Search
Close this search box.

Umsögn RSÍ vegna þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2018 – 2022

Rithöfundasamband Íslands lýsir áhyggjum af umhverfi og smæð Bókasafnssjóðs höfunda, en úr honum greiðast afnotagjöld fyrir ritverk til almenningsútlána.

1) Bókasafnssjóður höfunda hefur aldrei náð þeirri stærð sem honum var ætlað, en hann er afar mikilvægur, sérlega fyrir barnabókahöfunda.

2) RSÍ hvetur stjórnvöld til að styrkja innkaup til almennings- og skólabókasafna í landinu. Um leið og hávær umræða er um læsi í samfélaginu þá eru innkaup á nýju efni sáralítil fyrir grunnskólana, en víða eru sameinuð skóla- og hérðasbókasöfn. Menntamálayfirvöld þurfa að koma hér að með öflugum og skipulegum hætti til að stórauka aðgengi almennings, sérlega barna og ungmenna, að nýjum ritverkum. Lestur er vart hægt að auka nema með auknu aðgengi að lesefni. Leikskólar kaupa ekki skipulega inn bækur og þar er engin innkaupaskylda eða fjárstuðningur. Á sama tíma hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að sjá til þess að barnabækur séu samdar og þeim dreift með löggildingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslenskur bókamarkaður er örmarkaður sem ber sig ekki og styðja þarf bæði við höfunda og útgefendur svo hægt sé að gefa út fjölbreytt og vandað efni og efla þannig hugsun og tungumál.

3) Rithöfundasamband Íslands hvetur stjórnvöld til að fjölga starfslaunum í launasjóði rithöfunda svo efla megi stétt atvinnuhöfunda, og skilgreina auk þess viðmið fyrir listamannalaun, sem ekki eru fyrir hendi lengur. Listamenn eru í lægstu launaþrepum og launasjóður á sér engin viðmið.

4) RSÍ hvetur stjórnvöld til að hafa kjark og menningarlegan metnað til að afnema virðisaukaskatt af bókum, en skatturinn er að sliga örmarkað í samfélagi sem kennir sig þó enn við bókmenntir.

5) Rithöfundasambandið hvetur einnig til þess að RÚV ofh fái stóraukinn stuðning til að standa undir merkjum og sinna mikilvægu hlutverki í þágu menningar.
Stjórn RSÍ:
Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður
Vilborg Davíðsdóttir, varaformaður
Hallgrímur Helgason
Bjarni Bjarnason
Margrét Tryggvadóttir
Vilhelm Anton Jónsson
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email