Tveir nýir heiðursfélagar Rithöfundasambandsins

Á aðalfundi þann 11. maí sl. voru kjörnir tveir nýir heiðursfélagar RSÍ, Steinunn Sigurðardóttir og Þórarinn Eldjárn.

Karl Ágúst Úlfsson fráfarandi formaður fylgdi tillögunni um heiðursfélaga úr hlaði með þessum orðum:

Það er að því komið að ég sinni mínu síðasta verki sem formaður RSÍ og satt best að segja einu ánægjulegasta sem ég hef fengið að fást við, en það er að tilkynna um og heiðara tvo nýja heiðursfélaga sambandsins. Það er mér líka mikill heiður og uppspretta gleði að þessir væntanlegu heiðursfélagar skuli vera í hópi uppáhalds höfunda minna og að báðir skyldu hrífa mig upp úr skónum þegar ég var unglingur.

Sem ung skáld voru báðir höfundarnir á meðal stofnenda og félaga í skáldahópnum Listaskáldin vondu. Þegar sú grúppa var sett á laggirnar var ég í menntaskóla og við skólasystir mín, Ragnheiður Tryggvadóttir, hrifumst svo takmarkalaust af hópnum, einkum þessum tveimur skáldum, að við fengum Listaskáldin vondu til að troða upp á ljóðakvöldi fyrir kengfullum sal í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Þá vildi hins vegar svo illa til að hvorugt af uppáhalds skáldunum okkar gat tekið þátt í kvöldinu, annað var trúlega statt í útlöndum, en hitt með alvarlega magakveisu heima hjá sér. Þetta voru vissulega vonbrigði, en dró samt ekkert úr aðdáun okkar á þeim. Hún lifir enn og hefur aldrei dofnað.

ÞÓRARINN ELDJÁRN

Fyrra skáldið er Þórarinn Eldjárn. Þórarinn gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 1974 undir þeim frumlega titli Kvæði. Þar sýndi hann strax færni sína, húmor og ótrúlegt vald á öllum bragarháttum sem gátu komið við sögu. Fjórum árum síðar komu Disneyrímur út og aftur skoraði hann öll mörk sem um þær mundir skoruðust, með snarpri ádeilu, fjörugu hugmyndaflugi og óumdeilanlegri kunnáttu í rímnagerð. Allar götur síðan hafa bækur hans komið þétt út, jafnt ljóðbækur fyrir börn og fullorðna í bundnu máli og óbundnu, smásagnasöfn og skáldsögur, en þar að auki hefur hann skrifað mögnuð leikrit sem sett hafa verið á svið og fengist við stórar og vandasamar þýðingar.

Þórarinn gekk í RSÍ árið 1977. Hann var meðstjórnandi í stjórn sambandsins í fjögur kjörtímabil, frá 1984 til ’92. Verk hans hafa mörg verið þýdd á erlend tungumál og 2008 var hann gerður að borgarlistamanni Reykjavíkur.

Og úr því ég minntist á leikritaskrif hans áðan verð ég líka að tala um þetta: Við Þórarinn höfum ekki unnið mikið saman, en þó hafa verk okkar snerst lítils háttar. Fyrir um það bil fimm árum skrifuðum við saman leikverið Nú get ég, sem sett var upp í Hörpu, þar sem ég skrifaði leiktextann en Þórarinn söngtextana. Þegar við unnum þetta sameiginlega verk okkar hittumst við aldrei og töluðumst í rauninni aldrei við, heldur afhenti hvor okkar um sig sinn part til framleiðanda og leikstjóra og síðan mættum við einfaldlega spariklæddir á frumsýningu nokkrum vikum síðar. Afskaplega farsælt og átakalaust samstarf. Hitt er mér þó mun eftirminnilegra þegar ég lék aðalhlutverkið í Tilbury fyrir hátt í fjórum áratugum, sjónvarpsmynd sem byggð var á smásögu eftir Þórarinn. Þetta var fyrsta og eina hryllinghlutverkið sem ég hef leikið og þó að gerðar væru ýmsar afgerandi breytingar í kvikmyndahandritinu var þó sagan magnaður hugmynda- og persónugrunnur og vinnan við kvikmyndina eitt það eftirminnilegast sem ég fékkst við á leikarferli mínum. Eins og þið sjáið og heyrið þarf ég sjálfur á mikilli athygli að halda hér í kvöld.

