Vilborg Dagbjartsdóttir, skáldkona og kennari, lést á líknardeild Landspítalans, hinn 16. september síðastliðinn, 91 árs að aldri.
Vilborg fæddist á Vestdalseyri við Seyðisfjörð 1930. Hún lauk kennaraprófi frá KÍ 1952, stundaði leiklistarnám 1951-53, nám í bókasafnsfræði við HÍ 1983 og dvaldi í Skotlandi og Danmörku 1953-55. Vilborg var kennari við Landakotsskóla 1952-53 og kennari við Austurbæjarskóla 1955-2000 er hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Vilborg sendi frá sér fjölda ljóða- og barnabóka en þýddi auk þess hátt á fimmta tug barna- og unglingabóka og ritstýrði bókum. Tvær ævisögur Vilborgar hafa komið út: Mynd af konu, eftir Kristínu Marju Baldursdóttur 2000, og Úr þagnarhyl, eftir Þorleif Hauksson 2011.
Vilborg var formaður Rithöfundafélags Íslands, sat í stjórn Stéttarfélags íslenskra barnakennara, Rithöfundasambands Íslands og Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna.
Hún var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands frá 1998, heiðurslaunahafi Alþingis til listamanna og var sæmd riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar fyrir fræðslu- og ritstörf árið 2000.
Rithöfundasamband Íslands þakkar Vilborgu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.