Search
Close this search box.

Spjallþráður

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

K(ó)rónur, auðsöfnun og bréfkorn til Frans páfa

23. mars 2016

Kæra Kristín!

Vonandi fer kvefið að yfirgefa þig með sínum fléttuflækjum svo hugsanirnar fái að renna áfram eins og slegið hár, glansandi slétt og slegið hár. Nei, ekki fara að læra hagfræði en þú getur fléttað henni saman við textahugmyndirnar þínar og komið með ferska sýn á allt heila dollaraklabbið eins og þér einni er lagið. Þú ættir að skrifa leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtæki með eigin myndskreytingum. Dollararnir drottna, dollararnir drottna yfir eyjaskeggjum og meginslandsskeggjum og skeggleysingjum og hryggleysingjum líka. Rétt í þessu var ég að uppgötva hvað orðin ,,kóróna” og ,,króna” eru lík, maður tekur bara fyrra ó-ið úr kórónunni og þá er maður kominn með krónupening, váh, þetta býður upp á freudíska eða júngíska eða kristevíska greiningu á sálarkimum krónuþjóðarinnar. Mig grunar að það leynist krónusegull í pungum því þangað fara svo margar krónur, kannski eru krónur hópsálir með hjarðhegðunarblæti eins og mannfólkið flest.

Það er yfir mér einhver óvænt helgi. Eflaust vegna þess að á næstu dögum verður síðasta kvöldmáltíðin á dagskrá, gestemanegrátur, hanagal, krossfesting, heljarför og svo upprisa og eilíft líf – allur tilfinningaskalinn á aðeins fjórum dögum. Í geymslunni á ég teiknibók frá því ég var 9 ára og þar rissaði ég upp krossfestinguna og upprisuna en virðist ekki hafa haft áhuga á kvöldmáltíðinni. Ég ætla að finna þessar myndir og setja þær hér inn (þær fá að fylgja með næsta bréfi). Ég fæddist með mikla þörf fyrir æðra afl, guð, eða hvaða nafni sem það nefnist (trúargenið). Signi börnin mín á kvöldin og þyl bænir, þrái handleiðslu æðri máttar, einhvern meðbyr á þessari furðulegu siglingu. Töfra. Já, þetta er töfraþrá og vonþrá. Helgin stafar líka af því að í dag eru 70 ár frá því að pabbi minn kom í heiminn, viðbreinsbrotinn og lítill. En núna er hann orðinn stór og búinn að stíga þúsund öldur, moka upp og veiða trilljón tonn af fiski. Í gegnum tíðina hef ég eflaust verið með þúsund kennara sem hafa ausið úr viskubrunni sínum en ég held að pabbi sé mikilvægasti kennarinn minn. Bréfið yrði of langt ef ég ætti að telja upp allan þann fallega sjávargróður sem hann hefur gefið mér.

Já, þú spurðir um Gammana. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að skilja það félag en ég held að það kaupi og leigi fasteignir ($$$$$), reki sinfóníuhljómsveitina okkar, reki lánasjóð fyrir námsmenn ($$$) og ætli að leggja stóran veg í gegnum borgina ($$$) og er núna að nostra við bókmenntirnar. Kannski er ég svarthvít í hugsun en ég skil ekki hvers vegna fyrirtæki sem trúir á upprisu og eilíft líf markaðarins og fjármálaaflanna hafi áhuga á að fjárfesta í menningu sem gefur mest af sér andleg verðmæti. Veistu ég elska listina svo heitt að ég er tilbúin að vera peningalaus forever ef ég fæ að sinna henni. Ég veit ekki hvort þau hjá Gamma hafi sömu afstöðu eða skilji slíkan þankagang. Peningaleysi og fátækt er ekki alltaf það sama – Tranströmer segir í einu ljóði á einum stað: ,,fátækrahverfin eru innra með yður”. Kannski eru Gammarnir að reyna að koma í veg fyrir það. Vonandi setja þau kórónur á öll kynin.

Hér fylgir með mynd sem ég teiknaði 16 ára af kvikmyndastjörnu sem mér þótti (og þykir enn) voðalega töff. Veistu að þegar ég var lítil stelpa í Sandgerði, leikandi mér í móanum og fjörunni innan um rofabörð og klóakrör, þá upplifði ég mikla sorg yfir því að Elvis Presley væri dáinn. Mér þótti hann svo álitlegur mannkostur og mig langaði að giftast honum og því var svekkelsið mjög mikið en ég varð að sætta mig við vonlausa stöðu. Þessi minning hefur verið að ásækja mig. Ég teiknaði þó ekki mynd af honum, leyfði honum bara að dúkka upp í einni af bókunum mínum og svo var verið að benda mér á bók sem heitir “Det är svart att vara Elvis i Uppsala”, held ég verði að glugga í hana. Reyndar tróð Eastwood sér inn í eitt af ljóðunum mínum um daginn en þar hittir hann Fridu okkar Kahlo.

