Search
Close this search box.

Spjallþráður

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Draumapantanir og úttekt á tísku vikunnar

30. mars 2016

Kæra Kristín

Þakka þér fyrir síðasta bréf. Nú er ég loksins að detta í bréfagírinn en mér finnst hálf furðulegt að ávarpa þig ,,kæra Kristín” því mér finnst þú ekki heita bara Kristín heldur Kristín Ómarsdóttir. Hefurðu tekið eftir því hvað má sjá mörg skemmtileg orð út úr nafninu þínu? Til dæmi króm, kóma, rós, sómi, kína, krít og svo framvegis. Síðasta bréf þitt hefur heldur betur hrist upp í dulvitund minni. Takk fyrir að spyrja mig út í draumdýrið mitt. Það var fyrst þegar spurningin kom frá þér sem ég áttaði mig á því að mig dreymir aldrei dýr. Mig dreymir alltaf fullt af fólki, oftast fólk sem ég hef aldrei séð áður en þekki í draumunum og er inni í alls konar húsum að leysa verkefni. En aldrei dreymir mig dýr. Ég veit hreinlega ekki hvert er draumdýrið mitt og er búin að hugsa mikið um það undanfarna daga og niðurstaðan er sú að ef ég ætti að velja mér dýr (kannski er það samt dýrið sem velur mann) þá væri það annað hvort kisa eða fugl. Ég elska sjálfstæði og þokka kisunnar en líka yfirsýn og lendingar fuglanna, já helst vildi ég vera fugl, kannski Himbrimi. Heyrðu nú geri ég tilraun og býð hér með dýrinu mínu að birtast í draumi næstu nætur!! Svo læt ég þig vita hvort það hafi komið.

Við erum á þröskuldi nýs sumars. Í dag hitti ég fólk þar sem þessi orð báru á góma þ.e. ,,við erum á þröskuldi …” og ég tók ástfóstri við orðasambandið og langar að nota það í daglegu máli, þannig verður allt svo hátíðlegt og spádómslegt. Ég er á þröskuldi nýrra tíma, lífið er einn allsherjar þröskuldur nýrra tíma.

Manstu þú nefndir held ég í tölvupósti að þú ætlar að tala um tísku. Veistu, það er þáttur í sjónvarpinu í kvöld um tísku og helstu strauma sem framundan eru. Ég sé fyrir mér fréttatíma sjónvarpsins þar sem koma ekki bara íþróttafréttir og veðurfréttir í beinu framhaldi heldur líka tískufréttir og kúltúrfréttir. Það væri jafnvel hægt að tengja tískufréttirnar við veðurfréttirnar þannig að lægð kallaði á gular flíkur og víðar á meðan hæðir kölluður á svart og þröngt. En núna er þáttur um alzheimer og ég er byrjuð að gráta, þessi sjúkdómur er svo átakanlegur. Á eftir þættinum ætla ég að halda áfram að horfa á myndina ,,Dúfa sat á grein og hugsaði um hinstu rök tilverunnar” eftir Roy Andersson en það væri hægt að skrifa mörg bréf um rammana í myndunum hans. Rammarnir eru eins og málverk og ég er nýbúin að uppgötva að klippingar eru svo fáar að það breytir taktinum algjörlega. Ég elska að stúdera uppbyggingu á verkum, kafa í handbragðið og mögulega hugsun þar að baki, hreinlega elska það.

Ég hlakka til að lesa tískugreiningu þína og væri ekki verra að fá nýjustu straumana frá Tortóladeildinni og aflandslöndunum þar sem okkar háu herrar grafa krónur sínar í jörðu, klæddir víðum gulum fötum. Við erum á þröskuldi nýrra tískustrauma. Megir þú eiga góða vordaga 🙂

Adios mín kæra!

Bjarney

Ps. Hér kemur mynd sem ég setti saman í fyrradag. Ég hef heyrt að ef maður hættir snögglega að teikna og byrjar svo aftur þá byrji maður aftur á þeim þroskastað sem maður var á þegar maður hætti, það verði engin þróun ef maður snertir ekki blaðið. Í augnablikinu er ég föst í línuþroskanum þ.e. margar línur saman í röð sem móta saman mynd, þráhyggjukenndur línudráttur, helst mundi ég vilja teikna heilan vegg af svona endalausum línum. Það er róandi að draga línur.

 

2016-03-28 17.33.21

~

31 iii 16

Kæra Bjarney,

Takk fyrir að finna öll orðin sem fela sig í nafninu sem mér var gefið, ég vissi bara af: kóma,  hef þess vegna trúað því að mér fylgi meðvitundarleysi. Nú vekja mig ný orð til umhugsunar.

Hei: Til hamingju með Roy! Hann á afmæli í dag – sjötíu og þrjú kerti!

