Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:
Skiptum um ham og lærum af geitinni höltu!
5.4.2016
Kæra Kristín,
Mér er heitt í hamsi eins og hamsatólg í potti. Vonandi ert þú hins vegar sallaróleg með teppi og te að teikna myndir af blómum. Ekki láta draga þig út í þessa hamslausu hamsatólg. Ég þarf aðeins að blása en ætla síðan að segja þér frá draumdýri næturinnar (þetta er orðin framhaldssagan um draumdýrið dularfulla). Þetta eru undarlegir dagar og við erum á þröskuldi nýrra tíma (vonandi) og þjóðin er að segja hug sinn og kallar á breytingar sem eru í vændum (vonandi). Þjóðin kallar á berskjöldum, einlægni og styrkinn í mýktinni. Við viljum ekki lengur sterka leiðtoga sem sýna aldrei svipbrigði og eru alltaf með allt á hreinu. Við viljum mennskuna og henni fylgja mistök og sá leiðtogi er ekki til sem ekki gerir mistök á einhverjum tímapunkti því við viljum ekki leiðtoga sem eru vélmenni. Sá ummæli frá hægrimanni (sérðu hvernig stafirnir ,,hrægami” felur sig í orðinu) sem spurði síðan hvenær það væri orðinn glæpur að eiga peninga á Íslandi. Ég spyr: Hvenær varð það glæpur á Íslandi að vera fátækur, öryrki, sjúklingur, barn, gamalmenni, verkamaður, læknir, námsmaður og listamaður? Hvenær varð það dyggð á Íslandi að fela, ljúga, svíkja (kosningaloforð til dæmis), þræta, spinna atburðarrás, flýja, græða, skjóta undan, græðagræðagræða, eyða, kaupa, selja, kaupa, selja, eyða, græða? Vandinn er stærri en einhverjir SDG og BB og fleiri nöfn og fólk því þetta snýst um gildi og siðferðisþrek.
Í nótt var ég fín frú sem gaf skipanir hægri vinstri og heimtaði að fá til mín hvíta górillu sem hefði verið alin á einhyrningskjöti (draumar mínir eru sjaldan svona krassandi). Síðan lokaði ég mig inni í furðulegu herbergi og górillan lék lausum hala þar í kring og ógnaði mér í gegnum glugga og rimla. Síðan man ég ekki meira en ég fór að gúggla hvítar górillur og sé að ein fræg var í dýragarðinum í Barcelona sem hét Snowflake en get ekki séð að aðrar hafi verið til. Ég man að í draumnum var ég í fínum kjól og það var sérstök nautn að fyrirskipa: ,,Færið mér hvíta górillu sem hefur verið alin á einhyrningskjöti!!”, eitthvað sem ég mun aldrei fá að upplifa í vökulífinu. Þegar ég malla á fréttaveitum í dag í leit að góðum fréttum ætla ég að hugga mig við þessa setningu og endurtaka hana aftur og aftur.
Takk fyrir úttektina á tískunni, við megum ekki gleyma henni í öllu þessu fári. Það er svo gott að lesa um eitthvað annað en aflandstortólapanamaleyndina og útúrsnúningana. Öll þessi nýju orð gætu boðið upp á áður óþekkta tískustrauma eins og tortólateppi, panamapeysur, aflandsbuxur og wintrisvesti. Nú þegar er hægt að kaupa kokteila og ísa með svona nöfnum. Við tökum þetta inn, smyrjum þessu yfir okkur en skiptum síðan um ham.
Við sem þjóð þurfum að skipta um ham.
Við erum á þröskuldi hamskipta.
Mikið hlakka ég til að fá næsta bréf frá þér og svo er spurning hvort við þurfum ekki bráðum að breyta taktinum þannig að þú byrjir spjallþráð og ég endi þráð? Við getum melt það fyrir næstu lotu. Í textum, verkum og öllu lífinu er UPPBROTIÐ svo mikilvægt, jamm undursamlega mikilvægt. Svo er spurning að byrja að semja tónlist, þurfum við ekki að búa líka til tónlist, fara út á ókunnar slóðir og amatörast?
