Search
Close this search box.

Spjallþráður

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Hermann Stefánsson og Ragna Sigurðardóttir skrifast á:

Nokkur orð um uppnám höfundarins og laxa í bílskotti

 Reykjavík, 19. mars, 2016

 

Kæra vinkona

Líf mitt er í algeru uppnámi. Ég segi það satt. Það kemur þér kannski á óvart að ég trúi þér fyrir þessu þar sem við erum ekki einu sinni málkunnug, en satt að segja er þetta engin nýlunda: Ég man ekki til þess að líf mitt hafi nokkru sinni verið öðruvísi en í uppnámi.

Ég laumaðist til að skrá mig örsnöggt inn á félagsmiðilinn Facebook (sem ég er sífellt að skrá mig af fyrir fullt og allt) til að ganga úr skugga um hvort við þekktumst nokkuð og komst að því að við erum ekki einu sinni facebook-vinir, sem þýðir að við þekkjumst ekki neitt. Nema það sé einmitt staðfesting á því að við séum mjög nánir vinir, sem reyndar er líklegra.

Sálarástandi mínu sló ég örsnöggt upp í gamalli norskri skáldsögu (eftir Hamsun) sem ég er að endurlesa og það er rétt, líf mitt hefur verið í algeru uppnámi frá því allavega á síðari hluta nítjándu aldar og því eru engar fréttir í þessu fólgnar. Mér þætti allt annað ástand óviðkunnanlegt.

Nú veit ég ekki hvaða hugmyndir þú hefur um rithöfunda almennt. Eiginlega er orðið hálfgert feimnismál að hafa nokkrar svoleiðis hugmyndir. Betur færi að ég segði þér frá einhverju sem á daga mína hefur drifið fremur en að spyrja þig út í þvíumlíkt. En ég hef hallast að því að rithöfundar séu fólk sem lifir lífinu í uppnámi. Það kann að vera tóm rómantík. Ég á eiginlega við að allt sé í klessu hjá rithöfundum, alltaf, sálarlífið á hvolfi og allt á röngunni; þetta er fólk sem þar ber óvenju lítið skynbragð á hlutina, skilur ekki heiminn eða skilur hann það illa að það þarf að beita óvenjulegum og langsóttum aðferðum til að skilja hann, svo sem eins og að skrifa skáldsögur.

Ertu sammála því? Að skáldsaga sé aðferð til að skilja heiminn? Kannski ansi góð aðferð?

Kannski er það heimurinn sem alla tíð er á hverfanda hveli og einhver verður að taka það á sig. Maður þarf þá að lifa með því. Þeirri kvöl.

En mér dettur í hug að ég geti sagt þér frá því sem henti mig síðustu helgi. Segi ég engum frá því mun það glatast í dögunum.

Það var þannig að síðasta sumar voru mér gefnir tveir fiskar. Þetta voru laxar, frekar stórir, frosnir. Ég setti þá í frysti sem ég hafði aðgang af og af ástæðum sem of flókið mál væri að rekja fóru þeir aftur úr frystinum núna fyrir nokkru og enduðu í fötu úti á svölum þar sem þeir þiðnuðu. Svo gleymdust þeir í annríkinu. Loks var einsýnt að ég þyrfti bara að losna við fiskana. Ég á við með öðrum hætti en að éta þá. Þetta var slysalegt og óttaleg sóun.

Það hvarflaði ekki að mér að setja þá í ruslið. Ég einsetti mér þann hrekk að koma þeim fyrir á einhverjum stað þar sem þeir gætu komið fólki í skilning um að lífið er ekki fyrirsjáanlegt, að allt getur gerst.

Fólk heldur almennt að lífið sé fyrirsjáanlegt, allt í réttum skorðum, allt í farvegi, fólk heldur að allt megi reikna út og allt sjá fyrir, ekkert geti gerst sem komi því hið minnsta á óvart. Fólk heldur svo oft að það viti alla skapaða hluti. Við þetta er erfitt að eiga. Ég reyni að gera mitt besta.

Ég ætlaði að setja kannski einn fisk á gangstéttina fyrir utan Mokka við Skólavörðustíg og annan í Kringluna eða á Laugaveginn fyrir utan skóbúð. Þetta hef ég gert á Spáni með úrsérgengna skó. Þegar þeir voru ónýtir skildi ég þá einhvers staðar eftir þar sem leit út fyrir að einhver hefði verið á gangi og allt í einu gufað upp eða verið uppnuminn og ekkert orðið eftir nema skórnir.

Ég hugsaði með mér að sú tilhugsun að löxum væri farið að rigna yfir Ísland myndi gleðja marga og kveikja furðu og fegurðarskyn.

