Bókmenntir
Kata eftir Steinar Braga
Frásagnarháttur Steinars Braga og ferðalög hans um landamæri raunsæis og fantasíu hefur verið í mótun í síðustu skáldsögum hans. Í Kötu nýtist þessi aðferð frábærlega til þess að varpa ljósi á alvarlegt samfélagsmein og – ekki síður – sálarástand þeirra sem þurfa að búa við það. Hér skorar Steinar Bragi íslenskt réttarkerfi og samfélag á hólm, hann dregur upp grimmdarlega mynd af kynbundnu ofbeldi gegn konum og máttvana dómstólum sem bregðast í sífellu fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra.
Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur
Eins og svo margar verulega góðar myndir segja teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur stóra sögu. Í einu vetfangi, einni setningu, einni mynd nær hún að fanga tíðaranda, samfélag og manneskjur – breyskar og grátbroslegar í öllu sínu veldi. Lóaboratoríum hreinsar hismið frá kjarnanum og afhjúpar okkur öll – hún er dásamlega fyndin og óþægilega sönn en merkilega laus við mannfyrirlitningu.
Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur
Í látlausri en sterkri frásögn dregur Guðrún Eva Mínervudóttir upp mynd af unglingsstúlku á tímamótum. Sem fyrr er manneskjan og samband hennar við aðrar manneskjur í forgrunni höfundar og í Englaryki sýnir hún á nærfærinn og sannfærandi hátt áhrif stúlkunnar á fjölskyldu sína, vini og loks bæjarfélagið Ariallt.
Stundarfró eftir Orra Harðarson
Stundarfró er lipur og lífleg frumraun, þar sem Orri Harðarson bregður upp tíðarandalýsingu frá níunda áratug síðustu aldar. Hér nýtur sín vel bráðskemmtilegur stíll og vald hans yfir tungumálinu. Hann leikur sér með klisjurnar og sýn hans á drykkfellda snillinginn nær átakanlegum hæðum og lægðum – er í senn kunnugleg og fersk.
Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur
Elísabet Kristín Jökulsdóttir hefur einstaka rödd í íslenskum bókmenntum. Í Enginn dans við Ufsaklett hljómar rödd hennar óvægin, heiðarleg, fyndin og sorgleg í senn. Í ljóðabók sem lýsir ofbeldissambandi tekst henni að koma flóknum tilfinningum, örvæntingu og gleði í áhrifamikið og sterkt form.
Dómnefnd: Maríanna Clara Lúthersdóttir (formaður), Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Þorgeir Tryggvason.
Fræði
Sveitin í sálinni – Eggert Þór Bernharðsson (JPV/Forlagið)
Orð að sönnu – Íslenskir málshættir og orðskviðir – Jón G. Friðjónsson (JPV/Forlagið)
Ofbeldi á heimili – Með augum barna – Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir (Háskólaútgáfan)
Lífríki Íslands – Snorri Baldursson (JPV/Forlagið)
Reykjavík sem ekki varð – Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg (Crymogea)
Í þessu fallega verki rekja höfundar merkilega sögu margra af þekktustu byggingum Reykjavíkur. Þeir beita þeirri nýstárlegu aðferð að segja frá mótun höfuðborgarinnar með því að beina kastljósinu fyrst og fremst að því sem ekki varð, enda eru í bókinni teikningar af stórhýsum sem aldrei risu og þrívíddarmyndir af opinberum byggingum á stöðum sem þeim var upphaflega ætlaður þó að þær hafi endað annars staðar. Líkja má aðferðinni við svokallaða „hvað ef?“ sagnfræði en þá veltir fræðimaðurinn fyrir sér þróun mála ef hlutirnir hefðu æxlast á annan veg. Um leið og Anna Dröfn og Guðni varpa þannig nýju ljósi á mörg helstu kennileiti borgarinnar segja þau áhugaverða samfélagssögu í aðgengilegri og bráðskemmtilegri bók.
Dómnefnd: Árni Matthíasson (formaður), Hildigunnur Þráinsdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir.