til leikhúsunnendur fyrir lífstíð.

  • Guðni Líndal Benediktsson. Leitin að Blóðey er fyrsta bók höfundar og er fjörleg ýkju- og gamansaga sem hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin síðastliðið haust. Bókin er vel heppnuð frumraun og líkleg til að kæta lesendur á öllum aldri.
  • Hilmar Örn Óskarsson. Bækur Hilmars um Kamillu vindmyllu eru orðnar þrjár og einnig hefur hann skrifað bókina Funi og Alda falda sem ætluð er yngstu lesendunum. Ærsl og húmor einkenna stílinn, sem er markaður af náinni meðvitund höfundar um langanir og þarfir lesenda sinna.
  • Kristín Ragna Gunnarsdóttir. Myndheimur Kristínar Rögnu er orðinn hluti af æsku heillar kynslóðar, en hann birtist henni í bókum, á sýningum og í kennslustofum. Metnaður Kristínar Rögnu og stöðugt samtal hennar við áhorfendur tryggir óvæntar og áleitnar myndir sem lifa lengi í hugskotinu.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.

Meðfylgjandi er ljósmynd frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru (frá vinstri) Sigurjóna Rós Benediktsdóttir, sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Guðna Líndal Benediktssonar, Hilmar Örn Óskarsson, Kristín Ragna Gunnarsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email