RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

„Rændu mér, segir einhver við einhvern á vorregndegi“

19. apríl 2016

Kæri pennavinur,

Vorrigningar í stórum borgum búa til dularfulla stemmingu hjá manni, hjá börnum og köttum, öllum, og páfagaukum eins og mér. Ofan á flauelsmjúkum blöðum blómanna í marglita fötunum í hillurekkunum hjá blómasalanum skríða regndropar eins og ormar og kuðunga sig í snúð, renna niður eftir dollunum, niður á stétt. Af plastskerminum fyrir ofan drýpur. Meðfram kantsteininum buna lækir. Bílar aka hjá, hjólbarðarnir svissa í pollunum og vatnið hendist á pils, skó, skálmar – fólks sem bíður eftir að komast yfir götuna. Öllum sem eru ungir finnst heimurinn nýr. Öllum sem eru gamlir fá staðfestingu á því að heimurinn verður alltaf nýr og einnig þeir sjálfir, að ártal breytir ekki öllu. Fólk fer á leyndarfundi – við sjálft sig – við aðra – við regnið, eitthvað. Ef hættir að rigna í stundarbil þornar regnið hraðar en í síðasta mánuði. Vá, hvað allt þornar hratt. Og aftur krumpa skýin slæðuna, niður steypist meira steypiregn. Í dag er svoleiðis dagur.

Grænir mjóstönglar stungu sér upp úr snjónum sem lá yfir túnunum í morgun, snjóklumparnir runnu létt, þungt, skriðhægt, niður bílrúðurnar. Síðustu snjóboltarnir fóru í loftið. Það trítlar í dropum utan um þakrennur. Fólk fer á dularstefnumót við gamla tilfinningu. Fólk fer á dularstefnumót við nýja tilfinningu. Tilfinningin holdgerist og metamorfósast í fuglinn sem flýgur framhjá svefnherbergisglugganum. Einhver hugsar um allar kökurnar sem hafa verið bakaðar á Íslandi frá upphafi bakaraiðnaðarins. Einhver hugsar um framtíð dagblaðaútgáfu. Einhver hugsar um þrjátíu manneskjur sem eiga aðalfjölmiðlana í Bandaríkjunum, hann ímyndar sér hvernig sé að vera fluga á vegg á fundinum. Einhver hugsar um glóbalíséringu bókmenntaiðnaðarins og um geografíska innlimun heimsins í eitt sameiginlegt kerfi og einn markað sem þrjátíu og eitthvað margar manneskjur eiga að geta (hæglega) stjórnað. Einhver hugsar um tjáningarfrelsið. Er auðvelt að stjórna þrjúhundruðþúsund milljón manns? Einhver hugsar um hvað fólk er lélegt að reikna út verðmætið (verðgildið) sem verður til í einu frekar stóru og fámennu landi, og um reiknideifðina sem olli því að fólk tók ekki eftir því þegar verðmætið, af vinnu þess og brunnum landsins og miðanna, hvarf og hefur horfið árum saman – í sendibílaförmum – af landi brott og inn á persónulega (einka) bankareikninga á dulareyjum. Vörubretti hlaðin peningaseðlum, vörubretti hlaðin peningaseðlum, næstum því gulli, ferjuð í gáma, gámarnir ferjaðir í skip, skipin sigla af landi brott. Vörubretti hlaðin lánabréfum standa eftir á bryggjunni, staflarnir hækka hraðar en fjall.  

Kæri pennavinur, hvernig reiknar maðurinn út verðmæti sitt, (verðgildi), hvernig reiknar maðurinn út verðmæti sitt, (verðgildi), hvernig reiknar maðurinn út verðmæti sitt (verðgildi) þegar svo margt margt margt margt margt skemmtilegt er við að hafast á stað sem heitir: Líf? Þegar svo margt er að gera og vinna og strita til að geta átt sæmilegt og skemmtilegt (manni sæmandi?) líf.

