Search
Close this search box.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Rithöfundurinn Gerður Kristný hlaut þann 16. nóvember s.l. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Þau eru árlega veitt einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. 

„Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar minna okkur á margbreytileika miðlunar íslenskunnar. Íslenskan er allskonar, hún er okkar mál og mun ekki dafna á safni heldur þróast sem verkfærið sem við notum alla daga, til að orða hugsanir okkar, til frjórra samskipta og til þess að skapa. Ég óska Gerði Kristnýju hjartanlega til hamingju með verðlaunin og þakka henni fyrir fjölbreytt framlag til íslenskunnar og íslenskra bókmennta,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. 

Úr greinargerð verðlaunanefndar:
„… Við veitingu verðlaunanna að þessu sinni er tekið mið af fjölhæfni verðlaunahafans, en hún hefur skrifað fjölda bóka bæði fyrir börn og fullorðna, verk hennar hafa verið sett upp á leiksviði, ljóð hennar sungin auk þess sem hún hefur kennt í fjölmörgum ritsmiðjum fyrir börn. Rödd Gerðar Kristnýjar er mikilvæg í íslensku samfélagi ekki aðeins vegna þess hvernig hún segir hlutina heldur líka vegna alls þess sem hún hefur að segja.“ 

Um störf Gerðar Kristnýjar: 
Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hún var ritstjóri Mannlífs á árunum 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu. Hún skrifar verk fyrir lesendur á öllum aldri og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikrit auk annars efnis. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, þar á meðal Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu Smörtu, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt og Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndina af pabba – Sögu Thelmu 2005. Árið 2007 var ljóðabók hennar Höggstaður tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ljóðabókin Sálumessa einnig árið 2018 en Gerður hlaut verðlaunin árið 2010 fyrir ljóðabókina Blóðhófni. Unglingasaga Gerðar, Garðurinn, hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010 og þá hlaut hún Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana í flokki ljóðabóka fyrir Sálumessu 2018.

Nýjasta verk Gerðar er barnabókin Iðunn & afi pönk sem kom út á dögunum. 

Ljóð og smásögur Gerðar hafa aukinheldur birst í kennslubókum fyrir grunn- og framhaldsskóla, auk þess sem ljóð hennar og smásögur eru í ýmsum safnritum og tímaritum, íslenskum sem erlendum.  


Viðurkenning á degi íslenskrar tungu

Mennta- og menningarmálaráðherra veitti einnig sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu, að tillögu ráðgjafarnefndarinnar, og hlaut hana Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Magnús Stefánsson formaður tók við viðurkenningunni fyrir hönd félagsins. 

Úr greinargerð nefndarinnar:
„ … Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hefur með félagsstarfi sínu hlúð að grasrótinni í íslenskum skáldskap, aukið við flóru íslenskra góðskálda og haldið í heiðri minningu eldri skálda sem nú eru gengin. Félag ljóðaunnenda hefur sýnt að á Austurlandi er ekki aðeins, eyjaval, eins og Jónas Hallgrímsson orti heldur líka skáldaval. Af þeim sökum fær Félag ljóðaunnenda á Austurlandi sérstaka viðurkenningu fyrir störf í þágu íslensks máls á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. “

Ráðgjafarnefnd verðlaunanna var að þessu sinni skipuð dr. Ingunni Ásdísardóttur sem jafnframt var formaður, dr. Hauki Ingvarssyni og Katrínu Olgu Jóhannesdóttur viðskiptafræðingi.
Sjá nánar um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email