Search
Close this search box.

Unnur Lilja Aradóttir hlýtur Svartfuglinn

Unnur Lilja Aradóttir og Eliza Reid forsetafrú.

Unnur Lilja Aradóttir hlaut Svartfuglinn í ár. Eliza Reid, forsetafrú og bókmenntafrömuður, afhenti verðlaunin þann 29. september sl. og fyrsta eintak bókarinnar, Höggið. Í áliti dómnefndar um bókina segir m.a.: „Höfundurinn magnar upp mikla sálfræðilega spennu og hleypir lesandanum smám saman nær glæpnum sem kemur verulega á óvart.“ Ung kona vaknar á sjúkrahúsi með höfuðáverka – og hefur auk þess misst minnið. Hún þekkir hvorki tilveru sína né sjálfa sig en fljótlega fær hún á tilfinninguna að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vera. Hún leggur upp í ferðalag á vit fortíðar sinnar – viðsjárvert ferðalag þar sem skelfilegir atburðir afhjúpast smám saman.

Samkeppnin um Svartfuglinn er ætluð höfundum sem hafa ekki áður sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson stofnuðu til verðlaunanna í samvinnu við útgefanda sinn, Veröld, og er þetta í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt. Verðlaunin nema 500.000 krónum auk hefðbundinna höfundarlauna. Einnig býðst þeim sem sigur ber úr býtum samningur við umboðsmanninn David H. Headley en tímaritið Bookseller útnefndi hann sem einn af 100 áhrifamestu mönnum breskrar bókaútgáfu.

Yrsa og Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra Veraldar.

Rithöfundasamband Íslands óskar Unni Lilju til hamingju með verðlaunin!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email