En ég hikaði. Meðan ég bræddi með mér hvar ég ætti að skilja fiskana eftir tók að slá í þá. Þeir fóru að lykta illa. Mér fannst þá ekki lengur gustukaverk að skilja þá eftir á almenningi, fannst það of meinlegt. Ég ákvað að það rétta væri að koma þeim aftur til heimkynna sinna. Hvar eru heimkynni laxa? Um það má kannski deila en keimkynni fiska yfirleitt, þeirra sem ganga ekki upp ár, eru í sjónum.

Ég ók því sem leið lá á mínum ágæta franska sportbíl niður að höfn, þar sem bryggjan fyrir Viðeyjarferjuna er, Skarfabryggja. Fiskilyktin varð megn á leiðinni. Ég lagði bílnum í nágrenni við litla fjöru sem ég veit ekki hvort þú kannast við en hún er með einum kletti og tröppum, rétt ofan Viðeyjarferjunnar við Skarfagarða. En nú vildi svo til að þar var maður á gangi með barn og hund. Ég var í leynilegum erindagjörðum og gat ekki sem best opnað skottið, sem reyndar er fullt af bókakössum þessa dagana, tekið fötuna rauðu með fiskunum tveimur og hent þeim í sjóinn eins og ekkert væri sjálfsagðara beint fyrir framan nefið á hundamanninn með barnið. Þannig að ég hætti við.

Ég fór niður að ferjubryggju þar sem er mikill tangi og skimaði út hann og opnaði skottið. En á tanganum voru tveir menn á gangi. Mér voru bjargirnar bannaðar. Ég setti fiskana aftur í skottið og ók af stað. Skipabryggjan sem liggur í framhaldi af ferjubryggjunni er afgirt. Ég kom engu við þar og ók enn áfram. Eiginlega er það svo að aðgengi að sjó er borgarbúum á stórum svæðum með öllu ómögulegt, þar á meðal er Sundahöfn. Ég ók því niður að Snarfarahöfn. Þar var allt mannlaust fyrir utan bíl með manni sem sat og beindi sjónum sínum að öllu hafnarsvæðinu eins og það lagði sig og gerði mér verkið ómögulegt. Merkilegt hvernig fólk situr í bílum og horfir. Eftir hverju er það að bíða?

Lyktin fór versnandi. Leiðin lá óhjákvæmilega í endurvinnsluna. Þangað vildi ég ekki. Maður setur ekki fiska í endurvinnsluna. Það er ekki hægt að búa til nýjan fisk úr úldnum. Alveg óháð mikilvægi endurvinnslunnar að öðru leyti. Þannig að ég nam staðar við Elliðaár rétt við Rafstöðvarveg. Ég fór út og kannaði aðstæður. Að vísu sást vel til mín frá Ártúnsbrekkunni. Ég var berskjaldaður. Og þetta var sérlega ófyrirleitið að öllu leyti. Ég á við: Það er meira að segja veiðivörður við Elliðaárnar eftir því sem ég best veit. Ég gæti verið gripinn glóðvolgur við veiðiþjófnað. Að vísu er það ekki veiðiþjófnaður að setja fisk í á heldur jafnvel þvert á móti en ég ímynda mér að allar sleppingar séu með öllu bannaðar, hvort sem er á veiðitíma eða utan hans, hvort sem er á dauðum fiskum eða lifandi. En meðal annars vegna þess að þetta var svo bíræfið ákvað ég að láta slag standa. Ég fór að bílnum til að sækja fiskana.

Í því er ég ætla að opna skottið kemur aðvífandi sendibíll. Fólkið í honum reynist eitt af því sem notar ekki bíla til þess að komast á milli staða heldur sitja í þeim og horfa á fólk. Ég reyndi að bíða sendibílafólkið af mér en það fór hvergi. Svo ég ók enn af stað.

Lyktin var orðin óbærileg. Ég pirraði mig á því hvernig tilveran beindi mér í endurvinnsluna, ég á við gámastöðina við Sævarhöfða. Ekki vegna þess að ég vilji ekki endurvinna, eiginlega þvert á móti. Þannig að ég ók rakleiðis framhjá endurvinnslunni og upp í Bryggjuhverfi. Nú rata ég ekki sérlega vel um Bryggjuhverfið en mín reynsla eftir þessa vettvangsferð er sem sé sú að það er engin leið að komast að neinni bryggju í Bryggjuhverfinu. Allt er afgirt, leiðirnar að sjónum eru lokaðar. Fólki er hreinlega almennt ekki treyst fyrir sjó. Það gæti drekkt sér. Eða eitthvað þaðan af verra.

Aftur í endurvinnsluna. Fyrirsjáanleikinn sigrar. Ekkert getur komið á óvart í þessu lífi. Það rignir ekki fiskum. Fiskurinn ratar ekki einu sinni aftur til upphafsins, hann fer í endurvinnsluna eins og hvert annað heimilissorp, firrtur náttúrunni, firrtur eðli sínu, fiskurinn með alla sína merkingu. Sennilega yrði ég að spyrja vaktmanninn eins og fífl hvort fiskurinn ætti að fara með garðúrgangi eða bara í plastgáminn.

