Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis

940583

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 voru kynntar í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið 2. feb. kl. 16:30 í Borgarbókasafni, Grófarhúsi, Tryggvagötu en Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu bækur er til greina kæmu. Viðurkenningaráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, til tveggja ára í senn stendur að valinu en það hóf störf um miðjan október og fundaði vikulega. Viðurkenningarráðið fyrir útgáfu ársins 2016 skipuðu: Baldur Sigurðsson, Guðný Hallgrímsdóttir, Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Sólrún Harðardóttir og Þórunn Blöndal.

Eftirfarandi rit og höfundar þeirra eru tilnefnd:

Ársæll Már Arnarsson. Síðustu ár sálarinnar. Háskólaútgáfan.
Fléttað er saman á líflegan hátt hugmyndum ólíkra fræðigreina um sálina, allt frá Forn-Grikkjum til vorra daga.

Bergsveinn Birgisson. Leitin að svarta víkingnum. Bjartur.
Ævintýraleg saga Geirmundar heljarskinns lifnar í samspili við fræðilega rannsókn höfundar og úr verður nýstárleg og trúverðug frásögn.

Elín Bára Magnúsdóttir. Eyrbyggja saga. Efni og höfundareinkenni. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands, og Háskólaútgáfan.
Aðgengileg greining á flókinni sögu og höfundi hennar er sett í samhengi við valdabaráttu þjóðveldisaldar.

Garðar Gíslason. Á ferð um samfélagið. Þjóðfélagsfræði. Menntamálastofnun.
Vel ígrundað námsefni sem hvetur nemendur til að nota fjölbreyttar heimildir og hugsa á gagnrýninn og skapandi hátt.

Guðrún Ingólfsdóttir. Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld. Háskólaútgáfan.
Ítarlegt verk um lítt kannað efni sem varpar ljósi á sambúð kvenna og bóka á miðöldum.

Helgi Hallgrímsson. Fljótsdæla. Mannlíf og náttúrufar í Fljótsdalshreppi. Skrudda.
Af alúð og víðtækri þekkingu er fléttað saman sögu, náttúru og mannlífi í Fljótsdal. Vandað og ríkulega myndskreytt verk.

Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir (ritstj.). Landsnefndin fyrri 1770–1771. Den islandske Landkommission 1770–1771, I og II. Þjóðskjalasafn Íslands. Sögufélag.
Einstaklega vönduð útgáfa á frumheimildum um íslenskt samfélag á 18. öld. Ítarlegur inngangur, orðskýringar og vefsíða gefa verkinu aukið gildi.

Steinunn Knútsdóttir. Lóðrétt rannsókn. Ódauðleg verk Áhugaleikhúss atvinnumanna 2005–2015. Listaháskóli Íslands og Háskólaútgáfan.
Óvenjuleg innsýn í hugmyndafræði um leikhús og hvernig unnið er að leikverkum frá fyrstu hugmynd til sýninga.

Viðar Hreinsson. Jón lærði og náttúra náttúrunnar. Lesstofan.
Með nærfærnum hætti er fjallað um ævintýralegt lífshlaup manns á mörkum forneskju og nútímafræða í samhengi við evrópska vísindasögu.

Úlfhildur Dagsdóttir. Sjónsbók. Ævintýrið um höfundinn, súrrealisma og sýnir. JPV.
Fjallað er af þekkingu og innsæi um verk sérstæðs höfundar og ferillinn tengdur við lífssýn hans og stefnur í listum.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email