Search
Close this search box.

Spjallþráður

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Svimandi kompukláði

9. mars 2016

 

Sæl, mín kæra!

Nú er orðið langt síðan ég skrifaði þér síðast en ég hélt í útlegð inn í sautjándu öldina. Hægt og bítandi ætla ég að halda lengra og lengra inn í hana og reyna að skilja 400 ára hugsun. Reglulega stökkva spurningar fram og pota í mig með laumulegu hvísli og svona hljóma þær: ,,Til hvers í ósköpunum að vera að þessu streði? Getur maður yfirleitt sagt eitthvað um eitthvað? Er þetta til einhvers gagns? Er skynsamlegt að steypa sér í skuldir til að eltast við grúskdrauma?” En svo laumast vorgeislasólin um með nýjan ilm í lofti og þá seytla tilhlökkun og gleði inn í kerfið. Æ, takk fyrir að setja ljóðabókina Vonarlandið eftir Wislawa Szymborska (ætti maður að beygja nafnið og segja Wislöwu Szyborsku?)í bréfið þitt en ég held að nafnið á þessari bók sé í kompunni minni því vinur minn einn mælti með henni fyrir margt löngu. Notar þú svona kompu eða nótissubók? Ég er alltaf með eina litla hjá mér en stundum snerti ég hana ekki svo mánuðum skiptir og svo er eins og grípi mig einhver svimandi kompukláði og þá er ég stöðugt að grípa til hennar og hripa niður ómerkilegar og merkilegar athugasemdir. Ef mig vantar hugmyndir þá er stundum nóg að fletta í gegn og rekast á punkta sem hafa gleymst en rifjast upp. Kannastu við þessa tilfinningu, þetta andartak þegar maður man aftur eitthvað sem var farið? Ég skrifa oft bara til þess að sjá við þessari hakkavél sem hausinn á mér er því hann hendir út óæskilegu dóti. Æ, nú rann ég yfir á fésbókina og lét ginna mig í leik sem sýnir mér myndirnar yfir bestu mómentin mín. Ég held að fjársjóður fésbókarinnar liggi núna í öllu magninu, öllum minningunum og myndunum sem við getum ekki raðað saman sjálf heldur fáum leiki og tillögur frá forriturum úti í heimi til að raða saman og rifja upp. Hvað ætli fésbókin sjúgi mikið úr minnisforðanum mínum á hverjum degi? Ég á engan minnisvaraforða (nema kompunótissubækurnar séu slíkar) og það gerist eitthvað athyglisvert í heilanum þegar ég dett inn á fésbókina, einhver seiður sem erfitt er að slökkva á og taka augun af. Þetta er dáleiðsla! Nú er ég búin að slökkva á bókinni til að geta opnað aðra, sagnirnar að kveikja og slökkva og opna og loka eru hliðstæðar en samt ekki, þær geta tengst en þessi hugmynd er ekki nógu opin til að hún kveiki í mér löngun til að halda lengra inn í hana svo ég loka og slekk hér með, eða slekk og loka, í þeirri röð. Fyrir nokkrum dögum var ég að segja kunningjum mínum frá þessum skrifum okkar og að í raun þekktumst við harla lítið þegar við byrjuðum að skrifast á. Þau voru mjög hissa og flissuðu síðan. Þetta er fullkomin leið til að kynnast manneskju og nú ætlum við að smita aðra og fá aðra til að kynnast í gegnum bréfaskrif. Bréfabyltingin er hafin!!

Adios kæra byltingarkona,

Bjarney

Ps. Mikið eru myndirnar þínar fallegar, léttar og leikandi. Nú verð ég að taka fram penslana mína og mála líka, þá getum við málast á! Svo seinna fer ég að semja tónlist og sendi þér og þá sendir þú tónsmíðar þínar til baka og við semjumst á! En fyrst er að mála (eða teikna), geri það annað kvöld 🙂

~

10. mars 2016

 

Sæl, mín kæra!