Kannski velurðu hann einhvern tímann sem gæt? (gæd)  

Uppbygging verka er algjörlega dásamlega áhugavert málefni.  Og heyrðu: þú stendur líka á þröskuldi nýrrar draumatíðar, öðruvísi draumfara og – það sem meira er um vert – senn birtist þér draumdýrið, það mun færa sig varlega nær, því það hefur verið óvenjulega feimið hingað til og hefur ekki þorað að kynna sig, en nú fær það áskorunina, um að koma úr felum, læðast nær – bíddu bara, kæra Bjarney – og kannski verður það birna!

Viltu segja mér þegar það gerist?

Síðan á afmælinu hennar mömmu hefur lítil kónguló búið í baðkarinu hérna, hún kom á teppi ofan úr Heiðmörk, hefur stækkað, en er í sjokki og hleypur hratt upp eftir hliðunum (hlíðunum) þegar ég reyni að veiða hana og koma í glas og út í beð þar sem vaxa jarðarber. Baðkarið er alhvítt, hún hlýtur að fá ofbirtu í augun, ég kemst ekki í sturtu.

Þessa dagana vinn ég í því að brjóta mig niður, vegna sjálfsánægju sem ég skynjaði að klófesti hjarta mitt, og heldur því í greip sinni. Samviskubit og skömm eru af hinu góða: til þess gert að lempa sjálfsánægju, sem tefur næmni, til þess gert að brjóta mann niður svo maður haldi ekki fjallræður fyrir himininn. Samviskubit myndast afþví maður getur ekki verið eðlilegur og kann ekki að njóta ófullkomnleika dýrategundarinnar. Svo er manni tamt, eða næstum því eiginlegt, að fara gegn eigin eðli og gera fyrst hluti sem manni líkar minnst. Meðfram því að brjóta mig niður mun ég einbeita mér að skemmtun og fjárhættuspili.

Fyrir nokkrum dögum hringdi sálfræðingur Reykjavíkurborgar og sakaði mig um hroka og hortugheit, byrjaði næst að sleikja mig upp, þá svaraði bréfritari sem vissulega er sjálfsánægð hetja:

Stöðvið í nafni ástarinnar, en plís haltu áfram að brjóta mig niður, virðulegi sálfræðingur, afþví ég vil ekki undirgangast þjálfunina fyrir herinn sem þú stofnaðir og fyllir upp í með sjálfsánægju, samviskuleysi, og einhverju sem enginn veit hvað heitir, og leyfðu mér að vera áfram viðkvæm og eitthvað sem enginn veit ekki hvað heitir.

Sálfræðingurinn svaraði: Til hamingju, litla písl, þú hefur skorað hátt. Auðmýkt þín er til fyrirmyndar. Á bakvið heyrðist í glingurhljóðunum þegar gullklink hellist ofan í málmbox, eins og í peningagotterísvél, símtalinu var slitið af annarlegum öflum, eins og allt yrði suddenlí rafmagnslaust.

Sjáðu þessi orð:

auðmýkt

undurmýkt

undirmýkt

falsmýkt

Falsmýkt er leikin auðmýkt, sem reynir að breiða yfir sjálfsánægjuna, sem helst lofar það sjálf sem vekur mann upp á morgnanna með spegilmyndinni: hæ! Falsauðmýkt er afsprengi neyslusjálfshyggjunnar.

Undurmýkt: sbr: elskhugi sem er undurmjúkur.

Undirmýkt: sbr: þræli sem er skipað að vera undirmjúkur.

Auðmýkt: þarfnast ekki útskýringar.

Sjálfsánægjan þykist halda á þjóninum og kónginum, þessu jingogjang pari sem býr í hverri manneskju í gullstól, en svo er ekki, sjálfsánægjan þaggar í þessum samanfléttaða karakter sjálfsins, sem á skemmtistundum, í enn þá nánari samruna þjóns og kóngs, breytist t.d. í fífl, í töframann, í vitring, í undurmjúkan elskhuga og á neyðarstundu í undirmjúkan þræl.

Þessa dagana vinn ég í því að brjóta mig niður, sjálfsánægt virkið utan um hjartað svo það fái að slá og bergmála undurmjúkt.

Þessa dagana vinn ég í því að brjóta mig niður, sjálfsánægt virkið utan um hjartað svo það fái að slá og bergmála undurmjúkt.

