Search
Close this search box.

Umræðan skiptir máli

Við afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016 flutti Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, ávarp sem var hvort tveggja í senn þörf áminning og hvatningarorð og hefur Rithöfundasambandið fengið leyfi til að birta brot úr ávarpinu:

Herra forseti, forsetafrú, höfundar, útgefendur og aðrir gestir,

Í dag verða Íslensku bókmenntaverðlaunin afhent í 27. skiptið og líkt og undanfarin 2 ár eru flokkarnir þrír sem verðlaunað er fyrir flokkar fagurbókmennta, fræðibóka og rita almenns efnis og barna og ungmennabóka, en nú er verðlaunað í þriðja skiptið í þeim flokki.

Það er ekki hægt að segja annað en að tilkoma þessa þriðja flokks hafi verið mikið heillaspor í sögu verðlaunanna, en vegur barna- og ungmennabóka hefur vaxið á undanförnum árum og nú ber svo við að fleiri en ein og fleiri en tvær bækur í þeim flokki eru á meðal mest seldu bóka ársins. Fyrir örfáum árum heyrði það til algerra undantekninga ef fleiri en ein íslensk barna- eða unglingabók voru meðal mest seldu bóka. Þetta er mikið gleðiefni, þó ekki væri nema vegna þess að þetta afar sterk vísbending um að mun fleiri börn og unglingar kaupi og fái, og lesi nýjar íslenskar barnabækur. Það eitt er tilefni bjartsýni fyrir íslenskan bókamarkað.

Verðlaunin, ásamt öðrum samverkandi þáttum, hafa komið barna- og ungmennabókmenntum aftur á kortið og jafnvel aftur í tísku. Markaðurinn hefur átt við ramman reip að draga, jafnt ritun og útgáfa barna- og unglingabóka, en nú hefur á skömmum tíma orðið gjörbreyting á og nánast bylting. Annar og ekki síður sterkur áhrifavaldur er sú mikla umræða sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum og árum um mikilvægi lestrar, jafnan í kjölfar kannanna sem sýnt hafa bágborna stöðu okkar þegar kemur að læsi, lesskilningi og lestri hjá börnum og unglingum.

Umfjöllun um lestur, bækur og ýmsa þætti íslensks bókamarkaðar hefur áhrif. Umræðan um aðbúnað að íslenskum bókamarkaði, eða jafnvel að íslenskri menningu, hefur verið afar hávær undanfarnar vikur. Umræðan um starfslaun listamanna hefur verið afar óvægin og margir reiddu hátt til höggs, kannski hærra en oft áður. Staðreyndir fara oft á tíðum fyrir lítið þegar umræðan fer að stórum hluta fram á samfélagsmiðlum og fréttirnar sem skrifaðar eru byggja ekki síst á því sem sagt er þar. Þá er því miður útilokað að eiga í fullu tré við þá sem hæst hafa.

Ekkert er hafið yfir gagnrýni, það þekkjum við sem störfum í þessu umhverfi manna best. Í umhverfi þar sem gagnrýni á verk okkar er nánast daglegt brauð. Það voru því mikil öfugmæli þegar ég las einhvers staðar að rithöfundar vildu hvorki né þyldu gagnrýni. Ætli nokkur stétt sé jafn vön gagnrýni og rithöfundar, utan kannski stjórnmálamenn. En samt sem áður hefur okkur reynst erfitt að virkja umræðuna og gagnrýnina okkur í hag – sem á vel að vera raunhæft. Kannski gera samfélagsmiðlar okkur erfiðara fyrir þar sem svo auðvelt er að koma skoðunum sínum á framfæri við fjöldann, og þá ekki síst illa ígrunduðum skoðunum og upphrópunum í bland við allt annað. Þá getur verið erfitt að taka til varna og stuðla að uppbyggilegri umræðu, en henni eigum við alltaf að fagna og taka þátt í.