En rétt áður en ég kom að endurvinnslunni við Sævarhöfða birtist dállítill malarafleggjari sem liggur framhjá dálítilli rafstöð út að ofurlitlum vogi sem ég veit ekki hvað heitir, ef hann heitir eitthvað. Ég snarbeygi. Áður en ég veit af er ég kominn niður í fjöruklöngur. Ég prísa himnana, hvað sem þeir hafa að geyma. Ég þarf að lifa með ákveðinni kvöl. Líf mitt er í algjöru uppnámi, eins og allar götur frá á þarsíðustu öld. Í fjarska sitja gargandi mávar í sandinum. Það er fjara. Ég þarf að brölta svolítið um með fiskana til að koma þeim í sjóinn en það er mér gleði. Þeir eru í plastpokum sem ég sker af þeim og geymi áfram í fötunni. Ég íhuga að garga á mávana til að vekja athygli þeirra á veislu í vændum en þess gerist varla þörf. Fyrri fiskurinn lendir í grjótgarðinum. Það mun koma flóð. Sá síðari kemst niður í flæðarmálið. Alla leið. Fögnuður minn er takmarkalaus og uppnámið unaðslegt. Sálin dansar. Veröldin er ný. Í öllum heiminum er kærleikur og jafnvægi.

Ég fór með plastpokana í endurvinnsluna.

Kæra vinkona. Afsakaðu hvað ég er langorður. Þegar maður byrjar frásögn úr lífi sínu vill hún verða nákvæm. Mér fannst þetta enda vel, eiginlega eins og best verður á kosið. Maður er auðvitað eins og algert fífl að laumupokast um með tvo fiska í bíl tímunum saman. Einhver myndi segja að ég væri fáránlegur. Ég sé núna þegar ég slæ þér upp í símaskránni að þú ert svo lánsöm að búa með sjó á alla vegu. Það hafði ég ekki hugmynd um þegar ég byrjaði að segja frá fiskunum. Hvað hefðir þú gert við fiskana? Það hefði verið hægur vandinn fyrir þig. Gaman væri að heyra þína skoðun á því hvað rithöfundar eigi að gera við fiska almennt eða til hvers þeir yfirleitt séu, rithöfundarnir, nú eða fiskarnir. Ja, eða bara hvað það er sem drífur á daga þína. Annars hef ég skipt um skoðun frá því hér að framan og álít rithöfunda ekki með neinu sérstöku móti, á þennan eða hinn veginn, að neinni reglu, auk þess sem ég álít mig ekki þurfa að líta á mig sem rithöfund fremur en eitthvað annað, eftir eigin vali og frelsi. Ég er bara maður sem ekur um Reykjavík með tvo fiska.

Þinn vinur

Hermann

~

Álftanesi, 21. mars 2016

 

Kæri pennavinur,

Og takk fyrir bréfið. Það kom mér ánægjulega á óvart að þú skyldir skrifa um vandræði þín með fiskhræ. Ég hafði einmitt ætlað mér að skrifa þér um dýr. Það skemmtilegasta og fróðlegasta sem ég hef tekið þátt í á þessu ári snýst nefnilega um dýr, eða ekki beint dýr heldur samskipti manna og dýra. Aftur að því síðar.

Þú skrifar að líf þitt hafi verið í uppnámi frá síðari hluta nítjándu aldar. Ég skil hvað þú átt við, sérstaklega þegar þú minnist á Hamsun. Í mínum huga er þetta ástand sérstaklega ætlað karlkyns skáldum og uppnámið sem þú skrifar um heimfæri ég frekar upp á karlmenn. Konur í uppnámi voru álitnar móðursjúkar, ég get auðveldlega lifað mig inn í það ástand. Finnst þér þetta ástand sem þú skrifar um eiga jafnt við bæði kynin? Eða er það einstaklingsbundið? Heldur þú að margir rithöfundar upplifi þetta ástand?

Eiga rithöfundar erfiðara með lífið en annað fólk? Ég hugsaði um alla rithöfunda sem ég þekki (ekki mjög margir) og marga sem ég þekki ekki en komst ekki að niðurstöðu. Ég skrifaði eitthvað um þetta en þá hringdi dóttir mín og ég fór að sækja hana út í Garðabæ því strætósamgöngur hingað á Álftanesið eru glataðar. Síðan fór ég í ræktina, svo eldaði ég plokkfisk. Eða hitaði tilbúinn plokkfisk reyndar, keyptan í Fjarðarkaupum. Nú var ég að koma til baka úr ísbíltúr og held að rithöfundar séu bara alla vega, eins og fólk almennt. Sumir eiga erfitt með hversdagsleikann enda getur hann verið svo dásamlega flókinn. Aðrir virðast fara létt með þetta allt saman.

Eru skáldsagnaskrif leið til þess að skilja heiminn? Já, ég get tekið undir það. Og skáldsagnalestur, ekki síður.