Bestu baráttukveðjur,
Bjarney
~
5 iv 2016
Kæra Bjarney,
Sammála þér í öllu, flott orðað, bestu þakkir, mig langar að vitna í allt sem þú segir, á erfitt með að orða svona hluti. Mannfélagið á landinu er núna örugglega komið af barnsaldri, þarfnast ekki lengur föður eða móður. Það hefur horfst í augu við munaðarleysið. Margir menn hafa með opnum örmum feðrað landsmenn, eða fóstrað, síðan lýðveldið var stofnsett, árið 1944, t.d. e.f. nöfn: Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson, Bjarni Benediktsson eldri, Ólafur Thors. Alvarlegir á raunastund, sitja vel í hásæti, leika hlutverk pabbans sem agar, hirtir stundum, segir mis satt, eftir hentistefnu. Skuggi strangs föðurhlutverks getur varpað ótta og aðdáun.
Vigdís Finnbogadóttir og Jóhanna Sigurðardóttir voru e.k. mæður, móðurhlutverki fylgir gjarnan vanþakklæti sem oft breytist í dýrkun þegar tímar líða. Var Ingibjörg Sólrún móðir, stjúpa, stóra systir? Hún rataði ekki í búning hefðbundins hlutverks, sem er merkilegt. Hvaða hlutverki gegndi Valgerður Sverrisdóttir fyrrverand iðnaðar- og viðskiptaráðherra?
Samfélag er ekki getið á sama hátt og barn, það fæðist við samkomulag hóps. Fólk með leiðtogaþörf býr til þörf fyrir sig í samfélagi sem er óöruggt, eða svoldið nýtt, samfélag getur fundið sig svo munaðarlaust eða bara utanviðsig að það fagnar þeim fyrsta sem kemur á hælið og tekur það að sér. Hanna Birna er einhvers konar stóra systir. Steingrímur Joð er einhvers konar stóri bróðir. En athuga skal vel að líkingarnar byggja á ímyndaheimi, fornum mynstrum og háttum, fjölskyldum fylgir harmur afþví það er ómögulegt að klófesta tilfinningar eða skipuleggja þær, eða setja þær í bás, það er ekki hægt að bása fólk og dýr nema með valdbeitingu.
Hér og annars staðar hafa biskupar og prestar einnig sett sig í hlutverk pabba fyrir munaðarlausan lýð sem þekkir gjarnan betur fjarveru föðurs, og vegna þessarar hefðbundnu fjarveru föðurs (t.d. af heimilinu eftir iðnbyltinguna og nú er mamman farin líka) geta alls konar öfl tekið að sér hlutverkið og fyllt upp í skarðið sem alvörupabbinn skilur eftir. Biskupar og prestar taka sér það vald að vita hvað gerist eftir dauðann, og taka sér það vald að segja fólki hvernig best sé lifað.
Guð er til í hugum manna sem faðir sem engan yfirgefur, eldist aldrei eða deyr, verndar mann frá vöggu til grafar, og setur í mörgum tilvikum fyrir mann óleysanlegar raunir, sem í mjög mörgum tilvikum skapast af stífni og þrjósku mannlegra reglna og mannlegs en ekki himnesks skipulags. Það er of oft reynt að troða mannlegu eðli í box. Manneskja kemst ekki í box fyrr en hún verður lík.
Nú er svo komið að samfélagið treystir sér til þess að vera munaðarlaust og njóta frelsis munaðarleysisins, fólk má fá að lifa eftir löngunum, innan þess marka að skaða ekki aðra, aðrir þurfa ekki að segja manni til eða að hafa örlög manns í hendi sér. Valdið, hið föðurlega vald, skynjar þetta, en þarfnast miklu miklu meira „afkvæmnanna“ en börnin þarfnast „pabbans,“ valdið getur ekki hætt að stjórna „fjölskyldunni,“ (samfélagi er oft líkt við stóra fjölskyldu; grunneiningunni), og getur ekki leyft sér, auðs síns vegna, og tilvonandi auðs til framtíðar, að hætta stjórnun.
