Þrír höfundar hljóta Nýræktarstyrkina í ár fyrir verk sín: Einsamræður eftir Birtu Þórhallsdóttur, Smáglæpir eftir Björn Halldórsson og Afhending eftir Vilhjálm Bergmann Bragason.
Í gær, fimmtudaginn 2. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta þremur nýjum höfundum Nýræktarstyrki til útgáfu á verkum þeirra, en hver styrkur nemur 400.000 kr. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti hverjir hlutu styrkina í ár við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins og er þetta í níunda skipti sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað. Samtals hafa yfir 50 höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi.
Nýræktarstyrkir eru sérstakir styrkir til útgáfu á nýjum íslenskum skáldskap. Styrkjunum er ætlað að styðja við útgáfu á fyrstu verkum nýrra höfunda og er þar átt við skáldverk í víðri merkingu þess orðs, sögur, ljóð, leikrit, eða eitthvað allt annað.
Í ár bárust 35 umsóknir um Nýræktarstyrki. Verkin sem sótt var um fyrir eru af ýmsum toga s.s. skáldsögur, leikrit, ljóð, barna- og ungmennabækur, smásögur og glæpasögur.
Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta hljóta að þessu sinni eftirtalin verk og höfundar:
Einsamræður – Örsögur
Höfundur: Birta Þórhallsdóttir (f. 1989)
Birta er MA nemandi í Ritlist við Háskóla Íslands, verkið er hluti af lokaverkefni hennar, sem hún hefur unnið undir leiðsögn Óskars Árna Óskarssonar.
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:
„“Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.“
Smáglæpir – Smásögur
Höfundur: Björn Halldórsson (f. 1983)
Björn Halldórsson er með BA-gráðu í enskum og amerískum bókmenntum frá Háskóla East Anglia héraðs í Norwich, Englandi og MFA gráðu í skapandi skrifum frá Háskólanum í Glasgow.
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:
„Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.“
Afhending – Leikrit
Höfundur: Vilhjálmur Bergmann Bragason (f. 1988)
Vilhjálmur hefur nýlokið MA námi í leikhúsbókmenntum og leikritun frá RADA, Royal Academy of Dramatic Arts í London.
Umsögn bókmenntaráðgjafa um verk og höfund:
„Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mæta vel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.“
Tölulegar upplýsingar um Nýræktarstyrkir
Umsóknum um Nýræktarstyrki hefur fjölgað verulega frá því þeim var fyrst úthlutað hjá Bókmenntasjóði, forvera Miðstöðvar íslenskra bókmennta, árið 2008, en þá bárust 9 umsóknir og 5 styrkir voru veittir, hver að upphæð 200.000 kr.
Árið 2009 bárust 27 umsóknir og 6 hlutu styrki, árið 2010 bárust 39 umsóknir og voru 5 styrkir veittir og árið 2011 bárust 30 umsóknir og þá var úthlutað 5 styrkjum. Árið 2012 bárust 23 umsóknir og voru 5 styrkir veittir að upphæð 200.000 kr., 2013 bárust 49 umsóknir og 4 verk hlutu styrk. Árið 2014 barst 31 umsókn um Nýræktarstyrkina og hlutu fjórir styrk að upphæð 250.000 kr. Árið 2015 voru umsóknirnar 51 og styrkupphæðin var hækkuð í 400.000 kr.