Mér líkaði vel að finna siðfræðilegar vangaveltur í bréfinu þínu þótt ég sé ekki viss um hvort þú hafir ætlað þér það. Ég hefði mjög gaman af því að heyra meira af siðfræðilegri umræðu í samfélaginu. Hana vantar líka alveg í skólakerfið.

Ég er hrædd um að ég hefði ekki lagt á mig allt þetta ómak með laxahræin. Og alls ekki farið hér út í fjöruna með þau. Nú er ég svo heppin að hafa yndislega nágranna allt í kringum mig en ég þekki svo sem ekki alla hér í kring. Það hefði verið erfitt að laumast með plastpoka niður í fjöru og skilja þar eftir úldin fiskhræ. Það er þó ekki víst að neinn hefði séð mig. Fyrir fáeinum árum uppgötvaðist stór kannabisræktun í bílskúr hér við enda götunnar. Hún hafði verið þar um þó nokkurt skeið, með sérstökum lömpum og loftræstingu og öllu sem til þarf en enginn tók eftir neinu.

Ég hefði samt ekki farið í fjöruna, bara troðið plastpokunum með fiskhræjum og öllu ofan í stóran, svartan ruslapoka og bundið vel fyrir opið. Síðan hefði ég hent pokanum í ruslatunnuna fyrir utan hús. Samviskubitið hefði hrjáð mig í einhverja daga, en mest vegna þess að laxinn fór til spillis. Svo hefði ég ekki hugsað um það meir.

 

Samfélagið okkar er svo margklofið og tvískinningurinn svo mikill. Við höfum samviskubit yfir að henda plastpokum eða matarleifum í ruslið en hvað með allt hitt? Útlendingahatur, kynþáttahatur, ójöfnuð, efnishyggju, virðingarleysi við menn og dýr… Hversdagsleikinn er mjög snúinn, ekki síst þegar manni er í mun að gera rétt eins og raunin er í frásögninni þinni. Og við viljum gera rétt á öllum sviðum. Gagnvart öðrum, okkar nánustu og líka hinum sem við þekkjum ekki, gagnvart náttúru og dýrum.

*

Það er kominn annar dagur, þriðjudagurinn 22. mars. Systir mín á afmæli í dag og í morgun voru framin hryðjuverk í Brussel. Ég er lengi að skrifa þetta bréf, kannski er það vegna þess að við þekkjumst ekki en líka vegna þess að ég er að velta fyrir mér frásögninni þinni og merkingu hennar. Þegar ég les bréfið þitt hugsa ég um hvað hversdagsleikinn er marglaga. Eigum við að hafa áhyggjur af því að henda plastpokum í ruslið þegar ástandið í Mið-Austurlöndum er eins og það er í dag? Á meðan landamæralögregla í Evrópu ræðst gegn börnum með táragasi? Það er auðvitað óþarfi að telja upp það sem gengur á.

Eigum við að hafa áhyggjur af því að koma níðingslega fram við dýr, pína þau, kvelja og drepa á viðurstyggilegan hátt á meðan við horfum á fólk deyja fyrir augunum á okkur? Er ekki frásögnin þín í hnotskurn dæmi um baráttuna við þetta ósamræmi sem ríkir í lífi okkar?

Laxarnir eru veiddir og drepnir á (mögulega) viðurstyggilegan hátt, látnir heyja langt dauðastríð til skemmtunar veiðimanninum áður en þeir deyja. Hræin eru síðan fryst og ætluð til átu. Tilgangsleysi veiðinnar verður algjört þegar hræin eyðileggjast. Þá grípur sögumaður inn í og reynir að finna drápunum tilgang með því gera hræin aftur að fæðu í hringrás náttúrunnar. Náttúrunni er síðan sýnd virðing með því að endurnýta plastið.

Á endanum kemst þú þess vegna að hárréttri niðurstöðu, rithöfundur er einmitt maður sem ekur um með daunill fiskhræ í skottinu hjá sér. Eða kona. Einhver sem tekur þátt í hringrásinni en stendur ekki hjá. Það hlýtur að vera eina leiðin til þess að reyna að skilja lífið. Þegar ég hugsa þetta til enda er ég farin að dauðsjá eftir því að hafa í huganum hent hræjunum í ruslið. Ég þarf virkilega að fara að lifa lífinu af meiri kostgæfni.

Í þessu bréfi ætlaði ég að segja þér frá kúrsinumn sem ég hef verið í undanfarið í HÍ en ég er í miklum hægagangi að taka BA-gráðu í listfræði. Hann heitir Vistfræði lista og dýra og fjallar um samskipti manna og dýra. Fræðigrein sem nefnist Human Animal Studies er víst mjög vaxandi og þetta hefur verið afar skemmtilegt. En núna er bréfið orðið svo langt að ég skrifa kannski bara um þetta næst. Ertu nokkuð á leið til útlanda?

