Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2022?

Andrej Kúrkov © Pako Mera /Opale /Bridgeman Images

Úkraínski rithöfundurinn Andrej Kúrkov kemur til Íslands til þess að veita Alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness viðtöku þann 7. september næstkomandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhendir verðlaunin sem nú verða veitt í þriðja sinn. Fyrri verðlaunahafar eru rithöfundarnir Ian McEwan og Elif Shafak.

Andrej Kúrkov sló í gegn með bókinni Dauðinn og mörgæsin sem gerði hann að þekktasta samtímahöfundi Úkraínumanna. Í henni fjallar Kúrkov á bráðskemmtilegan og tregafullan hátt um fjarstæðukenndan veruleika hversdagsfólks í löndum Austur-Evrópu eftir fall járntjaldsins og það gerir Kúrkov líka í fleiri verkum sínum. Dauðinn og mörgæsin kom út í íslenskri þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur hjá Bjarti árið 2005 og bókin var endurútgefin vorið 2022.

Kúrkov er afkastamikill rithöfundur og hafa bækur hans komið út á 42 tungumálum. Hann skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og fjölmargar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir handritum hans. Á þessu ári kemur út á bók með dagbókarskrifum hans sem hófust í aðdraganda innrásar Rússa í Úkraínu. Bókina skrifar hann á ensku og ber hún heitir Diary of an Invasion. Kúrkov er forseti alþjóðlegu rithöfundasamtakanna PEN í Úkraínu og hefur undanfarin misseri ferðast víða um heim og fjallað um innrás Rússa í Úkraínu. Kúrkov tók þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2005 og muna margir eftir stórskemmtilegri framkomu hans á upplestrarkvöldi í Iðnó.

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness verða afhent í Hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 7. september kl. 16 og mun Kúrkov við það tilefni flytja fyrirlestur Halldórs Laxness. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Um kvöldið kemur Kúrkov fram á upplestrarkvöldi í Iðnó ásamt fleiri höfundum. Báðir viðburðirnir eru ókeypis og opnir öllum.

Verðlaunin nema 15.000 evrum og eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma. Að verðlaununum standa Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Gljúfrasteinn og Forlagið. Í valnefnd verðlaunanna að þessu sinni voru Egill Helgason fjölmiðlamaður, Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Elif Shafak, handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness 2021.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email