Eigðu góða páska, mín kæra, með tilheyrandi máltíðum, krossfestingu og upprisu. Gulum ungum og gulri sól.

Sólarkveðjur,

Bjarney

Ps. Í dag er fullt tungl  ?
2016-03-20 23.15.24

~

24 iii 2016

Kæri pennavinur,

Pennavinur þinn svindlar, dagsetning á hausnum er röng, oft er betra að svindla en segja satt enda skiptir sannleikurinn litum, að því er virðist, í dag er ágætt tækifæri fyrir svindl og gleyma að ekki má snerta spilastokk eða daðra við djöfla, ég tek ekki þátt í krossfestingu í tvöþúsundasta og sextánda sinn (en fagna daglega fæðingu frelsarans), umrædd dagsetning, þessi á hausnum, svindldagsetningin, er afmælisdagur mömmu minnar. Hún fæddist í kvistherbergi, þar sem nú stendur bílastæðishús, á þriðju lofthæð. Bróðir hennar leigði síðar húsbíl eitt sinn í sumarfríinu og plantaði í bílastæðishúsið, fór þangað á sólskinsdögum, lagaði kaffi og hringdi í systur sínar, þetta voru stutt símtöl, fór svo heim. Fyrir eitthvað mörgum áratugum sat svo (svo = framtíð = ???) amma mín – á þriðju lofthæðinni – í peysufötum með Passíusálmana í kjöltunni á langa deginum mikla, og þagði til miðnættis, ekki mátti kveikja ljós eða á útvarpi. Hún dó áður en ég fékk minnið, minnið var gott í móðurfjölskyldu minni, það einbeitti sér að því að segja sögur og fela eigin spor og æviatriði, hlýt ég að virða þessa tegund af minni og setja hendur í kross, fyrsta málsgrein svindldagsetts bréfs hefur þegar óvirt minningu nokkurra sem ekki vildu skilja eftir sig ummerki, spor, slóð, ekki vegna glæpastarfsemi, að ég best veit. Þau voru eins og ljóð sem vill ekki (l)enda á blaðsíðu.  

Í dag má líka víst því ekki tala um rassklaufar, þeim er ég meðmælt, afþví stolt afturendans ber þær. Best að minnast á þær. Sloppar á spítölum eru hnepptir að aftan – það er fallegt – þegar ég var lítil átti ég rauðar buxur með rassklauf, þægilegt og gaman að leika sér í þeim. Ofuráhersla á framhliðina er að gera útafvið samfélagið. Senn byrja strigaskórnir að hita sig upp fyrir fyrsta sumardag. Hvernig strigaskó fyrir sumarið sextán ætli teiknarnir hafi teiknað í fyrra? Mæli með  ljós/skærgrænköflóttum á níu ára krakka.

Bestu afmælisóskir sendi ég skipstjóranum, kæra Lína langsokkur.

Og takk fyrir síðast. Gaman að hitta þig í kvikmyndahúsinu í gærkvöldi, leitt þykir mér ef ég dró úr áhrifunum sem þú varst fyrir af myndinni með áliti mínu, sem tróð sér að, með tillitslausu, á æstum hraða, með uppáþrengjandi álitinu. (Sástu borgarsálfræðinginn í sófanum? Var hann ekki að skrifa niður í rauða nótissubók?) Erindi kvikmyndarinnar er brýnt en mér fannst hún meira eins og ritgerð sem greinir frá (og flýtir sér að því) helstu söguatriðum og forðast dramatík. Var ég ekki að tala um þetta um daginn? Að oft horfast sögumennirnir ekki í augu við dramatíkina? Á jafn rosalega dramatískum tímum er tannabit dramatíkunnar í afþreyingariðnaðinum oft lint. Heimurinn er þreyttur. Hann er búinn að starfa svo lengi. Úff, hvað hann er þreyttur og lasin, jörðin grætur.

Og ó og æ og ó, einhver þykist skynja að nútíðin fælist dramatík og hann heitir undirritaður sem þykist vita allt.

Þú hittir naglann á höfuðið: „krónusegull í pungum“, eins og þú orðar það í bréfinu.

