Viðurkenning Hagþenkis

Viðurkenning Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2024

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu en að valinu stendur sérstakt viðurkenningarráð.  

Viðurkenningu Hagþenkis hlaut Erla Hulda Halldórsdóttir fyrir ritið:  Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. ÚtgefandiBjartur.

Umsögn viðurkenningarráðs: Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna. Byggir á ómetanlegum bréfum Sigríðar til bróður síns sem spanna hálfa öld.

Viðurkenningin var veitt  við hátíðlega athöfn 25. mars í Þjóðarbókhlöðunni og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1500.000 kr. Tónlist fluttu Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Vísur. Þau fluttu vísur Vatnsenda – Rósu og Nú andar suðrið eftir Jónas Hallgrímsson.

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára i senn:  Halldóra Jónsdóttir, Kristján Leósson, Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Friðbjörg Ingimarsdóttir, framkvæmdastýra Hagþenkis er verkefnastýra ráðsins og hefur ráðið hist vikulega síðan um miðjan október.

Tíu rit voru tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis

Árni Heimir Ingólfsson.

Tónar útlaganna. Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf. ÚtgefandiHið íslenska bókmenntafélag.

Vel skrifuð örlagasaga þriggja einstaklinga sem umbyltu tónlistarmenningu landsins. Bókin er ríkulega studd heimildum og prýdd mörgum myndum.

Ásdís Ingólfsdóttir.

Undirstaðan – Efnafræði fyrir framhaldsskóla. Útgefandi Iðnú.

Vandað kennsluefni í rafrænu formi sem kynnir undirstöðuatriði efnafræðinnar. Efnið er lagað að nútímaþörfum nemenda og kennara með margskonar innbyggðum hjálpartækjum, auk fjölda vísana í ítarefni sem nálgast má á veraldarvefnum.

Erla Hulda Halldórsdóttir.

Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809–1871. ÚtgefandiBjartur.

Áhrifarík ævisaga sem varpar nýju ljósi á 19. öldina og veitir einstaka innsýn í heim kvenna. Byggir á ómetanlegum bréfum Sigríðar til bróður síns sem spanna hálfa öld.

Guðjón Friðriksson.

Börn í Reykjavík. ÚtgefandiForlagið.

Fræðandi og forvitnileg bók um þær stórfelldu breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi og aðstæðum barna í borginni í hálfa aðra öld. Fallegur prentgripur með  fjölda einstakra ljósmynda.

Guðmundur Jónsson (ritstjóri).

Ástand Íslands um 1700. Lífshættir í bændasamfélagi. Útgefandi Sögufélag.

Yfirgripsmikið verk sem er afrakstur margra ára rannsókna á lífsháttum á Íslandi við upphaf 18. aldar. Unnið er á nýstárlegan, þverfaglegan hátt úr frumheimildum sem eru einstæðar á alþjóðavísu.

Gunnar Harðarson.

Fingraför spekinnar. Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.

Vandað og vel skrifað ritgerðasafn sem varpar nýju ljósi á heimspekilega hugsun í íslenskum fornritum. Hugmyndir, hugtök og rökfærslur eru skýrð í ljósi heimspeki miðalda.

Ingunn Ásdísardóttir.

Jötnar hundvísir. Norrænar goðsagnir i nýju ljósi. Hið íslenska bókmenntafélag.

Höfundur kannar frumheimildir um jötna og jötnameyjar í norrænum kveðskap og forminjum óháð túlkun kristinna miðaldamanna og kemst að frumlegum og áhugaverðum niðurstöðum í aðgengilegu fræðiriti.

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir.

Einar, Anna og safnið sem var bannað börnum. ÚtgefandiForlagið

Fróðleg og falleg barnabók sem opnar persónulega leið inn í sögu merkilegs safns. Samspil myndefnis og texta varpar áhugaverðu ljósi á árdaga íslenskrar nútímalistasögu.

Skafti Ingimarsson.

Nú blakta rauðir fánar. Saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968. Útgefandi Sögufélag.

Mikilvægt innlegg í íslenska stjórnmálasögu tuttugustu aldarinnar. Verkið veitir nýja innsýn í þátttöku almennings í flokksstarfi og verkalýðsbaráttu um land allt.

Þórir Óskarsson.

Svipur brotanna. Líf og list Bjarna Thorarensen. Útgefandi Hið íslenska bókmenntafélag.

Metnaðarfull ævisaga byggð á ítarlegum rannsóknum og hugmyndasögulegri greiningu. Ljóðlist skáldsins er sett í samhengi við þjóðlegan arf og alþjóðlega strauma.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email