 

Þetta himneska stjörnuriss sem ég og faðir barna þinna fæddumst undir eiga að kunna hafa áhrif á skapgerð, fæðingatímabilinu fylgir fýla, ég var í fýlu þegar mér barst bréfið sem strokaði út álögin, hvað ég varð glöð! Takkkkk. Í dag  las ég ljóð eftir pólsku skáldkonuna, Grétu Garbó ljóðlistarinnar; en hún var alltaf nýkomin úr skógarferð þegar hún svaraði í símann á haustin, stóð við borð og horfði á nýtýndu sveppina í körfunni á meðan símraddir tilkynntu henni hitt og þetta skemmtilegt. Mm, já, ég skrifa í nótissubækur, oftast eina í einu, en nú eru þær margar, ég varð áttavilt og nota gamla teikniblokk sem ég fylli upp í skallana á. Bestu bækurnar eru rauðar, mjög þykkar, en þessi gerð er ekki lengur búin til, lærði systir mín þegar hún leitaði í búðunum í Gautaborg í haust og keypti í staðinn skó á mig. Bækurnar eru/voru sænskar. Þá eru til mjög fínar stílabækur í bókabúðinni niðri í bæ, þær eru ekki þykkar, með lituðum pappír, gulum, grænum, línustrik, ætlaðar lesblindum: mæli með að semja í þær. Þá ánetjast ég a4 bókum með teiknipappír í og nota blýant þegar ég skrifa í þær. Ég sem í svona bækur, bæði ljóð og sögur, skissur, fragments og minnispunkta. Leikritin vilja smákompur. Þegar maður er að skrifa upp nýjar og nýjar gerðir verða minnispunktarnir eins og dótið á uppsláttartöflunum í glæpaseríunum. (Afsakið hlé: ring, ring, sími hringir).

Næturnar í vikunni hafa verið draugalegar, eins og haustnætur, fuglinn sem vaknar fyrstur blæs á draugaganginn. Söngur blómanna í rauða vasanum á borðinu er orðinn rámur. Ofan í græna hattinum við hliðina á vasanum liggja krumpaðir seðlar. Ég dreg einn af handahófi, slétti úr miðanum, les: „Gáðu að þér, gulur köttur nálgast hornið.“ Mhm, ætli sálfræðingurinn meini köttinn í sögunni sem ég er að semja. Dreg næsta af handahófi: „Ekki horfa í augun á heimsendinum.“ Hlustar sáli á samtöl okkar vinkvennanna um fyrirsjáanleg endalok heimsins? Og næsta: „Lampahöfuðið lýsir grimmdinni, drögum fyrir speglana á meðan.“ Vitnar hann í ljóð eftir unga manninn sem ég las á netinu í dag? Jæja, ekki skil ég orðsendingarnar frá borgarsálfræðingnum, krumpaði þær saman og henti ofan í hattinn, hatturinn fyllist, kannski best að hvolfa úr honum ofan í tunnu. Jahérna hér. Hefur manneskjan enn ekki haft samband?

Í matinn í kvöld er leggur (ekki skel) með sveitagrænmeti og spænsku salati – til að skjóta gleðinni hærra en hæstu tindum Esjunnar og tvístra stjörnukortunum. Í dag hef ég hugsað um flissið í kunningjum þínum, reyndi að heyra hljóðið, elska orðið: flisssssss. Keypti mér litla innkaupatösku. „Affarasælast er að kaupa ekki inn of mikið í einu,“ skrifar Boggi sálfræðingur á einum miðanum.

JAHÁ: Teiknumst á! Bréfabyltingin er hafin! Allir að skrifast á! Hlakka til að lesa næstu bréfavini. Þau Magga og Halli tóku mann í ævintýraleg ferðalög. Tréð þarna á Klambratúni mætti skíra: Skyrputré eða Tré dansarans. Síðarnefnda titilinn mæli ég með að borgarstjórinn velji. Langar þig ekki á sýninguna sem Halli fór á, með Cate Blanchett að leika manífestóin? Áfram bréfabyltingin!

 

Adios kæra byltingarkona,

k

ps

allt í einu haglar inn um eldhúsgluggann um leið og lögreglubílasírenur fara af stað, haglið leikur á tóma blikkdós í gluggakistunni, kisubakkann og flísarnar á gólfinu

~

11. mars 2016

 

Sæl, mín kæra!