Tanströmer lifir það ekki að sjá heiminn týna heimilisfanginu og eða verða rændur því. Já, það er ekki vegna löngunar í ríkidæmi sem fólk helgar líf sitt list. Þetta er ótrúlega sterk hvöt, eins og kynhvötin, og sterkari.

Elska teikninguna þína – takk – kyssi hana í draumi, hlakka til að lesa ljóðið um Fridu og Clint. Hefurðu heyrt um Agnesi Martin myndlistarkonu? Hún er núverandi leiðsögumaðurinn minn.

Sólarkveðja,

k

ps

takk fyrir að láta mig vita af fulla tunglinu, takk takk

FullSizeRender (5)

~

25. mars 2016

Sæl, kæra Krístín pennavinkona!

Já, það var gaman að rekast á þig í bíóhúsinu í gær. Mér þótti Spotlight mjög áhrifarík mynd en furða mig hins vegar á því hvernig hún gat fengið Óskarsverðlaun fyrir besta handrit því ég hef séð svo margar myndir áður sem fylgjast svipuðum handritsþráðum. Nú, var þetta hinn frægi borgarsálfræðingur sem gleymir alltaf að hringja í mig? Þú sagðir mér nafnið hennar og ég gleymdi því um leið og ég kastaði kveðju, það er merkilegt hvað nöfn gleymast hratt. Líka merkilegt hvað kveðjum er kastað um víðan völl af ýmist hálfum eða heilum hug.

Nú er frelsarinn tilbúinn undir tréverk og merkilegt hvernig allt kemur saman í einn punkt á þessum degi: lokanir, frí með súkkulaðióþreyju, naglar í lófa, síðusár, fórn, örlæti, rifið fortjald, landskjálfti, sorgarorg. Nei, ég þekki ekki Agnesi Martin en gúgglaði hana og sé að hún varð 104 ára síðasta þriðjudag. Vonandi reynist hún þér ljúfur leiðsögumaður. Allt í einu fer ég að hugsa um orðið ,,fylgja” en þú hefur valið hana sem fylgju eða að fylgja henni eða að þið fylgist að til fylgilags. Það var í desember árið 2015 sem ég gekk með nokkrum vinum í gegnum kirkjugarðinn við Suðurgötu, við vorum á leiðinni í bæinn en hefðum í raun átt að eyða kvöldinu frekar í garðinum. Þar sagði vinur minn mér að fjöldi manna á jörðinni hefur nýlega orðið hærri en allt það fólk sem hefur hingað til búið og látist á jörðinni. Þetta þýðir sem sagt að það gengur núna um fólk á þessari jörð sem á sér ekki fylgju. Þetta hlýtur að skapa ójafnvægi og hafa einhver dulin áhrif á hugboðin sem fylgjurnar senda sínu fólki. Einhverjir fá aldrei hugboð, aldrei lúmskan grun sem síðan reynist réttur eða kvika drauma. Í fyrra bréfi mínu segi ég frá föðurafmæli og svo lýsir þú móðurafmæli og núna bendi ég á afmæli Agnesar svo þetta er mikil afmælisvika en veistu apríl nálgast, ég hef alltaf verið svolítið hrædd við apríl. Ég þekkti tvo sem fóru sjálfir yfir móðuna þann 4. apríl með nokkurra ára millibili og þess vegna er ég alltaf með öndina í hálsinum þann dag. En ég vil tala um bjartari hluti, veistu himininn var undurfagur í kvöld, djúpljósblár með skýjum sem urðu smám saman slétt og teygð og svo var sólin að setjast með sitt geislashow við sjóinn, blikkandi linsurnar.

Vorsólarkveðjur til þín og gleðilega upprisu,

Bjarney

Ps. leyfi myndinni sem ég lofaði að fylgja hér með, teiknuð á föstudaginn langa árið 1984 (veit ekki af hverju ljósmyndin tók á sig bláan ljóma). Sé það núna að ég hef sett snjó í fjöllin af gömlum vana. Pappírinn er þunnur svo það sést glitta í upprisuna hinum megin, allt rennur saman að lokum.

Pps. ég man eftir að hafa horft á einhverja tónleika í sjónvarpinu og það stendur glósað aftast í teiknibókinni: ,,Cyndi Lopa, Goria Grina, Duran Duran, Boný Tæler, Rot Sivert, Elton Hon”

Ppps. Ég er líka komin með kvef en fór áðan í göngutúr og það hefur slegið á hálsbólguna, góðir göngutúrar leyna á sér.

2016-03-25 13.20.39

~

26 iii 016

Sæl kæra Bjarney pennavinkona!