„Einhvers staðar verða peningar að vera,“ sagði í síðustu viku maðurinn sem verður mögulega forsætisráðherra á næstu dögum og réttlætti skattaskjólin á tortólaeyjunum, eignir forréttindastéttarinnar í öðrum gjaldmiðli en krónum – kórónum fíflsins.
Bestu baráttukveðjur,
k
ps
hlutverk föðursins hefur um aldir verið rangtúlkað, pabbar eru bara pabbar, ekkert merkilegir, ekkert ómerkilegir, bara pabbar, óþarfi að þykjustuleika þá, þeir segja börnum sínum alls konar sögur, af tröllum og dvergum, mönnum og dýrum, löndum og af höfum, um leið og þeir vernda krakkana fyrir kuldabolum
pps
nú brann hafragrautur, á meðan, pottur skemmdur
~
6.4.2016
Kæra Kristín,
Ég er sammála þér í öllu og líst vel á munaðarleysið. Þegar forsetinn stígur fram á Bessastöðum í beinni útsendingu þá nötra ég alltaf að innan af óttablandinni spennu og held að þjóðin geri það öll. Sem betur fer líður oft langt á milli en mig grunar að forseti vor fái kikk út úr þessari spennu og ef svo er þá er hann núna hátt uppi. Mig langar svo að sjá einhvern vísi þess að hér fari með stjórn fólk sem er að vanda sig og sem er mannlegt og opið, segi bara eins og er og viðurkenni ef það veit ekki hlutina eða gerir mistök, fellir grímuna og berskjaldist. Að viðurkenna mistök er ekki að tapa heldur er það að sýna reisn.
Núna á ég að vera að lesa bók um gyðjudýrkun en laumast í bókina ,,Af sifjafræði siðferðisins” eftir Nietzsche en sú bók dúkkaði upp á skjali í gær og þá blasti hún við mér í næstu hillu á nágranna-skrifborði mínu svo ég greip hana til mín og glugga í hana. Yfirleitt hanga yfir mér ca 20-30 bækur sem ég ætti að vera að lesa og væri mjög viðeigandi að lesa, þær bíða eftir mér á skrifborðum og eldhúsborðum og gluggakistum. Þá er svo hressandi að grípa einhverja allt aðra bók nánast úr lausu lofti og lesa hana, gefa skít í hinar sem bíða og fara annað. Þannig las ég fyrst Inferno eftir Strindberg og það var frelsandi sólarhringur þegar öll rök tilverunnar beindu mér annað en ég mótmælti og las mitt Inferno með tilheyrandi hlátrasköllum. Seinna þegar ég las bókina aftur hló ég minna og engdist meira því þá birtist mér harmurinn mikli. En gyðjudýrkunin er mjög merkileg og gaman að kynnast þeim hluta af menningarsögunni. Er ekki komin langt en las um gyðjulíkneski og vagínur á hellaristum, er rétt að komast á bronsöldina og heill hellingur eftir. Á eftir fæ ég að hlusta á fyrirlestur fróðrar konu um fyrirbærið. Ég er svo lánsöm að fá að fræðast út og suður af bókum og fólki og stundum hef ég áhyggjur af því að ég taki of mikið inn en tappi ekki af. Hvenær er tímabært að tappa af? Ég veit það ekki, það getur varla skaðað nokkurn að taka inn fróðleik og fylla sig af alls konar um alls konar. Treysti því að ef það er mikilvægt þá finni það sér farveg á þann hátt sem skálskapargyðjan eða leiðsögumaðurinn telur best. Hvort innblástur af gyðjum eigi heima í ljóði eða bréfi eða setningu í skáldsögu veit ég ekki. Hins vegar veit ég og hef af því reynslu að efnið ryður sér leið, brýst út í textanum án þess að ég sé neitt að stjórna því. Ég veit ekki alveg hvað ég er að tala um en held ég sé að reyna að útskýra fræðslufíkn mína og innblástur vs. útblástur.