 

Bréfið þitt kom mér líka í gott skap og mér líst vel á þennan dularfulla hatt. Gott að vita að þú notar nótissubækur og allt í lagi að nota margar í einu. Þegar ég las Jung um daginn þurfti ég að ná nokkrum setningum inn í bókina og svo greip ég til hennar í dag og skrifaði eitthvað um það að listin á að þyrla upp ryki. Mér líkar þessi áskorun að gera mynd en velti því endalaust fyrir mér hvernig mynd. Mig langar að gera eitthvað óvenjulegt, eitthvað sem enginn hefur gert áður. Æ, veit ekki hvort það sé hægt í myndlistinni. Þessi krafa ásækir mig á öllum sviðum, nýjungagirnin, gera tilraunir og mistakast helst, já teikna mynd sem mistekst. Ég komst í tæri við dularfullt alkemískt rit frá 17. öld og þar eru myndir sem eru svo svakalega táknrænar að ég get ekki lýst því. Helst langar mig að taka eina svona mynd, breyta henni, rífa gat, krumpa, endurvinna og gera eitthvað annað úr hráefninu, búa til óvænt hráefni, skeyta saman ólíkum hlutum en samt má ekki ofgera, það þarf að vera líka einfaldleiki og elegans, æ þetta er nú meira rausið. Þessi gerjunartími er samt skemmtilegast hlutinn finnst mér, þegar ég máta hugmyndir, leyfi tilviljunum að skríða yfir þröskuldinn og yfirleitt ef ég staldra við og hugsa hitt og þetta og fer síðan að skapa þá rata pælingarnar oftast inn í verkið, smokra sér inn frá hlið. Þegar ég eldaði mat áðan og vaskaði síðan upp var ég alltaf að hugsa: ,,Nú þarftu að redda mynd. Sæktu bara pappír í prentarann og gerðu eitthvað. Þú verður að gera eitthvað núna strax, þú þarft að skila af þér!” En ég hef ákveðið að bíða örlítið, klára önnur skylduverk og svo á morgun eða hinn geri ég mynd, mitsök og einfalda mynd sem gerir aðrar kröfur en hausinn á mér. Núna langar mig helst að gera mynd sem getur á einhvern hátt spilað tónlist eða borið með sér dularfull skilaboð um spilunarlista. Hugsaði áðan að ég væri ekki vön að hugsa í myndum en efast nú um að það sé rétt, er alltaf að hugsa í myndum, í rými, rýmismyndum og svo er ekki verra af það er taktur og bassi þar líka. Það gerist öðru hverju að ég fær þráhyggjukennt æði fyrir geisladiskum (jú, ég hlusta ennþá á svoleiðis) eða stökum lögum. Undanfarna daga get ég ekki hætt að hlusta á nýja lagið hennar P J Harvey. Ó hún er svo sæt, svo mikill töffari en mjúkur töffari! Bendir á tvískinnung og óréttlæti!

Skil hana hér eftir: [youtube https://www.youtube.com/watch?v=7ReW0jJkag8]

(þegar gamla fólkið dillar sér í myndböndunum hennar þá tryllist ég úr tregagleði)

Æ, til gamans er hér ein af myndunum mögnuðu sem ég var að rausa um, hún er úr ,,Atalanta fugien” (hinn vöðvastælti ólétti karl með fingur sem breytast í himinský, á að sýna móðurlífsöfund karlkynsins, mögulega. Margar fleiri myndir af konum, mjólkandi konum sko, normalísering á sautjándu öld, mögulega):

Atalanta fugien

Adios,

Bjarney

~

12. mars 2016

 

Sæl, mín kæra!

 

Mmm, bestu þakkir fyrir bréfið sem blæs manni löngun til að gera svo margt: gera eitthvað í heimsmálunum (söngur PJ) – vinkonur mínar útskýra að ríkisstjórnirnar í Evrópu hafi engin völd, þær standi ráðþrota frammi fyrir flóttamannastraumnum, valdið sé annars staðar, enginn virðist vita hvar; og leggja mitt að mörkum gegn framgangi fasismans. Ætli allt fólkið sem flykkir sér undir fasískan boðskap þekki sögu fasismans? Bréfið þitt blæs mér líka löngun til að gera fleiri tilraunir og mistakast, teikna tónlist, yrkja myndir, teikna myndir af ófrískum körlum, konum að gefa, himnafingrum. Heyrðu, bækurnar þínar eru nú aldeilis myndrænar, ég er að byrja að lesa Jarðvist, og hún varpast strax á hugartjaldið, eins og bíó.