Hér sendi ég þér mynd af túlipönum sem kunna ekki að reikna út verðmæti sitt (verðgildi), ég keypti þá á útsölu, hundrað krónur stykkið:

FullSizeRender (11)

Bíð spennt eftir næsta bréfi, allra best, tsjaó, k

ps

rændu mér, segir einhver við einhvern á vorregndegi

treystu mér fyrir öllu sem þú áttir, segir einhver við einhvern á vorregndegi

~

20. apríl 2016

Kæra Kristín í vorrigningunni,

Í texta Kómeníusar frá um 1623, Völundarhús heimsins og aldingarður hjartans, er sögumaðurinn ferðalangur í ókunnri borg. Hann fær til sín tvo leiðsögumenn, annar er fulltrúi þekkingarþorsta og forvitni á meðan hinn er fulltrúi blekkingarinnar. Ferðalangurinn fer um ýmsa ranghala og stræti en nær víst aldrei að sjá borgina eins og hún er í raun og veru því hann sér hana í gegnum gler. Svo kom Georges Perec fram mörg hundruð árum seinna með söguna, Lífið notkunarreglur, þar sem við kynnumst blokk í París og íbúum hússins í hundrað ár. Sú saga er eins og púsluspil, hver íbúð fær einn kafla og þannig er farið á milli í tíma og rúmi. Ég fékk að vita af bók Perecs þegar ég var sjálf byrjuð að byggja texta á svipuðum slóðum og vissi þá ekki af þessari djásn. Hvoruga söguna hef ég lesið til enda, en hef lagt af stað inn í þær og heillast gjörsamlega af byggingarvinnunni og rýmisskynjuninni. Báðar bækurnar vinna með rýmið, draga línu í sögusandinn og þræða sig eftir hinu aðgreinda rými, skapa sér ramma og vinna innan hans, skerða rýmisfrelsið til að hleypa öllu lausu innan þess, setja sér reglur á einum stað en engar á öðrum. Bréfið þitt hefur þau áhrif að nú læt ég rigna í þessum borgum.

Það rignir enn í vorborginni og nú læturinn vindurinn í sér heyra. Hér um slóðir eltir vindurinn gjarnan rigninguna og ég held það sé af því vindurinn elskar regnhlífar, vill leika með þær. Núna er úrhelli.

22. apríl 2016

Sæl aftur Kristín,

Ég kláraði aldrei almennilega bréfið fyrir tveimur dögum. Það kom yfir mig óvænt fýla og viðkvæmni með tilheyrandi hugarangri. Yfirleitt er jafnaðargeðið yfir mér og mér þótti þetta svo óvenjulegt að ég las aftur stjörnuspár mánaðarins en sá engar viðvaranir tengdar þessum dögum. Reyndar er plánetan Mars í óvenjulegri stöðu núna og helst langar mig að kenna henni um þetta allt. Það hefði verið gott að fá hormónamælingu (hvenær fáum við hormónamæla eins og hitamæla?) til að athuga hvort þetta væru þeir að dansa nýjan dans. Veistu ég held það sé bara allt í lagi að fara öðru hverju í fýlu, skreppa saman til að geta opnast aftur seinna. Dýraríkið er fullt af svona viðkvæmum dýrum sem skreppa saman inn í skel og koma svo út aftur, hjartalokur eru stöðugt að lokast og opnast, lokast og opnast.

Allt í einu finnst mér svo yndislegt að vera inni í þessum bréfaheimi, að vera alltaf annað hvort að skrifa bréf eða á leiðinni að skrifa bréf eða að fá bréf eða á leiðinni að fá bréf. Þetta er eins og að stinga sér í nýjan sjó, læra ný sundtök (sambland af marvaða og flugsundi sem kallast flugmarvaði eða marvaðaflug) og ýmist synda eða berast með straumnum. Fyrir nokkru las ég bréf Rilkes til ungs höfundar og þar sjáum við bara annan hluta bréfanna. Lesandinn fær að gægjast ofan í eitthvað sem var skrifað fyrir ákveðinn viðtakanda en hin röddin heyrist ekki, hún bergmálar dauft í gegnum skrifin. Datt í hug hvort við ættum að gefa bréfin út á bók þannig að ég mundi gefa út bréfin þín í einni bók og þú bréfin mín í annarri og þá gæti fólk lesið þau í sitt hvoru lagi eða saman, allt eftir behag. Þetta er hugmynd, annars þurfa ekki öll orð að kyssa prentvélar, þau geta svo mörg fengið að fljúga á öðru formi. Hafa orðin nokkuð verið spurð um það hvort þau vilji yfir höfuð festast á pappír, kyssa prentvélar og verða pappírshúðflúr? Það er líka frelsi í því að skrifa svona hráan texta og birta strax því yfirleitt skrifa ég hráan texta og þarf síðan að liggja yfir honum í að meðaltali tvö ár og snyrta og snurfusa og lagfæra og hefla – svo loksins þegar bókin er komin út líður mér eins og ég sé að sýna uppskeru sem ég er löngu búin að taka upp og éta upp til agna. Bæði ferlin eru dásamlegt, þetta hráa og súrsaða/eldaða. Sum orð vilja komast í pækil á meðan önnur vilja vera svona sushiréttur eða bláber beint af lyngi. Ég ætlaði að skrifa meira um rigninguna en núna er hætt að rigna og sólin skín öðru hverju. Læt rigna í öðru bréfi síðar. Í dagbók frá því ég var fjórtán ára má finna kostulega veðurlýsingu sem ég dembi hér fram sem lýsingu á deginum í dag: ,,Í allan dag var veðrið annað hvort gott eða ágætt.” Eigðu dag sem er annað hvort góður eða ágætur, í allan dag.