Mér fannst hún Bogga (þerapistinn) kasta kveðjunni fastar en snjóbolta, á meðan þú hentir í hana pappírsfugli, ég hélt með þér, og skynja ofbeldishneigð í yfirveguninni – hún á eftir að lesa þessar línur, en mér er sama, ég segi bara eins og er, ég segi bara eins og er, ég er heiðarleg, ég segi bara eins og er, ég segi bara eins og er, ég er heiðarleg og ég segi bara eins og er… Úff: aumingja allir sem segja eins og er. Og úff: nú hef ég áhyggjur af fylgjuleysi mannkyns. Ennnnnnn: heldurðu ekki að dýr af útrýmdum tegundum fylgi ekki fólki þegar þau geta ekki lengur fylgt niðjum sínum? Dísus !!! Hvað mannkynið myndi fullkomna grimmd sína og græðgi í jörðina, með því að fjölga sér og útrýma dýrum til þess að treysta öllu fólki yfirskilvitlega fylgd. Úff. Mannkynið er barn sem borðar mömmu sína. Hvað segir Frans I páfi um það? Um að mannkynið sé móðuræta? Sem geti ekki hætt að borða móður sína þegar tímabilinu á brjósti lýkur, eins og það getur engu hætt sem það byrjar á, vegna erfðafíknarinnar? Við ættum að spyrja páfa álits á umhverfismálum og ásigkomulagi jarðarinnar – eigum við að skrifa honum bréf? Handskrifað á löggiltan pappír? Og benda honum á að fíknin í auð ógnar öllu lífi á jörðinni, það dregur að endalokum. Aðrar fíknir eru í barnalíki miðað við fíknina í auðsöfnun. Engum dirfist að setja hendur í kross, hætta að safna og gefa eigurnar. Veistu hvort að reist hafi verið meðferðarstofnun til að lækna fólk af þessari heimshættulegu fíkn? Kannski á Spáni. Það má treysta Spánverjum til að koma á fót ríhabbi fyrir fíknieignaneytendur.

Kæri Frans I,  

Okkur, tveimur meðlimum í RSÍ, háttvirtu Rithöfundasambandi Íslands, stendur ekki á sama: maðurinn fæðist móðuræta og deyr bólginn af áti á jarðargjöfum. Hann kann sér ekki hófs. Hann breytir vatni í gull og síðan í eitur…

Það gerast töfrar í bréfunum þínum, t.d. hittirðu á orð sem ég er að nota annars staðar. Þetta hefur eitthvað með æðri mátt að gera, held ég.

Já, best, best, best, best, svo að reyna að gleyma harmdeginum mikla, ég mun reyna hvað ég get að taka ekki eftir þegar almanakið endurvarpar þessu ákveðna dagatali og fara blindandi gegnum tímatalið fyrstu viku aprílmánaðar. Biðjum einhvern, kannski Ragnheiði í RSÍ, að klukka okkur þ. sjötta apríl n.k.: hæ, nú megið þið vakna til meðvitundar um að menn hafa merkt dagana númerum. Svo opnar maður augun, þ.e.a.s. ekki bókstaflega. Einhvern veginn hélt ég einu sinni að fylgjur foreldra minna og systkina væru birnir. Mig dreymdi þá þá, oft, en mig hefur ekki dreymt birni lengi. Draumdýr mitt er hundur. En þitt?

Gleðilega páskahátíð á morgun og hinn!   

Í kvöld mála ég egg, klippi greinar og set í vasa, hengi eggin á greinarnar – ætlar þú ekki líka að gera þetta? Úff, kannski mun ég láta vera, fyrst ég er eiginlega búin að mála egg og hengja á greinar hér. Þarf að hlaupa og kaupa í pitsu fyrir morgundaginn.

Vorsólarkveðjur,

k

ps

farðu varlega og passaðu kvefið, láttu þér ekki verða kalt, drekktu heita drykki

pps

bogga á eftir að refsa mér fyrir hinn svokallaða heiðarleika, ég mun þurfa að þylja boðorðin tíu fyrir henni á methraða eins oft og hægt er á einni klukkustund

ppps

strit [fyrri tíð almúgans] = stress [nútíð efri millistéttar+], komin með ofnæmi fyrir streitu- og stresstali

pppps

elska föstudagslanga teikninguna, manneskja sem er orðin mörgum sinnum níu ára getur ekki teiknast á við fegurðina sem býr í barni, í staðinn birtum við þessa síðu og yfirlýsingu, Guli eyrnalokkurinn, úr H.S.U., 1. tbl. 1. árg.,  sem Medúsa gaf út árið 1982, sjáðu:

FullSizeRender (8)
~

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email