Ágætu félagar, stjórn Rithöfundasambands Íslands leggur til að Þórarinn Eldjárn verði gerður að heiðursfélaga sambandsins.

STEINUNN SIGURÐARDÓTTIR

Hinn heiðursfélaginn sem bætist hér á vegginn er Steinunn Sigurðardóttir. Fyrsta bók hennar, Sífellur, kom út 1969, þegar hún var aðeins nítján ára gömul. Það leyndi sér ekki að þar var efnileg skáldkona á ferðinni. Sjálfur var ég hins vegar svo lítill að ég komst ekki í að lesa þá ljóðabók – ekki þegar hún kom út, en talsvert löngu síðar. Önnur ljóðabók hennar, Þar og þá, fór hins vegar fingrum um hjarta mitt og gerði mig að miklum aðdáanda höfundarins. Steinunn stundaði nám í heimspeki og sálfræði í Dyflini en hélt áfram að senda frá sér skáldverk, jafnt ljóðabækur, smásögur, skáldsögur, ævisögur, barnabók, þýðingar og leikrit. Mér hefur þótt einstaklega ánægjulegt lesa verk hennar og ekki síður að horfa á leikverkin eða hlusta á þau útvarpsleikrit sem heyrðust í útvarpsleikhúsi RÚV fyrir mörgum árum. Satt að segja hef ég oft óskað þess að þau væru fleiri. En ekki þar fyrir, verk Steinunnar eru fjölmörg og fjölbreytt og það eru alltaf mikil tímamót þegar nýtt skáldverk birtist almenningi og aðdáendum hennar.

Steinunn gekk í RSÍ 1975, aðeins ári eftir að það var stofnað. Hún sat í stjórn sambandsins sem varaformaður tvö kjörtímabil, frá 1988 til ’91. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og frönsk bíómynd var gerð eftir sögu hennar Tímaþjófnum árið 1999. Auk þess hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað.

Við Steinunn höfum átt allnokkur samskipti frá því við hittumst fyrst þegar hún var fréttamaður á Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum áratugum. Og einu sinni áttum við svolítið samstarf, sem ég verð eiginlega að segja frá. Steinunn hafði þýtt leikritið Listamaður niður stiga eftir Tom Stoppard fyrir Útvarpsleikhúsið á RÚV. Þegar farið var að æfa verkið fannst leikstjóranum að í texta þess væru á stöku stað vandamál sem rétt væri að takast á við. Tom Stoppard er einmitt höfundur sem leikur sér endalaust með merkingu orða og setninga, enda eru orðaleikir í annarri hverri málsgrein í leikritum hans. Ég var kornungur aðstoðarleikstjóri í þessu verki, en líka farinn að starfa sem þýðandi – og það varð samkomulag á milli mín, leikstjórans og Steinunnar að ég myndi rýna í textann með henni og vita hvort við fyndum lausnir á þeim vandamálum sem voru fyrir hendi. Og við sátum yfir handritinu, rýndum og hentum á milli okkar hugmyndum að orðaleikjum, sem hefðu samt sem áður réttar tvær eða þrjár eða fjórar merkingar. Og þessar hugmyndir voru svo sannarlega misgóðar. Að lokum lét Steinunn sig falla aftur á bak í stólnum og dæsti: „Einar Ben sagði ORÐ ER Á ÍSLANDI TIL/UM ALLT SEM ER HUGSAÐ Á JÖRÐU. Það er bara bölvað bull.“

Góðir félagar, stjórn Rithöfundasamband Íslands leggur til að Steinunn Sigurðardóttir verði gerð að heiðursfélaga sambandsins.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email