 

góðar kveðjur,

þín pennavinkona,

Ragna

 ~

Reykjavík, 22. mars, 2016

 

Kæra vinkona

Ég held að það sé rétt sem þú segir að hið þjakaða skáld frá nítjándu öld sé einkum karlkyns. En þó liggur hér á skrifborðinu bók eftir … tja, reyndar eru skrifborðin tvö og bækurnar líka …  á borðinu fyrir framan mig liggur bók eftir argentínska rithöfundinn Julio Cortázar en á skrifborðinu við hliðina á liggur prósaverk eftir landa hans Alejöndru Pizarnik. Ég hef reynt að halda uppi áróðri fyrir verkum hennar. Það eru haldin málþing um hana úti í heimi og ég hef hlustað á eitt þeirra á netinu, heila helgi í Sorbonne í Frakklandi, þar sem sátu sérfræðingar (reyndar nánast eingöngu konur) í tugatali. Ég þýddi ljóðaúrval eftir hana fyrir nokkru en lenti svo í tölvuhruni og missti alla þýðingarvinnuna.

Þegar ég krassaði hér á þessari skrifstofu ekki löngu fyrir jól hef ég greinilega lagt þessar tvær bækur á sitt hvort borðið án þess að leggja í það sérstaka merkingu. Hér er allt á rúi og stúi og fullt af bókakössum, bókahillum, pappírum, aðstaðan er eins og eftir góðkynja hryðjuverk. Og svo ein bók á hvoru borði? Í því er merking þegar ég hugsa út í það. Þau tvö voru nefnilega pennavinir. Pizarnik er dæmi um sérlega þjáða skáldkonu. Kannski er það einhvern veginn öðruvísi þjáning en karlkyns þjáningin en þó býsna skyld, þetta ofboð, þetta stöðuga póetíska uppnám. Eiginlega er þjáningin í textum hennar stundum alveg gersamlega yfirgengileg.

Bréf þeirra hafa verið gefin út og eru ansi góð. Pizarnik reynist hafa verið ansi dul manneskja og dulkvæð. Ýmislegt krassandi um einkalíf hennar komst fyrst á vitorð lesenda með þessum bréfum og öðrum. Það er bara eins og það á að vera. Mér þykir réttara að einhverjir grúskarar komist að svona hlutum löngu eftir dauða höfundarins fremur en að hann stilli því sjálfur fyrir framan verkin sín. Djöfull er Elena Ferrante öfundsverð. Samband þeirra Pizarnik og Cortázasar hefur verið mjög innileg vinátta þar sem hann er oftar í hlutverki skynsemismannsins en hún tætir allt upp. Julio Cortázar var ekki beinlínis þjáð sál að ég held. Hann var intelektúel og húmoristi, fagurkeri sem spann fínofna vefi um flækjur sínar; kannski var hann dulastur um hamingju sína, sem er jú líklega það sem mest á ríður að dylja. Eða er ekki samtíminn sífellt að heimta að fólk flaggi gæfu sinn eða ógæfu? Er það ekki hið mesta óráð? (Ekki að ég álasi neinum fyrir bersögli, fólk má gera það sem það vill mín vegna.)

Ég er að reyna að skilja merkingu eigin frásagnar um fiskana.

Dagurinn var viðburðalaus. Þó byrjaði hann vel, á námskeiði í að kveða rímur, námskeiði sem hefur reyndar þróast út í að vera meira í ætt við kór. Síðan sat ég auðum höndum en þó við bréfaskriftir. Eins og ég segi krassaði ég hér fyrir jól og þá vann ég fimmtán tíma á dag í akkorði við svolítið verkefni. Nú er þetta minna, stundum kannski klukkutími á dag, tveir tímar eða ekkert. Þetta er ekki skáldleg vinna, ég transkríba ræður. Baudelaire ráfaði þjakaður um götur Parísar og blæddi út skáldskap. Alejandra Pizarnik lá í kytru með ljóð um allan líkamann í samfelldum svíma með dauðann við hlið sér.  Ég aftur á móti sit með heddfón og skrifa upp orð fólks sem segir: „Virðulegi forseti“. Benedikt Gröndal gerði það reyndar líka. Cortázar var í svipuðu. Ég þarf bara annað herbergi fyrir skáldskap, kom bara í dag fyrir stemmurnar.

Ýmislegt er í loftinu sem ég hef ekki hátt um.