Það er eitt með tungumálið: það hreyfist, orð sitja ekki kyrr – þau eru með njálg – þó þau standi jafn blýfast, sýnilega blýföst, í prentstöfum úr bleki eða ögnum á ljósum fleti dansa þau. Orð eru á hreyfingu, alltaf, eins og súrefni og vatn, þau eru bara að dansa, eins og fuglarnir, augun og hugarflugið. Í raun eru ljóð ekki kyrralífsmyndir heldur kvikmyndir. Það er þess vegna mikil ögrun finnst mér að skrifa kyrrð án þess að negla orðin niður, yrkja kyrrð á meðan orðin dansa.

Í nótt dreymdi mig hommafánamynstraðar – lgbtq fánalitamynstraðar – sítrónur. Umræða í vikulok: Ætli draummyndin sé undir áhrifum frá umræðum liðinnar viku um inngöngu bdsm í lgbtq samtök? Ég nenni ekki teikna þessar sítrónur.

Já, heyrðu: Það barst krafa frá borgarsálfræðingnum, reikningur fyrir afnotin af örlætislyklinum og afþví ég forsendi þér lykilinn skaltu nota hann í neyð og við mánaðamót.

Já, heyrðu: Mig langar að lýsa fyrir þér stað sem ég las um í landafræðibók á netinu, geri það næst.

Áfram mistök!

Niður með landamæri!

Ég held að það megi ofgera. Las það einhvers staðar.

 

Adios,

k

~

13. mars 2016

 

Sæl, mín kæra

 

Hér sit ég í rúminu og bendi á stafi á skjásíma. Í gær hélt ég fyrirlestur og spennufallið var svo mikið á eftir að ég varð melankólísk (þung lægð í sinni, undirþrýstingur kannski sem þarf að tappa af með dansi) og langaði að gráta en strammaði mig af því börnin mín voru með mér það sem eftir lifði dagsins. Við sonurinn settumst niður með vatnsliti og ég ákvað að nota blómið á kjólnum mínum sem innblástur. Svo klippti ég svolítið í myndina því 90 gráðu hornið truflar mig alltaf. Mér líður eins og ég sé í einfeldni minni að afhjúpa amatörisma (ísl: viðvaningsskap) því ég kann ekki tæknina en leyfi þessu bara samt að sjást. Þarf að fara að flétta tvær fastar fléttur, ó það er best í heimi að fá að greiða öðrum um hárið og flétta. Veistu ég er einmitt að lesa líka nýjustu bókina þína og finnst það svo gaman, ef þetta er ekki eitthvað til að flissa yfir þá veit ég ekki hvað 🙂

Vonandi verður þessi sunnudagur þér ljúfur. Ég nenni ekki að mála þessar sítrónur sagðir þú í bréfinu þínu og ég elska þessa setningu, ég smjatta á henni.

 

Bæjó,

Bjarney

2016-03-12 16.42.50

~

13. mars 2016

 

Sæl, mín kæra,

 

Þú hefðir átt að segja mér af fyrirlestrinum – ég vissi ekki af honum – fór einmitt í gær á Hugvísindaþingið og hlustaði á þrjá mjög fína fyrirlestra. Yfirgaf svo loftlausa troðfulla stofuna og fór niður í bæ, á Núllið, að sjá gjörning. Þangað hafði ég aðeins farið þegar ég var lítil með ömmu minni, hún fór alltaf á Núllið. Svo ég er alveg endurnærð eftir gærdaginn en hefði mest viljað líka hlusta á fyrirlesturinn þinn því þá væri ég endurnærð-ari og eitthvað sem ég veit ekki hvað. Þetta er fallegasta mynd í heimi! Heyrumst fljótt! Gleðilegan sunnudag! Áfram fléttur!

 

Bæjó

ps

mér er líka illa við 90 gráðu hornin

~

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email