Search
Close this search box.

Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Aðalheiður Guðmundsdóttir er Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021 fyrir ritin: Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur. Háskólaútgáfan

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 2. mars við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana veitti formaður Hagþenkis, Ásdís Thoroddsen, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi tengdur ritunum í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson.


Viðurkenningarráð, skipað fimm félagsmönnum af mismunandi fræðasviðum stóð að valinu og það skipuðu: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Sússanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir 

Úr rökstuðningi ráðsins: 

Undanfarin hundrað ár eða svo hefur hugtakið fornsögur fyrst og fremst vakið í huga Íslendinga þanka um Íslendingasögur, um Sturlungu og um verk Snorra Sturlusonar. En færum við 250 ár aftur í tímann og nefndum fornsögur við þálifandi Íslendinga, er líklegt að það fólk vildi helst ræða um Friðþjóf hinn frækna, Hrólf kraka eða Hrafnistumenn, en síður um til dæmis Guðrúnu, Kjartan og Bolla. Þær sögur sem nú ganga undir samheitinu Fornaldarsögur Norðurlanda (og segja m.a. af þessum hetjum sem ég nefndi) voru óheyrilega vinsælar hér á landi öldum saman og fundu sér ekki einungis farveg í lausamálsfrásögnum heldur einnig í fjölda rímnaflokka. Vaxandi þjóðerniskennd og stýrandi smekkur menntamanna olli því að þessar skemmtibókmenntir urðu eins konar olnbogabörn þegar kom fram á 20. öld, já meira eins og curiosum heldur en fullgildar bókmenntir. En á síðustu 30 árum eða svo hefur orðið gleðilegur viðsnúningur á þessu. Fornaldarsögurnar eru rannsakaðar og ræddar frá sífellt nýjum sjónarhornum og nú hillir meira að segja undir að þær verði aðgengilegar í nýjum útgáfum.

Verkið sem í dag hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis sprettur úr þessari spennandi deiglu. Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og hefur öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim. Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum. Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis.

LESA MEIRA

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email