Þú færð fréttir af götutískunni í næsta bréfi – sólong kæri pennavinur, yðar k

~

2.4.2016

Kæra Kristín,

Þakka þér kærlega fyrir bréfið þitt sem er sterkt í mýkt sinni. Hvernig gengur niðurbrotið? Nær hjarta þitt að slá og bergmála, undurmjúkt? Veistu ég fann tvö orð í viðbót í nafninu þínu og nú undrast ég það ekki að þú hafir skrifað heila bók um útigangsmann því í nafinu þínu má finna bæði orðin róni og rónar. Nei, ég held að Roy verði ekki leiðsögumaður minn, ég kynntist honum ekki rétt á síðasta ári. Ég sá fyrst nafnið hans í tengslum við sænska bók þar sem kona skrifar um ástsjúka konu og ástmann hennar en þá kom Roy fram í fjölmiðlum og sagðist vera fyrirmyndin að ástmanninum. Aumingjans rithöfundurinn þurfti að útskýra að bókin væri skáldskapur. Kannski hentar hann betur sem leiðsögumaður kvikmyndagerðarfólks, ef hann yrði með mér í bókaskrifum væri hann vís til að birtast í Babels þættinum sænska og segjast vera allar persónur bókarinnar.

Ég skoraði á draumdýrið að birtast og fyrstu nóttina gerðist ekkert. Næsta kvöld hugsaði ég stíft um að fá nú að sjá dýrið og viti menn, það birtist. Mér er örlítill vandi á höndum því þau reyndust þrjú: mörgæs, mávur og svanur. Geta draumdýrin verið mörg? Er nokkuð tímabært að túlka þetta? Kannski sýnir þetta að ég get að kvöldi lagt inn pöntun um drauma komandi nætur og mér finnst þetta sýna hvernig vitundarstigið getur flætt inn í og haft áhrif á dulvitundina en samt veit dulvitundin miklu, miklu meira en meðvitundin. Ég held áfram að fylgjast með dýraferðum á draumaslóðum og læt þig vita ef dýrin koma aftur.

Í vikunni birtist á forsíðu einna blaðanna mynd frá fornleifauppgreftri á fornum kirkjugarði í miðbænum. Á myndinni blöstu við beinagreindur í gröfum sínum. Ef það er líf handan þessa lífs ætli maður finni þá fyrir því þegar bein manns eru snert? Ætli mann kitli á þeim stöðum sem snert eru eða ætli maður upplifi draugaverki, draugabeinverki? Ætli þau sem eru að grafa upp finni gusta um sig, finni óvæntan andvara eða ofsafengið logn? Hver voru draumdýr þessara jarðnesku leyfa, ætli þau láti heyra í sér þegar hróflað er við beinunum?

Ég er svefnlaus og slöpp eftir bjórdrykkju og barferðir gærkvöldsins. Þegar ég vaknaði í morgun taldi ég hvorki glös né tegundir heldur fjölda bara en mér telst svo til að við vinkonurnar höfum þrammað á milli sjö ólíkra staða. Þess vegna vorum við nokkuð sprækar þegar við vöknuðum í morgun, kvöldgangan á milli staða hefur haft heilnæm áhrif og dempað eituráhrif alkóhólsins. Staðirnir áttu það allir sameiginlegt að vera loftlausir og fullir af fólki að tala og tala og tala. Hvenær fáum við þögla bari þar sem allir sitja og hugsa í hljóði? Ég mundi opna þannig bar með myndum af mörgæsum, mávum og svönum og leyfa jafnvel nokkrum af umræddum beinagreindum að liggja við afgreiðsluborðið. Þegar ég sat í gær með bleikan kokteil á Slippbarnum blasti við mér skip í slippnum sem heitir Kristín, ég tók mynd en hún heppnaðist ekki þar sem flassið tróð sér að. Ég set myndina hér aftast, þarna á bak við er sem sagt togarinn Kristín. Til að losna við síðustu leyfar höfuðþyngslanna fór ég áðan í sjóinn. Það ku víst hafa góð áhrif á sogæðakerfið að synda í sjónum. Ég er hvorki í nógu góðu sambandi við sogæðakerfið mitt til að geta sannreynt það né syndi ég nógu mikið í raun því ég rétt dýfi mér ofan í og missi andann þegar fæturnir dofna upp. Þegar blóðið hitnar upp í pottinum liggur við að ég heyri þytinn í blóðinu og kannski flæðir það hraðar, kannski flæðir það í samræmi við ölduganginn við ströndina. Hafið og dulvitundin eiga í dularfullu sambandi, hafið hreyfist og dúar í samræmi við innri ólgu.

Heyrðu mig rámar í myndband eða krækju sem þú deildir á fésbókinni fyrir löngu síðan þar sem var viðtal við konu sem býr í Bandaríkjunum og hún lýsir hefðbundnum sunnudegi (eða var það laugardagur?) og ég man hvað það var hressandi þegar hún sagði að á svona dögum væri kjörið að fróa sér og fara á tólfsporafund. Ég man hvað mér þótti gaman að lesa þennan texta, þetta óheflaði og sakleysislegi og nakti heiðarleiki. Ætli þetta sé ekki svipað og kallað er ,,comic relief” en þegar einhver gefur mér ,,comic relief” (hver ætli sé íslenska þýðingin, kannski skrípaléttir?) verð ég svo fegin og svo glöð og þakklát. Manstu eftir þessu viðtali? Á morgun er sunnudagur og þá er kjörið að fylgja dagskrá dularfullu konunnar.