Ciao,

Bjarney

Ps. Engin draumdýr láta sjá sig um þessar mundir og afsakaðu margfaldlega hvað ég er löt að munda teiknipenna og pensla.

~

Á degi bókarinnar og daginn eftir, 2016

Kæri pennavinur,

Til hamingju með dag bókarinnar! Hvernig hélst þú upp á daginn þann?

Áður en ég fór út – í daginn –  kláraði ég að lesa eina bók, gat ekki tekið ákvarðanir um neitt fyrr en bókinni var lokið. Þá keypti ég tvær ljóðabækur, eina nýja, eina gamla í nýrri útgáfu en búið var að ritskoða verkið, þar sem áður stóðu dónaleg eða ekki dónaleg orð beið tóm, langt bil á eftir þremur punktum…           Seinna dagsins langaði mig til að breytast í rithöfund frá fyrri tíð, reyna við að persónast í hann. Það á ég eftir að reyna, þegar löngunin snart mig var bókahátíðisdeginum að ljúka, deginum lauk með kvikmynd án endis.    Því miður hef ég ekki við höndina bækurnar sem þú nefnir, Völundarhús heimsins og aldingarður hjartans, og Lífið notkunarreglur, þær langar mig að lesa, setja mig í spor rýmistilfinningarinnar og læra um rýmisfrelsi, kannski kennir þú mér um það síðar.  Eftir dýralýsingarnar í bréfinu þínu vaknaði ég eftir næsta nætursvefn og fannst að framhliðin væri hárlaus og afturhliðin þakin þykkum feldi, það var góð tilfinning, ég skreið á fætur. Og framan af bókardeginum hagaði ég mér svo eins og skjaldbaka, hausinn hvarf inn í hús sitt, í húsinu voru bækur, skjaldbökur eru innistelpur, alltaf heima að lesa. Nú er hafin sú tíð að innistelpur fá ekki að vera innistelpur nema rigni. Óska ég innistelpunum gleðilegs rigningasumars og legg á að rigni verði það úði svo útistelpurnar haldi áfram að leika sér úti og hinar skjótist með himna- og mannaleyfum inn.   Mig hefur heldur engin dýr dreymt, ég sakna drauma, sef of stutt í þessari lotu fyrir drauma, hef ekki lengra svefnþol en fimm tíma, andinn, ef til er andi, lengist í (ó) beinu sambandi við lengingu vordaganna, án þess mig langi til að snerta himininn, það fær maður ekki endurtekið, eins og þegar maður var barn í rólu og fékk að snerta himininn, tærnar náðu þangað. Enn tölum við um tær. Enn tölum við um tær. Enn tölum við um tær. Tölum um tær. Iljarnar grænka með hverjum degi, grænka og grænka – græn táfýla? Hm…        Hverja hugmynd sem þú færð um útgáfur á bréfaskiptum okkar samþykki ég án umhugsunar: þú hefur mitt leyfi staðfest hér, kæra skippersdóttir.  

Ath.: Ég dái fýlur. Tel þær merki um djúpa persónugerð. Stundum er þó morgunfýla of fúl að mínu mati fyrir áhorfandann en það er gaman fyrir þann sem vaknar í fýlunni: það er svo gaman í fýlu að oft tímir maður ekki að yfirgefa þann ham. Áfram fýla. Fýla er sælgæti.

