
Frá vinstri: Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Henrik Hermannsson sigurvegari í ljóðakeppni grunnskólanna 2018, Ásdís Óladóttir í dómnefnd, Sindri Freysson handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2018, Anton Helgi Jónsson formaður dómnefndar, Karen E. Halldórsdóttir formaður Lista- og menningarráðs og Bjarni Bjarnason sem einnig er í dómefnd ljóðakeppnanna.
Sindri Freysson fékk afhentan Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Kínversk stúlka les uppi á jökli á Ljóðahátíð Kópavogs 21. janúar.
Kínversk stúlka les uppi á jökli
Í þessu landi
leynast engir brautarpallar
með þokuskuggum að bíða tvífara sinna
Engar mystískar næturlestir
sniglast gegnum myrkrið á hraða draumsins
Engir stálteinar syngja
fjarskanum saknaðaróð
Í þessu landi
situr rúta föst á jökli
Hrímgaðar rúður
Framljósaskíma að slokkna
Frosin hjól að sökkva
Andgufa sofandi farþega
setur upp draugaleikrit
Og á aftasta bekk
les kínversk stúlka
um lestargöng sem opnast og lokast
einsog svart blóm
Alls bárust 278 ljóð í keppnina að þessu sinni. Í öðru sæti var Hrafnhildur Þórhallsdóttir með ljóð sitt Elegía en Valgerður Benediktsdóttir hlaut þriðja sætið fyrir ljóðið Íshvarf. Þá fengu átta ljóð viðurkenningar.