Search
Close this search box.

Verðlaun

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Félag íslenskra bókaútgefenda veitir „Íslensku bókmenntaverðlaunin“ í janúar ár hvert. Verðlaun eru veitt í flokki fagurbókmennta, fræðibóka og barna- og unglingabóka. Sjá nánar á heimasíðu Félags íslenskra bókaútgefenda: FÍBÚT.

Maístjarnan

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita Maístjörnuna árlega 18. maí, á degi ljóðsins, fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu en frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar og nafngift átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Rithöfundasambandið leggur til verðlaunafé að upphæð 350.000 kr. Allar íslenskar ljóðabækur sem komið hafa út á almanaksárinu á undan og skilað hefur verið til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru gjaldgengar til verðlaunanna og fær dómnefnd þær til umfjöllunar. Maístjarnan var veitt í fyrsta sinn 18. maí 2017.

Íslensku barnabókaverðlaunin

Verðlaunasjóður íslenskra barnabóka var stofnaður hinn 30. janúar 1985 af barnabókahöfundinum Ármanni Kr. Einarssyni og bókaútgáfunni Vöku, sem seinna varð Vaka-Helgafell. Var tilefnið 70 ára afmæli Ármanns. Árið 1988 gerðist Barnavinafélagið Sumargjöf formlegur aðili að sjóðnum og enn síðar Íslandsdeild IBBY.

Megintilgangur sjóðsins er að örva fólk til að skrifa bækur fyrir börn og unglinga og stuðla þannig að auknu framboði úrvalslesefnis fyrir æsku landsins. Sjóðurinn veitir Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir besta handritið sem berst í árlegri samkeppni en hún er öllum opin. Í hlut vinningshafa kemur auk höfundarlauna sem kveðið er á í útgáfusamningi rausnarlegt verðlaunafé. Verðlaunin eru veitt að hausti. Nánar á Forlagið.is

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

Á gamlársdag, ár hvert er úthlutað viðurkenningum til eins eða tveggja rithöfunda úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Í stjórn sjóðsins eiga sæti fimm menn, einn skipaður af menntamálaráðherra og er hann formaður, tveir af Ríkisútvarpinu og tveir af Rithöfundasambandi Íslands. Sjá lista yfir viðurkenningarhafa vidurkenningar

Menningarverðlaun DV

DV veitir árlega menningarverðlaun í sjö listgreinum. Þriggja manna dómnefndir tilnefna fimm einstaklinga eða aðila sem til greina koma í hverri listgrein og gera grein fyrir tilnefningunum. Verðlaunin eru síðan veitt einum aðila eða einstaklingi í hverri grein, venjulega í endaðan febrúar.

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur

Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur voru stofnuð árið 2018 til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi. Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók. Frestur til að senda inn handrit er auglýstur á vef borgarinnar.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar

Barnabókaverðlaun Reykjavíkur, áður skóla- og frístundaráðs, eru veitt höfundum og þýðendum barnabóka fyrir metnaðarfullar ritsmíðar og þýðingar fyrir börn. Verðlaunin eru því þrískipt, þ.e. veitt eru verðlaun fyrir bestu frumsömdu íslensku barnabókina, bestu þýðingu á barnabók yfir á íslensku og bestu myndskreytingu á íslenskri barnabók. Nánar á Reykjavík.is

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Dómnefnd verðlaunanna er skipuð af borgarráði og er hún skipuð þremur einstaklingum. Frestur til að senda inn handrit er auglýstur á vef Reykjavíkurborgar.

Blóðdropinn

Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun voru aftent í fyrsta sinn haustið 2007. Verðlaunabókin er framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Vefur Bókmenntaborgarinnar.

Bókmenntaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar

Minningarsjóður Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda á Kirkjubóli og Ingibjargar Sigurðardóttur konu hans, veitir verðlaunin. Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins skulu verðlaunin veitt þriðja hvert ár. Vefur Bókmenntaborgarinnar.

Viðurkenning Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeild IBBY

Barnabókaráð veitir árlega viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar. Afhending viðurkenninganna fer fram á sumardaginn fyrsta. Vefur IBBY á Íslandi.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Verðlaunin eru veitt árlega á „Degi íslenskrar tungu“ 16. nóvember sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar.

Verðlaunin ber að veita einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Auk þess er heimilt að veita stofnunum og fyrirtækjum sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Framkvæmdastjórn dags íslenskrar tungu gerir tillögu til menntamálaráðherra um verðlaunahafa. Vefur menntamálaráðuneytisins.

Bókaverðlaun barnanna

Borgarbókasafn veitir verðlaunin hvert ár fyrir tvær bækur aðra frumsamda og hina þýdda. 6-12 ára börn velja bækurnar og fer valið fram á heimasíðu safnsins og í grunnskólum og bókasöfnum í Reykjavík. Verðlaunin eru veitt á sumardaginn fyrsta. Vefur Borgarbókasafns.

Bókmenntaverðlaun starsfólks bókaverslana

Frá árinu 2000 hafa bóksalar og starfsfólk bókaverslana valið bestu bækur ársins af þeim sem gefnar eru út á Íslandi. Valdar eru bækur úr eftirfarandi sjö flokkum: Besta íslenska skáldsagan, besta þýdda skáldsagan, besta íslenska barnabókin, besta þýdda barnabókin, besta ljóðabókin, besta ævisagan og besta handbókin/fræðibókin. Vefur Borgarbókasafns.

Ljóðstafur Jóns úr Vör

Lista og menningarráð Kópavogs efnir árlega til ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Veitt eru ein verðlaun, kr. 500.000.- og fær verðlaunaskáldið til varðveislu í eitt ár göngustaf sem á er festur skjöldur með nafni þess. Þriggja manna dómnefnd velur úr ljóðum sem berast. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina. Þau mega ekki hafa birst áður. Auglýst er að hausti.
Vefur Bókmenntaborgar.

Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalag þýðenda og túlka veitir Íslensku þýðingaverðlaunin þann 23. apríl ár hvert. Forseti íslands afhendir verðlaunin að Gljúfrasteini. Sjá nánar á heimasíðu Bandalags þýðenda og túlka: www.thot.is og á vef Bókmenntaborgar.

Fjöruverðlaunin

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru fyrst veitt árið 2007. Þau eru veitt á bókmenntahátíð kvenna – Góugleðinni. Vefur verðlaunanna.

Viðurkenning Hagþenkis

Viðurkenning Hagþenkis hefur verið veitt árlega síðan 1987. Samkvæmt skipulagsskrá um viðurkenninguna, sem samþykkt var á aðalfundi félagsins 1993, skal veita hana fyrir samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir.

Heimilt er að veita viðurkenningu fyrir eitt afmarkað verk frá því ári, sem viðurkenningin er miðuð við, eða eldra verk. Einnig er heimilt að veita viðurkenningu fyrir mikilsvert framlag á lengra tímabili. Við veitinguna skal í senn tekið tillit til frumleika og fræðilegs eða menningarlegs gildis verkanna. Vefur Hagþenkis.


Önnur bókmenntaverðlaun:

Vestnorrænu barnabókaverðlaunin

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Barna- og unglingabókaverðlaun Norðurlandaráðs

Glerlykillinn – Norrænu glæpasagnaverðlaunin

H.C. Andersen verðlaunin

Bókmenntaverðlaun Nóbels

Man Booker bókmenntaverðlaunin

Pulitzer bókmenntaverðlaunin

IMPAC Dublin bókmenntaverðlaunin

Listi yfir bókmenntaverðlaun á vef Bókmenntaborgarinnar.