Best klæddu herramenn miðbæjarins í viku 16 árið 16 eru tveir félagar sem sátu á svölum húss sem áður hýsti banka við Bankastrætið – fyrir mína tíð unnu í Bankastrætinu gæjar sem felldu hug til hvers annars og voru sí og æ að hringjast á milli bankanna, þeir voru einhvers konar Ginsbergar sinnar tíðar, það var kallað: að vera á línunni – (í morgun ferðaðist hugur minn til bítnikk, fiftís, njújork, útvarpsstöðvarinnar Kanans, til aðdáunar föður míns á tónlistarmanninum Tom Lehrer) …     –     úff, afsakið,     …     hér neyðist ég til að setja punkt og gefa hugsanlegum lesanda andhlé ef mér á að takast að stöðva þennan útúrdúr sem kemur málinu ekkert við, afsakið, og halda áfram með tískubloggið á vef RSÍ.

(Staður fyrir öndunaræfingar hér áður en lengra er haldið, bréfi lýkur senn.)

Kumpánarnir sátu í rólegheitunum á efstu svölum byggingarinnar sem áður hýsti banka, þetta var snemma kvölds föstudags, sólin skein og niðri á jörðinni, á gangstéttunum, strollaði fólk, í hópum, í pörum, hávaxin kona í löngum leðurstígvélum og börberísfrakka, lafið sveiflaðist á eftir henni, reiddi fallega fallegt reiðhjól upp eftir, bein í baki, með rauðan makka, mætti hjónum í litbjörtum vatteruðum jökkum, nákvæmlega mættust þau hjá grænu og gulu skilti sem stóð á götuhorni og auglýsti opnunartíma. Þarna sem ég horfði af svölunum og niður á götuna langa hríð sýndist mér karlar á öllum aldri, drengir og piltar, ekki enn hafa skilið dökklita úlpurnar við sig, allir voru þó búnir að taka niður hetturnar, fáir gengu með húfu. En það er ekki enn hægt að treysta hitastiginu, allur er varinn góður. Kvöldið var guðdómlegt. Mamma mín og systir hennar hefðu notað þetta lýsingarorð, aðallega þó móðursystir mín, mamma hafði ekki skoðun á kvöldstemmingu nema innihéldi hún kröftugar samræður, hvort sem voru í spuna eða tilbúnar, t.d. á leiksviði. Þeir, hinir best klæddu herramenn viku 16, árs 16, sátu við mjótt appelsínugult borð á mjóum appelsínugulum stólum og ræddu ljóð. Báðir hárprúðir með eindæmum. Svart riddarahár annars herramannsins féll í lokkum niður herðarnar. Kastaníubrúnt riddarahár hins herramannsins féll í lokkum niður eftir bakinu. Sá svarthærði klæddist í rauða riddarapeysu sem mamma hans prjónaði, hann valdi uppskriftina úr prjónablaði, og dökkbláum buxum. Svartir vel pússaðir herraskór. Sá kastaníuhærði klæddist í mjólkurkaffibrúnan frakka, í bleika skyrtu, vínrauðar buxum, um hálsinn bar hann fjólubláar slæður og talnaband. Svartir nítjándualdaskór. Fingur hans skreyttu hnullungshringar, og neglurnar iðnaðarsilfurgrænt naglalakk, úlnliðinn stórt armbandsúr með dökkri skífu. Hann bar sólgleraugu með bleiku gleri í. Taskan sem lá við fætur hans var dæmigerð stór, bleik, ljósblá, græn, blómamynstruð tuðra sem fólk notar gjarna þegar það fer með tauj í þvottahús í stórborgum. Tuðran var full af tækjum því hann er rappari og rithöfundur og var að koma af tónleikum. Sá svarthærði er líka skáld. Sjá myndir.

Gangi þér vel með ritstörf þín á komandi dögum og vikum.

Ciao,

k

FullSizeRender (14)
FullSizeRender (13)

~

26. apríl 2016

Kæra Kristín tískusjáandi,

Takk fyrir bréfið þitt og þessar undurfögru myndir. Ég þekki báða mennina og þeir eru af tegund sem fer sínar eigin leiðir eins og kettir. Eru bæði óþekkir og ljúfir. Algjör yndi! Stundum er hægt að skipta mannkyninu í hunda og ketti en ekki alltaf, sumir eru skjaldbökur eða refir. Það er mjög áhugavert að skoða manngerðir og hvað við getum verið ólík, hvernig við berum okkur, hvernir herðar fara ýmist aftur á bak eða fram, hvernig augu leita upp eða niður, hvernig við felum okkur og sýnum, opnumst og lokumst, eigum ólíkar litlutær. Gaman væri að búa til ljósmyndaseríu af litlutám á alls konar fólki. Um daginn lakkaði ég táneglurnar (eitthvað sem ég reyni að temja mér) og tók þá eftir þessari litlu sem er svo lítil og skökk og sæt og hallar sér upp að næstu tá. Hún var þögul en virtist vilja segja eitthvað. Kannski finn ég bara myndina og set hana hér með. Litlu tær eiga skilið meiri athygli almennt í lífinu og almennt í þjóðfélaginu. Við ættum að sýna þær meira og skoða á öðrum. Til dæmis ætti að vera föst rútína þegar maður mætir í bankann til að biðja um lán að fá að sýna litlu tásu og skoða tásu gjaldkerans. Svo er orðið ,,tása” óttalegt krútt.

