Search
Close this search box.

Tilnefningar til Menningarverðlauna DV 2014

Bókmenntir

Kata eftir Steinar Braga

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Frásagnarháttur Steinars Braga og ferðalög hans um landamæri raunsæis og fantasíu hefur verið í mótun í síðustu skáldsögum hans. Í Kötu nýtist þessi aðferð frábærlega til þess að varpa ljósi á alvarlegt samfélagsmein og – ekki síður – sálarástand þeirra sem þurfa að búa við það. Hér skorar Steinar Bragi íslenskt réttarkerfi og samfélag á hólm, hann dregur upp grimmdarlega mynd af kynbundnu ofbeldi gegn konum og máttvana dómstólum sem bregðast í sífellu fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra.

Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Eins og svo margar verulega góðar myndir segja teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur stóra sögu. Í einu vetfangi, einni setningu, einni mynd nær hún að fanga tíðaranda, samfélag og manneskjur – breyskar og grátbroslegar í öllu sínu veldi. Lóaboratoríum hreinsar hismið frá kjarnanum og afhjúpar okkur öll – hún er dásamlega fyndin og óþægilega sönn en merkilega laus við mannfyrirlitningu.

Englaryk eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í látlausri en sterkri frásögn dregur Guðrún Eva Mínervudóttir upp mynd af unglingsstúlku á tímamótum. Sem fyrr er manneskjan og samband hennar við aðrar manneskjur í forgrunni höfundar og í Englaryki sýnir hún á nærfærinn og sannfærandi hátt áhrif stúlkunnar á fjölskyldu sína, vini og loks bæjarfélagið Ariallt.

Guðrúnu lætur sérlega vel að láta ólíkar raddir hljóma og hefur einstakt lag á að skrifa samtöl sem tekst hið vandmeðfarna; að vera full af skáldlegri list en þó algjörlega trúverðug.

Stundarfró eftir Orra Harðarson

Stundarfró er lipur og lífleg frumraun, þar sem Orri Harðarson bregður upp tíðarandalýsingu frá níunda áratug síðustu aldar. Hér nýtur sín vel bráðskemmtilegur stíll og vald hans yfir tungumálinu. Hann leikur sér með klisjurnar og sýn hans á drykkfellda snillinginn nær átakanlegum hæðum og lægðum – er í senn kunnugleg og fersk.

Enginn dans við Ufsaklett eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hefur einstaka rödd í íslenskum bókmenntum. Í Enginn dans við Ufsaklett hljómar rödd hennar óvægin, heiðarleg, fyndin og sorgleg í senn. Í ljóðabók sem lýsir ofbeldissambandi tekst henni að koma flóknum tilfinningum, örvæntingu og gleði í áhrifamikið og sterkt form.

Dómnefnd: Maríanna Clara Lúthersdóttir (formaður), Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Þorgeir Tryggvason.

Fræði

Sveitin í sálinni – Eggert Þór Bernharðsson (JPV/Forlagið)

Eggert Þór Bernharðsson var brautryðjandi í miðlun sagnfræði til almennings og Sveitin í sálinni er fyrirtaks dæmi um það. Í bókinni dregur hann upp stórskemmtilega og fræðandi mynd af íbúum hinnar ört stækkandi Reykjavíkur á árunum 1930 til 1970 en þá fluttu þúsundir Íslendinga á mölina án þess þó að segja skilið við sveitina; íbúar borgarinnar héldu dýr, heyjuðu og ræktuðu kartöflur, kál og aðrar matjurtir. Fallegur og skemmtilegur texti Eggerts segir þó aðeins hálfa söguna, því bókina prýðir mikill fjöldi mynda sem í sjálfu sér er fjársjóður öllum sem vilja kynnast sögu Reykjavíkur. Verkið er efnismikið, vandað og unnið af miklu innsæi.

Orð að sönnu – Íslenskir málshættir og orðskviðir – Jón G. Friðjónsson (JPV/Forlagið)

Í þessu stærsta safni málshátta sem gefið hefur verið út á íslenska tungu fylgir Jón G. Friðjónsson eftir þrekvirki sínu Mergur málsins. Í Orð að sönnu er að finna hálft þrettánda þúsund málshátta með ítarlegum skýringum þar sem m.a. er getið um elstu dæmi og prentaðar heimildir. Höfundur hefur safnað og skráð málshætti síðastliðin 40 ár og nú fá lesendur að njóta afrakstursins. Verkið er mikið að vöxtum og afar vandað, í senn fræðilegt og alþýðlegt rit sem allir ættu að geta haft af bæði gagn og gaman.

Ofbeldi á heimili – Með augum barna – Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir (Háskólaútgáfan)

Í þessari vönduðu bók leiða saman hesta sína nokkrar fræðikonur undir ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur. Ofbeldi á heimili byggir á merkilegri og einstakri rannsókn höfunda á heimilisofbeldi, en í henni segja börn frá eigin reynslu af ofbeldi og viðhorfi sínu til þess eins og undirtitill bókarinnar vísar til. Rannsóknin sjálf er afar vönduð og vel unnin og birtist hér almenningi í aðgengilegum texta og framsetningu. Lesendur fá innsýn í nöturlegt líf fjölda barna og ungmenna á Íslandi og bókin mun án efa gagnast öllum sem sinna börnum. Ofbeldi á heimilum er mikilvæg bók sem varðar alla í samfélaginu.

Lífríki Íslands – Snorri Baldursson (JPV/Forlagið)

Í bókinni Lífríki Íslands segir Snorri Baldursson frá vistkerfi lands og sjávar af mikilli þekkingu, rekur myndunarsögu landsins og hvernig það hefur mótast í aldanna rás og hvaða afleiðingar sú mótun hefur haft á framvindu lífríkisins. Umhverfisvernd er höfundi ofarlega í huga og hann dregur upp dökka mynd af því hvernig manneskjan leikur lífríkið og hvetur til náttúruverndar. Bókina prýða myndir, kort og töflur sem gera verkið afar yfirgripsmikið og Snorri hrífur lesandann með sér með einkar læsilegum texta í þessum glæsilega og fallega prentgrip.

Reykjavík sem ekki varð – Anna Dröfn Ágústsdóttir og Guðni Valberg (Crymogea)

Í þessu fallega verki rekja höfundar merkilega sögu margra af þekktustu byggingum Reykjavíkur. Þeir beita þeirri nýstárlegu aðferð að segja frá mótun höfuðborgarinnar með því að beina kastljósinu fyrst og fremst að því sem ekki varð, enda eru í bókinni teikningar af stórhýsum sem aldrei risu og þrívíddarmyndir af opinberum byggingum á stöðum sem þeim var upphaflega ætlaður þó að þær hafi endað annars staðar. Líkja má aðferðinni við svokallaða „hvað ef?“ sagnfræði en þá veltir fræðimaðurinn fyrir sér þróun mála ef hlutirnir hefðu æxlast á annan veg. Um leið og Anna Dröfn og Guðni varpa þannig nýju ljósi á mörg helstu kennileiti borgarinnar segja þau áhugaverða samfélagssögu í aðgengilegri og bráðskemmtilegri bók.

Dómnefnd: Árni Matthíasson (formaður), Hildigunnur Þráinsdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir.

Tekið af vef DV 13. mars 2015.dvstort
Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email