Auglýst eru til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2016 í samræmi við ákvæði laga nr. 57/2009. Umsóknarfrestur er til og með 30. september, kl. 17:00
Starfslaun eru veitt úr sex sjóðum, þeir eru:
- launasjóður hönnuða
- launasjóður myndlistarmanna
- launasjóður rithöfunda
- launasjóður sviðslistafólks
- launasjóður tónlistarflytjenda
- launasjóður tónskálda
Auk starfslauna er sjóðunum heimilt að veita ferðastyrki.
Umsóknir skiptast í fjóra flokka:
- Starfslaun fyrir einn listamann í einn launasjóð – eða fleiri, falli vinnan undir fleiri en einn sjóð
- Starfslaun fyrir skilgreint samstarf listamanna í einn launasjóð – eða fleiri, falli vinnan undir fleiri en einn sjóð
- Starfslaun sviðslistafólks – hópar
- Ferðastyrkir.
Sækja skal um listamannalaun á vefslóðinni www.listamannalaun.is sem leiðir umsækjanda beint inn á umsóknarsíðu listamannalauna hjá Rannís. Nota þarf íslykil eða rafræn skilríki við umsóknina.
Umsóknarfrestur rennur út 30. september 2015 kl. 17:00.
Hafi umsækjandi hlotið starfslaun áður, verður umsókn því aðeins tekin til umfjöllunar að framvinduskýrslu vegna fyrri starfslauna hafi verið skilað til stjórnar listamannalauna, sbr. ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/2009 er stjórn listamannalauna heimilt að færa umsókn á milli sjóða. Slíkt verður einungis gert í samráði við umsækjanda. Sé um að ræða umsókn í fleiri sjóði en einn fara úthlutunarnefndir viðkomandi sjóða sameiginlega yfir umsókn.
Upplýsingar um listamannalaun, lög og reglugerð er að finna í þessum tengli.
Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Zoëga á skrifstofu Rannís.
Stjórn listamannalauna, ágúst 2015