Search
Close this search box.

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Guðni Kolbeinsson, Halldór Eldjárn, Guðbergur Bergsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Arthúr Björgvin Bollason, Jón St. Kristjánsson og Ásdís Ingunnardóttir

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kynntar í Menningarhúsinu Grófinni þann 7. desember sl. Verðlaunin eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.

Tilnefndir þýðendur eru:

Arthúr Björgvin Bollason, fyrir þýðingu sína Tími töframanna. Höfundur Wolfram Eilenberger. Háskólaútgáfan gefur út.

Í riti sínu Tími töframanna fjallar Wolfram Eilenberger um þýska heimspeki í upphafi 20. aldar með því að lýsa lífi og verkum heimspekinganna Walters Benjamin, Ernsts Cassirer, Martins Heidegger og Ludwigs Wittgenstein. Arthúri Björgvini Bollasyni tekst að þýða þýskt fræðimál yfir á skýra og skilmerkilega íslensku vel skiljanlega fróðleiksfúsum íslenskum almenningi. Rit af þessu tagi eru ekki algeng á íslenskum bókamarkaði og því skiptir miklu að vel takist til þegar þau eru þýdd. Hefðbundið þýskt fræðimál er að mörgu leyti ólíkt íslensku en Arthúr Björgvin byggir með þýðingu sinni brú á milli þessara heima.


Elísa Björg Þorsteinsdóttir, fyrir þýðingu sína Kona í hvarfpunkti. Höfundur Nawal el Saadawi. Angústúra gefur út.

Kona í hvarfpunkti eftir Nawal el Saadawi er tímamótaverk í arabískri jafnréttisbaráttu. Höfundurinn er egypskur geðlæknir, rithöfundur og baráttukona sem hefur sætt ofsóknum og verið fangelsuð í heimalandinu fyrir skoðanir sínar og störf. Skáldsagan sem hér um ræðir kom út 1973 í Beirút, var bönnuð í heimalandinu en þýdd á fjölda tungumála og er nú komin út í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Þýðingin nær að koma til skila fumlausri en jafnframt skelfilegri frásögn Fardaus sem situr í fangelsi og bíður dauða síns.

Guðbergur Bergsson, fyrir þýðingu sína Skáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Höfundur Guðbergur Bergsson. JPV gefur út.

Portúgalskur ljóðheimur og portúgalskar bókmenntir yfirleitt eru flestum Íslendingum lokuð bók en með riti sínu Skáldið er eitt skrípatól, um ævi og skáldskap Fernando Pessoa opnar Guðbergur Bergsson þennan heim. Hann fjallar bæði um æviferil skáldsins og samtíma hans og þýðir síðan megnið af þeim ljóðum sem Pessoa skildi eftir sig, undir eigin nafni og annarra. Nokkrar þýðingarnar hafa birst áður, en Guðbergur hefur endurskoðað þær og bætt mörgum við þannig að heildarmynd af æviverki skáldsins kemur fram. Þetta er eftirsóknarverð viðbót við menningarlega heimsmynd Íslendinga.

Guðni Kolbeinsson, fyrir þýðingu sína Kalli breytist í kjúkling. Höfundur Sam Copeland. JPV gefur út.

Kalli breytist í kjúkling eftir Sam Copeland er fyndin barnabók um alvarlegt efni. Höfundur beitir gamansemi til að lýsa kvíða Kalla vegna alvarlegra veikinda bróður hans og baráttu Kalla við hrellitröllin í skólanum. Guðni Kolbeinsson gengur til þessa alvarlega ærslaleiks búinn skopskyni sínu og þekkingu á þanþoli málsins. Útkoman er bæði börnum og fullorðnum til ánægju.

Ingunn Ásdísardóttir, fyrir þýðingu sína Blá. Höfundur Maja Lunde. Mál og menning gefur út.

Umhverfis- og loftslagsmál eru viðfangsefni skáldsögunnar Blá sem kom út árið 2017. Þar dregur norska skáldkonan Maja Lunde upp ógnvekjandi framtíðarsýn sem hún fléttar við græðgi og markaðsvæðingu náttúrunnar í samtímanum. Sagan gerist á tveimur stöðum, á tveimur tímaskeiðum: í Noregi samtímans og í Suður-Frakklandi árið 2041 þar sem íbúar flýja þurrka, elda og hungursneyð til norðurs, í leit að vatni. Verk Maju Lunde hafa verið þýdd á mörg tungumál. Þýðing Ingunnar Ásdísardóttur á skáldsögunni er í senn vönduð og blæbrigðarík.

Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Hin ósýnilegu. Höfundur Roy Jacobsen. Mál og menning gefur út.

Skáldsagan Hin ósýnilegu eftir norska rithöfundinn Roy Jacobsen kom út árið 2013 og er fyrsta bókin af þremur í þríleik hans um Ingrid frá Barrey og sú fyrsta sem kemur út í íslenskri þýðingu. Hér segir frá tilveru og lífsbaráttu lítillar fjölskyldu sem býr á lítilli eyju við vesturströnd Norður-Noregs á fyrri huta 20. aldar. Eyjan er einangraður heimur sem er í senn grimmur og hrífandi fagur. Ýmsir atburðir rjúfa þessa einangrun í ljóðrænni og kímniblandinni frásögn sem hefur hlotið verðskuldaða athygli. Blær skáldsögunnar kemst einkar vel til skila í fágaðri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar.

Þórarinn Eldjárn, fyrir þýðingu sína Jónsmessunæturdraumur. Höfundur William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út.

Jónsmessunæturdraumur er einn af vinsælustu gamanleikjum Williams Shakespeare. Verkið lifnar við í fjörmikilli þýðingu Þórarins Eldjárns. Með nútímalegu orðfæri kemur þýðandinn kómíkinni eftirminnilega til skila og færir leikritið um leið nær nútímalesendum. Bragleikni Þórarins nýtur sín vel og hann nýtir hana haganlega. Bundna málið styður við textann og styrkir en tekur aldrei neitt frá honum.

Íslensku þýðingaverðlaunin verða veitt í febrúar 2020. Í dómnefnd sitja Ásdís R. Magnúsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Steinþór Steingrímsson.

Að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email