En dýr, segirðu, já, einmitt, nákvæmlega. Þetta er mjög áhugaverður kúrs. Ég held að samband manna við dýr sé eitthvað það merkilegasta sem hægt er að velta fyrir sér. Fyrir mörgum árum las ég talsvert um þetta efni, en ég held þó að maður læri mest af að umgangast og horfa á dýr, hugsa svo um þau, tala um dýr. Það situr í mér bréf sem ég fékk fyrir tíu árum þegar ég skrifaðist á við spænskt ljóðskáld (ég reyni að skrifast alltaf á við einhvern, almennilegum bréfum í almennilegri lengd). Hann ók daglega nokkuð langa leið og stundum ók hann fram á dýr sem höfðu orðið undir bíl (sem sé „roadkill“, mikil blessun að ekki er til íslenskt orð yfir þetta). Hann talaði um hvað þetta er andstætt því hvernig dýr kjósa að deyja. Þau deyja ekki svona, svona nakið, svona smánarlega, svona opinberlega. Dýrin skríða eitthvert afsíðis til þess að vera ein og deyja þegar þau finna dauðann nálgast. Honum rann þetta til rifja, vini mínum. Að þau lægju bara á malbikinu, það er eitthvert rof. Að ekki sé talað um svo þegar það eru flóttamenn sem liggja í vegkanti eða fjöru. Líklega er ástæða til að viðhafa dálitla bjartsýni um mannlegt eðli og ásigkomulag þegar dautt dýr á vegi vekur þanka bakatil í huganum á ljóðskáldi. Á sama hátt og það er ástæða til að trúa þrátt fyrir allt á mannleg gæði meðan fólki er ekki sama um hina mennsku þjóðvegadauða. Kærleikurinn er sterkt afl.

Já, ég er einmitt á leiðinni til útlanda. Nánar tiltekið er ég að fara til Parísar. Þetta kaótíska bréf ber þess líklega merki. Ég hlakka mjög til.

 

 

Nú er kominn allt annar dagur, allt annað líf, annar heimur, 26. mars, París. Hér er tóm dásemd að vera. Kirsuberjatrén eru í blóma. Það er vor. Ég er óttalaus við hryðjuverkin sem þú nefndir. Ég óttast það eitt hversu auðvelt það er að breiða út ótta og hatur. Við lifum á tímum þar sem hryðjuverk eru í sögulegu lágmarki. Samt allur þessi ótti. Vegna þess hvernig honum er miðlað. Þó gengur illa að útbreiða óttann við loftslagsvána sem er miklu alvarlegri.

Á einhvern hátt getur í einhverjum tilvikum verið siðferðislega rangt að segja frá. Heldurðu ekki að það geti verið?

Það vottar annars ekki fyrir ótta á götunum (bara á netinu?). Svolítið mikið af löggum, tvær eða þrjár stórar handtökur í augsýn, en enginn ótti. Er það ekki einmitt málið, algert óttaleysi? Það er vinstri bakkinn sem hér er fyrir utan gluggann. Líklega hefur Pizarnik búið þar en Cortázar hinum megin. Cortázar skrifaði Parísarleik, bókina sem maður getur lesið í þeirri kaflaröð sem maður vill, Pizarnik skrifaði ljóð og sótti veislur hjá de Beauvoir. Hér skammt frá er bókabúð sem góður maður mælti með, við ætlum þangað. Í gær var óverdósað af list. Maður óverdósar alltaf í stórum listasöfnum (Orsay) en það er hluti af nautninni, að sjá svo mikla list að maður óverdósi. Samt lyftist andinn, hann fer upp, upp.

París hefur margar miðjur, ekki eina. Hugmyndin var alltaf sú að allt andlegt líf byrjaði í París og streymdi síðan sentrífúgalt út á jaðrana. Og menningarmiðpunktur heimsins þarf ekki að hafa miðju í miðjunni. Þess vegna var það hér sem skáldinu kom til hugar að lífið væri annarsstaðar, og heimspekingurinn heimfærði það svo síðar upp á miðjuna, að miðjan væri annarsstaðar.

Ráfað milli miðjanna í miðjunni, á milli kaffihúsa og bara, býflugur á milli blóma.

Það hefði verið auðvelt að losa sig við fiskana í Signu, hefði ég komið þeim gegnum tollinn.

 

 

Það varð lítið um bréfaskriftir í París. Nú er kominn allt annar dagur og allt annar heimur, nánar tiltekið Eyrarbakki, Norðurbær, 30. mars. Hér er gott aðgengi að sjó. Þetta er aftur orðið alltof langt bréf hjá mér.

Ég klára Hamsun og það eru fallegar lokalínurnar þar sem söguhetjan er heimkomin úr sveit:

„Taugasjúklingar góðir, við erum lélegir menn, og ekkert gagn er í okkur heldur til þess að vera neins konar dýr.

