Search
Close this search box.

Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Elísabet Jökulsdóttir og Steinar Bragi Guðmundsson eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Elísabet fyrir bók sína Aprílsólarkuldi. Skáldsaga. Forlagið, 2020.

Steinar Bragi Guðmundsson fyrir skáldsöguna Truflunin. Forlagið, 2020.

Ást, vald og það að vera utangarðs eru á meðal gegnumgangandi stefja í hinum 14 norrænu skáldsögum og ljóðabókum sem tilnefndar eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Bækurnar sem tilnefndar eru í ár koma frá öllum norrænu löndunum og málsvæðunum. Verðlaunabókin verður kynnt í Helsingfors 1. nóvember.

Hér má lesa um aðrar tilnefndar bækur.

Umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda:

„Dáinn. Dáinn. Hvernig gat það verið. Hvað þýddi þetta orð.“ Þannig hefst skáldævisaga Elísabetar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt). Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni.

Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja. Andlát föðurins neyðir hana nefnilega ekki aðeins til að horfast í augu við forgengileika manneskjunnar heldur það hvernig uppvöxturinn á alkóhólíseruðu heimili með tilheyrandi feluleikjum út á við, óreiðu, hildarleik, æðisköstum móðurinnar og fjarlægð í samskiptum hefur mótað persónuleika hennar og tilfinningalíf. Hún er alin upp við það að nota tungumálið til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að segja ekki það sem hún meinar og meina ekki það sem hún segir. Frá blautu barnsbeini hefur henni þannig verið innrætt að bæla niður allar tilfinningar og frysta, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar. Treginn sem herjar á Védísi eftir föðurmissinn er þannig litaður reiði og eftirsjá, sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla eða tjá. Loks flækist það fyrir henni að syrgja föður sem henni finnst að hún hafi í reynd misst löngu áður – eða mögulega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi Védísar felst nefnilega í því að hún fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi æskunnar sem barn.

Stuttu eftir andlátið og í taugaáfallinu miðju kynnist Védís Kjartani og ástarsamband þeirra bræðir klakabrynjuna innra með henni þannig að hún lætur undan afli tilfinninganna. Samband þeirra einkennist af ástsýki og stöðugri vímuefnaneyslu með tilheyrandi þráhyggjuhugsunum, ótta, kvíða og þunglyndi.

Lýsing Elísabetar á því hvernig Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.

Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) hefur á þeim rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru frá því hún sendi frá sér sína fyrstu bók verið mikilvæg rödd í íslensku samfélagi. Með einlægni, innsæi, húmor og hispursleysi hefur hún snert við lesendum og beint sjónum að vandasömum viðfangsefnum á borð við ástina í öllum sínum myndum, fíkn af ýmsum toga, ofbeldi í samskiptum, geðveiki og geðheilbrigði. Hún hefur sent frá sér ljóð, örsögur, smásögur, skáldsögur og leikrit. Samhliða ritstörfum hefur Elísabet framið ýmsa gjörninga og var heiðurslistamaður alþjóðlega myndlistartvíæringsins Sequences haustið 2021. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Aprílsólarkulda. Hún hefur tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Fyrst árið 2007 fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins, sem er nokkurs konar systurbók Aprílsólarkulda, og síðan árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett, en ári síðar var hún í fyrsta sinn tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók.

Umsögn dómnefndar um Truflunina:

Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðruvísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar.

Hið truflaða svæði nær yfir þær götur í miðbæ Reykjavíkur sem bera nöfn hinna fornu guða ásatrúarmanna, Óðinsgata skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli, einnig Óðinstorg og Óðinsvé. Utan við hið truflaða svæði er umheimurinn og hann er fjölþjóðlegur, þar skiptir þjóðerni litlu sem engu. Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. Veraldir í þessari sögu eru lengst af tvær, umheimurinn og truflunin. Í þeim líður tíminn ekki á sama hraða en flest annað er óljóst. Truflunin er samkvæmt textanum hola í umheiminum sem opnaðist inn í söguna 5. mars 2030.

Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða.

Spurningarnar sem vakna við lestur þessarar bókar eru viðamiklar meginspurningar, meðal annars um vísindasiðgæðið og nútímann. Hér eru nokkur slík dæmi: Sumar þeirra eru vel kunnar: hvenær verður gervigreindin svo öflug að hún verði ekki skilin frá greind mannsins. Ef eftirlíkingin af greind mannsins verður alfullkomin, verður hún þá ekki jafnframt fullkomnari en sú greind sem hver og einn hefur fengið úthlutað? Í kvikmyndum og bókmenntum er oft lýst átökum milli manna annars vegar og ofurtölva/sæborga eða geimvera hins vegar. Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með naumum sigri mannsandans sem byggist oftast á hæfileika mannsins til þess að elska og trúa – en hver segir að ekki sé hægt að læra það líka?

Það er svolítið fyndið að þessi gamli bæjarhluti í Reykjavík skuli fá það hlutverk í bókinni að verða tímaskekkjan og truflunin í veröldinni. Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun lengur en okkur grunar.

Steinar Bragi Guðmundsson (f. 1975) hefur gefið út margar bækur og telst til virtustu höfunda Íslands.

„Hvernig lýsir maður því þegar manneskja fer úr einum heimi yfir í annan, sem er alveg eins, og það er engin leið til baka?“ Þetta sagði rithöfundurinn Steinar Bragi um skáldsögu sína, Truflunina.

Rithöfundasamband Íslands óskar Elísabetu og Steinari Braga til hamingju með tilnefninguna!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email