Á degi bókarinnar tók ég nokkrar bækur í fangið og faðmaði þær, káfaði á hvítum síðum, er alltaf að þukla síður og gleypa í mig táknin. Á þeim degi reyndi ég líka að vera gáfuleg og benti á það á fésbókinni hve ungt fyrirbæri bókin er í raun og veru. Held ég hafi líka þuklað stílabókina en auðvitað er þetta líka dagur tómra stílabóka sem bíða eftir pári. Ég sem sagt páraði í stílabók og drakk líka kaffi og já ég bakaði pizzu frá grunni og nýtti afganga. Þetta reyndist nýtingardagur því ég komst í hagsýna gírinn og bjó til gúmmelaði úr hráefni sem átti stutt eftir. Fann fíflablöð við bílastæðið og sá að þeir fara bráðum að opnast fíflarnir gulu. Var búin að skipuleggja fuglaskoðun með börnunum en hætti við þegar ég sá rigninguna og vindinn. Við fórum samt í bæinn með regnhlífar, skoðuðum barna-menningu og vísiteruðum kaffihús á Lækjartorgi. Börnin spurðu um Stjórnarráðshúsið og ég komst í kennslukonugírinn, gúgglaði og hélt stuttan fyrirlestur um fangelsið, bæjarlækinn og Hannes Hafstein en sleppti kónginum því hann sást ekki frá glugganum. Fræddi þau um að styttur eru yfirleitt af körlum og reistar af körlum. Fórum á mótmæli og sonurinn klifraði á Jóni Sigurðssyni, hann kærir sig ekki um mótmæli en elskar að klifra. Um kvöldið poppaði ég og horfði á mynd um skemmtilega spæjarastelpu. Í gluggakistunni voru um það bil sjö bækur sem bíða eftir augum mínum, á píanóinu þrjár en engin á stofuborðinu. Það er ómeðvitað stigveldi í bókaröðunni, ég sé það núna. Ef bók kemst úr gluggakistu og af píanói yfir á stofuborðið þýðir það að hún er næst í röðinni, þá er orðið brýnt að hún laugist augum. Bókadagurinn var sem sagt barnadagur, þau eru opin bók sem ég reyni að lesa og skilja. En oft nenni ég ekki að lesa, misles, víxl-les og ýmist oftúlka eða vantúlka. Þau sýna því þolinmæði en ekki alltaf. Hin breiska skekkja er innifalin í dögunum, bókadögum, barnadögum, pizzadögum, spæjarastelpudögum og styttudögum. Núna langar mig í pizzu. Og að spæjast. Langaði þig aldrei að vera spæjarastelpa þegar þú varst lítil? Ég þráði það mjög heitt og reyndi mikið að þefa uppi leyndardóma og dularfull fyrirbæri. Stundum hvarflar að mér að þegar maður er um tíu ára er lagður grunnur sem breytist lítið, allt lífið þar á eftir séu tilbrigði við sama stefið.

Núna bíða mín þrjár bækur um sögu dulspekinnar og hugmyndaheimur sautjándu aldar reynir að lokka mig til sín. Þú mátt krýna mig heimsmeistara klisjunnar en ég segi og skrifa og stend með því fram í rauðann þú veist: Hamingjan lúrir í þakklætinu!

Takkkveðjur,

Bjarney

Pst. Skipperinn boðar hér með bréfapásu fram í júní því ég þarf að ferðast fjögur hundruð ár aftur í tímann og ætla rétt að vona að ég komi þaðan löskuð, andagift og skrítin. Hlakka til að taka aftur upp þráðinn, tilhlökkunin verður sumarvarða á heiðinni.

Pssst. Taktu eftir því hvernig tánöglin á litlu tásu horfir í aðra átt en hinar. Hún hallar sér værðarlega að næstu og sér miklu meira en hinar sem horfa bara upp. Hvert horfir þín? Svar óskast í sumar 🙂

2016-01-15 22.34.23

~

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email