Síðan mun koma að því einn góðan veðurdag, að mér leiðist að vera lengur viti mínu fjær, og ég tek mig upp aftur og fer út í einhverja eyjuna.“

Það er glampandi sólskin en ögn kalt. Gæsir fljúga með miklum hvini eins og þær hyggi á ferðalög. Þegar ég gái betur að, reynast þetta vera dúfur. Og þarna eru tveir hrafnar. Ég fótógrafera útgefin bréf frá Ólafi Davíðssyni fyrir mann sem þarf á þeim að halda en kemst ekki í bækurnar. Ólafur skrifar frá Danmörku og í einu þeirra sé ég að hann hyggst skrifa bók upp úr riti eftir Jón nokkurn Daðason sem heiti Gandreið og hann prísar mjög og segir innihalda alla heimsmynd sinnar tíðar. Þekkir þú þetta rit? Ég þekki það því miður ekki. Það er bók um galdur. Ekki veitir af. Það er allt morandi í galdri. Ég gæti hafist handa, notað litlu svörtu stílabókina mína til að gera skrá yfir nálæg dýr og komið þannig öllum heiminum fyrir í henni. Dýr og galdur eru jú nátengd. Álftir eru í grennd. Hross í haganum. Það væri þess virði að skrásetja fiskana í sjónum, svona svo ég haldi þræði. Það þarf symmetríu. Það þarf að vera hringrás í öllu. Ég ætla að fá mér göngutúr niður að sjó.

Bestu kveðjur

Hermann

 ~

Álftanesi, 7. apríl, 2016

 

Kæri pennavinur, Hermann,

Bréfaskriftirnar okkar lenda á tímum mikilla tíðinda. Fyrst voru það hryðjuverkin í Brussel og síðan afhjúpun Panamaskjalanna. Svona stórir viðburðir hafa áhrif á allt hversdagslífið, hvort sem manni líkar betur eða verr. Umhverfið allt tekur á sig táknrænan blæ þannig að meira að segja einfaldir hlutir eins og göngutúr við sjóinn verða margræðir. Þú laukst bréfinu þínu síðast á að segjast ætla að ganga út með sjó, það er við hæfi að taka göngutúrinn og halda honum áfram.

Í gærkvöldi eftir kvöldmatinn hengdi ég upp þvott úti á svölum hjá mér. Ég er heppin með þvottasnúrur, ég hengi út þvott undir stjörnum og norðurljósum, horfi út yfir sjóinn og móana, á Snæfellsjökul bleikan í sólsetrinu. Í gær var ekkert af þessu sýnilegt, en ég heyrði þungt brimhljóð á varnargarðinum. Þegar ég gáði betur að þeyttist hvítt löður yfir stórgrýtið öðru hverju. Veðrið var stillt og milt, það var óvenju stórstreymt og líklega háflóð og þess vegna lét sjórinn svona.

Ég varð að fara út og sjá brimið skella á steinunum. Ég ákvað að gera hlé á fréttalestri og sjónvarpsáhorfi, en þegar ég gekk meðfram sjónum og heyrði þungar öldurnar skella á grjótinu fann ég að það var engin undankomuleið frá viðburðum daganna, af krafti tók brimið á sig aðra mynd, það varð eins og holskeflurnar sem dynja á samfélaginu, á okkur öllum hvort sem við viljum eða ekki.

Hefur þú tekið eftir málverkinu sem er við endann á móttökustofunni á Bessastöðum, málverkinu sem er alltaf í bakgrunni þegar forseti flytur t. d. áramótaávarpið? Á myndinni er ólgusjór, brimrót, hafið er dökkt og órólegt. Ég legg til að næsti forseti láti það verða sitt fyrsta verk að skipta þessu málverki út, það sendir þjóðinni röng skilaboð. Við viljum frið og ró. Kannski bara friðsæla sveitamynd eftir Ásgrím Jónsson, af burstabæ undir grænni hlíð. Eða málverk af Reykjavík, til dæmis eftir Snorra Arinbjarnar. Líklega eigum við eftir að sjá þetta málverk á skjánum í dag, í bakgrunni þegar sjónvarpað verður frá Bessastöðum, þegar forætisráðherra biðst aflausnar og annar tekur við. Og ef Ólafur heldur áfram eins og sumir óttast en ég trúi ekki þrátt fyrir allt, en ef … þá gæti hann skipti þessari mynd út.

Brimið í gær var síðan alls ekki hvítt og fallegt heldur fullt af þangi, brúnt og ljótt. Í samræmi við það sem þeyttist upp úr undirdjúpunum við afhjúpun Panamaskjalanna. Undir yfirborðinu heyrust fjörusteinarnir skríða til, eins og áminning um að ekki væri allt komið á daginn enn, heldur byggi ýmislegt undir niðri.

Ég gekk hringinn í kringum Kasthúsatjörn sem er hér rétt hjá húsinu okkar. Á leiðinni til baka heyrði ég í vorfuglakórnum. Það gladdi mig, vorið er að koma. Undanfarið hefur verið svo hljótt í móanum. Kór er annars eiginlega ekki rétta orðið, þetta er meira svona samansafn af gargi. Fuglarnir eru alveg vitlausir, þeir garga út í eitt. Mávar og gæsir aðallega en þegar allar þessar raddir koma saman í eitt verður hljómkviðan sterk og mögnuð. Já, bara alveg eins og ….