Í mínum huga þurfum við að undirbúa okkur betur undir umræður af þessu tagi. Við þurfum að vera meðvitaðri um markaðinn sem við störfum á, meðvitaðri um gagnið, gamanið og ánægjuna sem við sköpum lesendum á hverjum degi . Kannski þurfum við þó ekki síst að vera meðvitaðri um virðisaukann, peningalega virðisaukann sem við sköpum á hverju ári. Og hann er verulegur þó svo við störfum á örmarkaði sem yfirleitt berst í bökkum, þar sem bókaútgáfur eru reknar meira af ástríðu og vilja en á traustum fjárhagslegum grunni. Við störfum á markaði þar sem þeir rithöfundar eru teljandi á fingrum annarrar handar sem geta lifað sómasamlegu lífi eingöngu af höfundalaunum sínum.

Íslenskur bókamarkaður skapar svo miklu meiri tekjur fyrir ríkiskassann en hann fær nokkru sinni til baka í formi styrkja eða stuðnings. Svo lítið skilar sér reyndar til baka að maður hálfpartinn skammast sín fyrir að segja frá því, skammast sín fyrir það hversu döpur aðkoma hins opinbera er að þessum kraftaverkamarkaði sem íslenskur bókamarkaður er. Líklega myndi enginn trúa því miðað við afraksturinn. Erlendis telja flestir að íslensk bókaútgáfa hljóti að vera að stærstum hluta til á framfæri hins opinbera, svo smár en jafnframt kraftmikill er markaðurinn, svo ekki sé nú minnst á gæðin. Það er nánast að verða daglegt brauð að heyra af tilnefningum, verðlaunum eða öðrum jákvæðum tíðindum af bókum eftir íslenska rithöfunda á erlendum bókamörkuðum.

Þegar við sem á þessum markaði störfum erum svo ásökuð um að þiggja ölmusur, eða fast að því, þá eigum við óhikað að benda á hina veraldlegu verðmætasköpun íslensks bókamarkaðar.

Við verðum engu að síður að taka gagnrýninni og ábendingunum og reyna að halda umræðunni á vitrænni nótum en verið hefur. Það er vel hægt.

Án þess að vera með talnalanglokur vil ég hér nefna að bóksala á Íslandi nam á síðasta ári rúmum fimm milljörðum króna. Þar af var virðisaukaskattur af bókum líklegast nálægt 600 milljónum króna sem skiluðu sér beint í ríkisskassann. Um leið er vert að geta þess að í riti dr. Ágústs Einarssonar um hagræn áhrif ritlistar er framlag menningar til landsframleiðslu um 4% á meðan framlag landbúnaðar er til dæmis um 1%.

Og gleymum svo ekki heldur dýrmætum gjaldeyri sem bókmenntirnar færa til landsins, en á liðnum fjórum árum nema höfundalaunagreiðslur til Íslands vegna útkomu bóka íslenskra höfunda á erlendri grundu líklega hátt í tveimur milljörðum króna. Og látum alveg liggja milli hluta hversu margir erlendir ferðamenn koma til landsins gagngert vegna menningar okkar og sögu, ekki síst bókmenntasögu. Þar væri auðvelt að telja sig upp í ansi marga milljarða í gjaldeyristekjum sem íslenskur bókamarkaður skapar þjóðarbúinu árlega.

Þrátt fyrir þetta er upplifunin sú að okkur beri að skríða meðfram veggjum af skömm yfir því vera á starfslaunum eða þiggja aðra aðkomu hins opinbera.

Það er fullkomlega út í hött þegar verðmætin sem við sköpum, veraldleg og andleg, eru margfalt meiri en það sem til okkar kemur.

Gleymum því heldur ekki að tungumálið, bókmenntirnar, eru og voru grundvöllur menningu þessarar þjóðar. Læsi og lestur eru lykill að framförum, bæði í fortíð, framtíð og ekki síst nútíð.

Við, bókmenntafólk, höfum enga ástæðu til annars en að bera höfuðið hátt og vera stolt af því sem við gerum.

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email