Mitt í öllu dramanu í gær (þegar þjóðin vissi ekki hvort þing yrði rofið eða hvort ráðherran hefði sagt af sér eða hélt það fyrst en svo reyndist það ekki) þá fálmaði ég eftir portúgölskum ljóðum. Ég finn það mjög sterkt að þetta eru tímar þar sem við þurfum á því að halda sem þjóð að lesa portúgölsk ljóð. Ljóð þar sem sterkar og heitar tilfinningar leika lausum hala í rósum, tungli og tíbrá og trega, í bergmáli táranna. Svona skáldskap sem maður les og missir úr hjartslátt af undrunartregagleði. Mig langar í forseta sem leggur það til á blaðamannafundum að þjóðin sameinist um það að lesa portúgölsk ljóð. Bylgjulengdir breytast með ljóðum. Hér er bútur sem kallaði til mín úr ljóði eftir Pessoa:
Allt líður skjótt sem endar á annað borð!
Maður deyr svo ungur andspænis guðum
við dauðann! Allt er þannig afar lítið!
Maður veit ekkert en ímyndar sér allt.
Safnaðu að þér rósum, elskaðu, drekktu
og þegiðu. Allt annað er ekkert.
(Öll dagsins glóð, þýð: Guðbergur Bergsson)
Ciao,
Bjarney
Ps. Næst lofa ég mynd eða tóndæmi eða danssporum (eða mynd af danssporum sem dansa við tóndæmið)
~
7 iv 16
Kæra Bjarney,
Takk fyrir bréfið, það mýkir eins og sólin sem kom upp í morgun. Hér og nú fletti ég blindandi bók og lendi á eftirfarandi ljóði, um hjörðina og höltu geitina:
Ljóðið er eftir persneska skáldið Rumi (1207-1273).
Bestu klæddu herramennirnir í fjórtándu viku ársins fann ég á Austurvelli á mánudag, í stærstu mótmælum sögunnar, þegar tuttuguogtvöþúsund manns komu saman og mótmæltu ríkisstjórn landsins, þ.e. um tíu prósent kjósenda. Og í framhaldinu spurði Edward Snowden á Twitter miðlunum:
„The population of Iceland is only 330.000. Largest protest by percentage of population in history?“
Félagarnir, sem eru frændur, stóðu nálægt styttunni af Jóni Sigurðssyni, í bakgrunni sást mannfjöldi, Dómkirkjan, Alþingishúsið, sólin skein í augun. Annar hinna best klæddu herramanna vikunnar klæddist ljósum börberrí frakka, of stórum, annars í svörtum fötum: rúllukragapeysu, þröngum buxum sem enduðu með fínlegri lykkju, eða viðlagi, þar sem faldur mætti skóm, svörtum stórum leðurhönskum – karlmanns – og glansandi svörtum spíssskóm. Hinn hinna best klæddu herramanna vikunnar klæddist einnig í svart, í belgdúnúlpu, þröngar buxur, strákalega útiskó sem eru blanda af strigaskóm og vetrar. Um hálsinn bar hann mynstraðan silkiklút frá Íran sem amma hans gaf honum. Hann hélt á stórum poppkornspoka. Frændurnir eru hárprúðir með eindæmum, riddaralegir lokkar féllu niður á bak, ljósir og dökkir. Þeir buðu bréfritara og tískubloggara popp.
Þetta var herragötutískuúttekt vikunnar sem þó er ekki lokið – margt gæti gerst í dag og á morgun. Skissa af best klæddu herramönnunum fylgir. Yfir til þín, skipper!
Ciao,
k
ps
niðurbrotið gengur ekki skv áætlun, þó er engin áætlun, montið er einhvern veginn yfirgengilegt, varnarmúr einhvers valdshroka sjálfsánægjunnar etc
~