Þórdís Gísladóttir hlýtur Maístjörnuna!

Tilkynnt var í dag að ljóðskáldið Þórdís Gísladóttir hlyti Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun RSÍ og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Verðlaunin hreppti Þórdís fyrir bókina Aðlögun sem út kom hjá Benedikt í fyrra.

Í umsögn dómnefndar segir: „Segja má að bókin sé eins konar athugasemdaskýrsla um manneskjuna, áskoranir hennar og ófullkomleika, því „hálfvelgja og athafnaleysi eru ekki viðurkennd störf“, eins og segir á einum stað og „lífveran er hegningarhús úr frumum“, eins og segir á öðrum. Stíllinn er kjarnyrtur fremur en lýrískur og heldur vel utan um efnið í ljúfsárri og fyndinni bók sem fjallar jafnt um hið fallega og hið óþolandi sem við þurfum oftar en ekki að laga okkur að. Ljóðin eru beitt, háðsk og snerta lesandann á djúpan og óvæntan hátt.“

Þórdís er bókaunnendum að góðu kunn enda hefur hún skrifað og þýtt af stakri list um árabil. Í tilefni verðlaunanna hefur nú verið opnuð örsýning á bókum Þórdísar í Landsbókasafni.

Rithöfundasamband Íslands óskar Þórdísi innilega til hamingju með verðlaunin!

Á myndinni sést verðlaunaskáldið ásamt Margréti Tryggvadóttur, formanni RSÍ, og Erni Hrafnkelssyni, landsbókaverði.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email