Mér finnst þetta samband stórra atburða og einkalífsins mjög áhugavert. Og sú staðreynd að þjóðhöfðingjar, valdamenn og stjórnmálamenn – og konur, eru auðvitað líka bara einstaklingar. Það gerir allt kerfið svo óútreiknanlegt, breyskt og flókið eins og við erum sjálf. Sjaldan hefur það sést betur en síðustu daga, þegar svo virðist sem persóna forsætisráðherra hafi verið sterkari áhrifavaldur í atburðarásinni en embættislegar skyldur hans.

En nóg um það.

Mig langaði að skrifa um samskipti okkar við dýr. Þú skrifaðir um spænska ljóðskáldið sem átti erfitt með fórnarlömbin í vegkantinum. Það er víst ekki óalgengt að fólk hirði þau og eldi. Mér var einu sinni boðið í svona roadkill-kanínu, í Hollandi fyrir mörgum árum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði efasemdir. Hvað hafði kanínan verið lengi dáin áður en hollenska vinkona mín fann hana? En ég ákvað að treysta vinkonu minni og auðvitað varð okkur ekki meint af. Eða var þetta kannski héri? Nú er ég ekki alveg viss. Maturinn var góður.

Síðan ég byrjaði í þessum dýrakúrsi hef ég auðvitað komist að því hvað siðgæði mitt er margfalt og hvað ég hef komið illa fram við dýr á lífsleiðinni. Enn hef ég engu breytt. Ég er ekki orðin grænmetisæta þótt ég hugsi vissulega oftar um þann möguleika en áður. Spurningarnar sem vakna eru svo ótal margar.  Staða mannsins sem ráðandi á jörðinni svo innprentuð í okkur. Við hugsum alltaf út frá okkar eigin sjónarhóli, án þess að hafa hugmynd um hvað dýrin eru að pæla.

Við hömpum líka þeim dýrum sem okkar finnast sem líkust okkur, þeim dýrum sem sýna gáfur sem á einhvern hátt líkjast okkar eigin, til dæmis dýrum sem virðast eiga sér tjáskiptamáta eins og höfrungar og hvalir til dæmis. Líka dýrum eins og páfagaukum sem geta hermt eftir okkar hljóðum. Og auðvitað sætum dýrum, loðnum og mjúkum. Aðrar dýrategundir eru síðan bara matur í okkar augum. Eins og lax, þótt við vitum margt um laxinn og hegðun hans. Eða kræklingar og kolkrabbar. Hvað þá ýsa og þorskur og kjúklingur. Þetta eru matartegundir en ekki dýrategundir. Hvort sem það er svo eitthvað rangt við það eða ekki. Nú veit ég ekki hvort þú ert grænmetisæta, ég geri eiginlega ekki ráð fyrir því, út af þessu með laxana.

Við erum siðblind, við sem borðum kjúklinga að minnsta kosti. Og lambakjöt. Hvar eru mörkin, eru einhver mörk?

Þá erum við aftur komin að því sem er að gerast í samfélaginu.

Á stefnuskrá Pírata í menntamálum er, eða var að minnsta kosti í fyrra, síðast þegar ég gáði, áherslan í menntamálum m.a. á aukna kynfræðslu í skólum. Já, alveg fínt, líst vel á það. En ég sting upp á að efla líka siðfræðslu. Gera siðfræði að skyldufagi alveg niður í leikskólana, (ég skrifaði þetta líka í síðasta bréfi, ég veit það, mér liggur þetta mjög á hjarta) svo næstu kynslóðir verði ekki jafn vitlausar og við sem erum eldri. Mér sýnist samt margir sem eru yngri hafa áttað sig betur en þeir eldri. Þau eru grænni, vænni, umburðarlyndari og ástríkari. Það væri sniðugt að reyna að læra af þeim.

Ég sé fyrir mér útópíska mynd af samtalstímum í grunnskólum þar sem kennarar leiða samræður nemenda um mannleg gildi.

Ég er búin að skipta um skoðun varðandi rithöfunda. Ég held að þeir ?  þær – eigi ekki að vera í uppnámi. Rithöfundar eiga að hugsa málin á yfirvegaðan hátt og koma síðan hugsunum sínum í skáldskaparform. Það gengur ekki að vera alltaf í uppnámi. Að minnst kosti ekki þegar allt samfélagið er það, þá er mál að sýna æðruleysi og yfirvegun. Skrásetja ræðurnar, já, einmitt.

Þetta bréf er hringsól sem lendir alltaf aftur á sama stað, í viðburðum daganna. Ég hef ekki svarað spurningum þínum, þær liggja í loftinu. En það er kannski bara ekki annað hægt í þessu mikla umróti. Ég vona þér gangi vel að skrásetja, hvort sem það eru ræður eða annað.

Takk fyrir bréfaskiptin.

Kosningar strax!

kærar kveðjur,

þín pennavinkona

Ragna

~

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email