Ég hef ekki teiknað neitt undanfarna daga en hlusta mikið á nýtt lag frá Bat for Lashes. Þekkirðu hana? Skoðaðu viðtöl við hana og sjáðu mýktina og hæfileikana. Kannski er hún dularfullt hliðarsjálf Bjarkar án þess þær viti það báðar. Þann 1. júlí kemur held ég fjórða platan hennar en hinar þrjár hafa fylgt mér undanfarin ár, röddin er svo mjúk að sálin mýkist, eins og rakakrem fyrir sálina. Nokkur lög af síðasta diski láku áreynslulaust inn í síðustu bókina mína, tónlist kemur mér í transástand sem brýst síðan út í skrifunum. Notar þú tónlistartransinn? Ég man eftir ljóðabókinni Brúður eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur en þarna virðist Bat for Lashes feta svipaða flóðslóð eða slörslóð. Voila!

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=XBjuJbvqm_Y]

 

Eigðu góða dag, mín kæra, og vonandi passar draumdýrið þitt, hundurinn, þig vel allar mínútur sólarhringanna. Hvernig lítur hann annars út?

Adios,

Bjarney

2016-04-02 00.14.11

~

y  iv 016

kæra Bjarney

herragötutískunni síðustu vikuna í mars og fyrstu vikuna í apríl, við götuna sem byrjar hjá innheimtulögfræðingum og endar við klukkutorgið með klukkunni sem aldrei gengur rétt, undir horfnum læk, kenni ég ekki kuldanum um, sem tók sig upp á annan í páskum þetta árið, samkvæmt tímatöflunni í evrópu númer sextán á tuttugustuogfyrstu öld. búðirnar við götuna fara seint á fætur, fólkið er komið á stjá, sumir svangir, bíða á vörubrettum hjá matavöruversluninni. á brettunum sátu tveir félagar einn morguninn, best klæddu herramenn vikunnar # 13, (e13s16).

annar hafði ekki hettuna á. flestir karlmenn sem fóru hér um umrædda viku klæddust dimmum úlpum sem náðu niður á miðlæri, með hetturnar á hausnum, oft húfu undir, dökkum síðbuxum, sem náðu niður fyrir skóna, uppreimaðir, gamaldags, ópússaðir. hinn tók snemma niður hettu og húfu til að sýna glæsilega hárgreiðslu: snöggklippt korngult hár, síður toppur sem gat hulið andlitið, með gráum störum. hins hár var rakað upp að kollinum, þar óx það umþað bil þriggja sentímetra langt. annar í grænum hermannajakka með merkjum í rauðum, svörtum og hvítum lit. hinn í dökkum leðurjakka og hettupeysu, gráum brettabuxum með rauðu í, svörtum adidas. hinn í þröngum gallabuxum, dc strigaskóm með rauðri líningu. handarbök annars skreytt mynstrum. sá var slakur, glaður, hinn sættist við athyglina eftir dramatískt andartak.

annað sætið fyrir best klæddu herramennina vikuna #13 skipa tveir félagar sem vinna í matvöruversluninni, klæddir í einkennisbúning búðarinnar án þess að týna persónuleikanum, slakir, kímnir. annar berhöfðaður með axlasítt hár og jesúskegg, á stuttermabol, handleggur skreyttur mynstrum, reykti. hinn í hettupeysu, með húfu, kveikti sér í sígarettu, í converse strigaskóm. hinn í óbreyttum hvítum.

þetta er tískuúttektin fyrir vikuna.

einu sinni sá ég mynd eftir þennan sem heldur að hann sé ástmaður í bók, ég féll ekki fyrir myndinni, mér fannst hún hafa dáldið mikið fyrir þessu. en það er mín skoðun. (það er mín skoðun, það er mín skoðun, það er mín skoðun).         

róni og rónar og dóni og dónar þá líka, geri ég ráð fyrir. rónar varðveita menningu sem erfist á milli kynslóða, vit, þekkingu, sögur, tungumál, skapa stíla og tísku, koma í veg fyrir að menningarverðmæti glatist, svo fátt eitt sé nefnt. Hlutverk róna í menningunni er vanmetið.     

úff, ég öfunda þig af mörgæsinni, svaninum og mávinum. draumhundur minn breytir um útlit, síðast var hann svartur, lítill og flaug.          

viðtalið var við vinkonu mína, hún er ljóðskáld og heitir Eileen Myles.     

takk fyrir sönginn, hér er söng og dansatriði:

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=PiDTr7CwFp8]

 

adios,

k

ps

niðurbrotið gengur skv áætlun

FullSizeRender (9)

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email