Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verða veitt í sjötta sinn í maí.
Tilnefningar til Maístjörnunnar vegna ljóðabókar útgefinnar 2021 voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi í dag.
Tilnefndar bækur eru:
Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús
Menn sem elska menn eftir Hauk Ingvarsson. Útgefandi: Mál og menning
Klettur – Ljóð úr sprungum eftir Ólaf Svein Jóhannesson. Útgefandi: Bjartur
Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson. Útgefandi: Bjartur
Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur. Útgefandi Angústúra
Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur. Útgefandi: Mál og menning
Tilnefndar bækur eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.
Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2021 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Soffía Auður Birgisdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Birgir Freyr Lúðvígsson fyrir hönd Landsbókasafnsins.
Verðlaunin verða veitt við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur.
Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi.