Search
Close this search box.

RSI2015-Hofundurinn-pistlar

Kristín Ómarsdóttir og Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifast á:

Iljar í sokkamyrkri og tréklossum

9.4.2016

Kæra Kristín

Nú stofna ég spjallþráð númer níu á níunda degi aprílmánaðar. Úthaldið og seiglan eru svo mikilvæg en allt í einu fór ég að beina sjónum að því að fáir lesa bréfin okkar. Og þá fór ég að fá þær gloríur að þetta væri nú bara til einskis, að við værum að taka pláss sem okkur bæri ekki, að við værum að kvaka út í tómið. En svo komst ég hringinn og vil halda áfram. Höfundar mega ekki láta það hvort einhver les eða ekki stjórna skrifum sínum. Hvatinn þarf að koma innan frá. Það er líka eðlilegt að orkan sveiflist upp og niður og þá skrifa ég stundum í andleysi og svo á öðrum tímum í andagift. Æ, veistu ég elska þetta orð ,,andagift” – hef ekki kíkt í orðsifjabókina en er með þá prívat kenningu að þarna sé orðið ,,gift” úr dönsku sem merkir eitur, eitur andans eða eitur fyrir andann. Andagiftin ber með sér bæði líf og tortímingu, andinn tekur inn eitthvað sem stækkar hann og þá getur hann sprungið ef skammturinn er of stór. Þess vegna þurfa andstæð element að verka á okkur stöðugt, til að dempa skammtana sem sækja að, innblástur og útblástur og fráblástur og sandblástur og plástur.

Ég er að undirbúa mig andlega fyrir mótmælin stóru sem verða á eftir. Nú laust niður spurningu: Þegar við höfum leggings buxur með munstri af hverju er yfirleitt sama munstrið á vinstri og hægri fæti? Af hverju eru ermar almennt eins á báðum höndum? Hver ákvað að symmetrían væri æskileg á milli hægri og vinstri? Þessi spurning sótti á mig allt í einu og ég leyfði henni að birtast hér. Þetta bréf verður stutt en í kvöld ætla ég að athuga hvort ég geti samið lag á gítarinn minn, sjáum til hvað kemur út úr því.

Eigðu góðan dag í aprílsólinni!

Kveðjur,

Bjarney

~

Tíundi apríl, 2016

 

Kæra Bjarney,

Bestu þakkir fyrir orðskýringuna fyrir andagift og bréfið sem kveikir strax á hugrenningum um symmetríuna. Þegar ég var lítil notuðum við frænka mín sömu skóstærð, og skiptum á tréklossunum, sem voru heilir, og þungir, afþvi botninn var gegnheill viður, eins og hællinn á páskaeggjunum þá, en ekki holur, eins og hællinn á páskaeggjunum núna. Við fórum í strætó, og allra okkar ferða, í einum bláum klossa og einum rauðum. (Í strætisvagninum töluðum við rússnesku). Hún átti bláu klossana, ég þá rauðu, ég öfundaði hana af þeim bláu, mamma mín var óð í rautt. Heilir klossar, þ.e.: hællinn er lokaður, en ekki opinn, svona yfirbyggður hæll. Úff, hvað er gaman að vera krakki og leika sér í klossum, skutla þeim af sér í loftköstum og stinga sér í þá á hlaupum. En mér hefur það verið sagt að það sé eitthvað truflandi fyrir jafnvægisskynið gangi maður um í einum bláum skóm og öðrum rauðum, augað verði að sjá sama lit á tánum. Þess vegna er fín aðferð fyrir einhvern sem leikur fífl að ganga í sitthvorum lit, til að trufla lítillega jafnvægisskynið, afbaka sponteinúslí göngulagið. Líklega er þetta lítið mál ef maðurinn er litblindur. Jafnvægisskynið starfar eðlilega þó önnur erminn sé gul og hin græn. Þegar maður er barn ber maður vængi ósýnilega, mætir vængjaður þyngdaraflinu – ekkert mál að ganga um í einum rauðum og öðrum bláum.

Sólin stímdi hingað inn snemma í morgun, allt er sunnudagsmorgunhljótt, mig langar ekki út og hækka í hljóðinu umleið og ég loka útidyrahurðinni, hreyfi hliðið. Færi ég núna út myndi ég læðast. Best að læðast út.

þín k

~

12. apríl 2016

Kæra Kristín sem læðist út í daginn,

Takk fyrir bréfið þitt og orðin um ósýnilega vængi barnsins. Ég á einmitt svona minningu um að hlaupa og skottast um án þyngdarafls og án þindar og þreytu. Hins vegar fékk ég ekki að eiga klossa því móðir mín hafði áhyggjur af því að þá myndi ég fótbrjóta mig. Ég var nefnilega svo skelfilega innskeif þegar ég var barn og alltaf að misstíga mig. Hins vegar elskaði ég að kasta af mér skónum og hlaupa um berfætt. Held ég hafi verið um átta ára þegar ég tók tímabil í ferðalagi á Laugarvatni þar sem ég gekk um allt sokkalaus og fór meira að segja berfætt í fjallgöngu og þótti það mikið ævintýri og afrek. Eflaust verka á mann frumstæð öfl þegar iljarnar fá að snerta moldina. Iljar okkar eru alltaf innilokaðar í sokkamyrkri og kannski þrá þær mjög heitt að fá að snerta mold, sand, gras og steina. Sjá ljósið. Greyið iljarnar eiga sér fáa málsvara, hvergi er starfandi umboðsmaður ilja. Samt segir fólk að þarna búi allar okkar tilfinningar og að allar taugarnar safnist þar saman í öfluga punkta.

Mér þótti lokaorðin þín í bréfinu svo fögur og gott hjá þér að læðast út. Suma morgna er birtan svo brothætt að maður getur ekki annað en læðst út í daginn. Keyrir þú bíl? Stundum keyri ég einn lítinn rauðan út og suður í ýmsum erindum og ég elska þetta rými. Maður situr kyrr, líður í gegnum heiminn, líður áfram og hlustar á niðinn eða tónlistina eða útvarpið, maður kemur og fer, er stöðugt að koma og fara og líður áfram. Í rauninni líðum við í gegnum lífið (læðumst reyndar stundum) og bílferðir gera það svo áþreyfanlegt. Hvort finnst þér betra að vera bílstjóri eða farþegi?

Núna er þriðjudagur og sólin skín meira en ég átti von á. Blessuð sólin, elsku besta sólin góða. Í gær kláraði ég nótissubókina mína og lokasetningin var: ,,Ég er í heiminum og heimurinn er í mér.” Og í morgun tók ég formlega í notkun nýja bók sem ég keypti við ströndina í Brighton fyrir bráðum ári síðan. Ég laumaðist til að skrifa örlítið í hana síðasta sumar og leyfi þeim orðum að birtast hér. ,,Tungumálið er hús sem ég brýst inn í. Mölva glugga í skjóli nætur og treð mér inn. Hrufla mig á hnjánum og fær glerbrot í hárið sem bíða síns stungutíma. Þreifa mig áfram í myrkri og hvert hljóð, einkum þetta hljóð, skynja ég í fyrsta skipti, öll hljóð eru frumhljóð, möguleiki á öskri, stungu.” Sama dag (greinilega dagur andagiftar) skrifaði ég áfram: ,,Sál mín er hvítt tómt herbergi, einn gluggi og gras fyrir utan. Í herberginu eru veggirnir auðir, hvítir og skerandi síkvikt öskur.” Ég held maður þurfi að öskra meira, svona almennt í lífinu. Setja til dæmis öskur á dagskrá á þriðjudögum. Sólríkir þriðjudagar eru kjörnir fyrir öskur og berskjöldun iljanna. Þá er til dæmis hægt að ganga berfætt út að sjónum og öskra á hann en syngja líka inn á milli, syngja og öskra og öskra og syngja. Það er merkilegt að hugsa til þess að slík hegðun gæti vakið grunsemdir um geðveilu. Merkilegt að sjá hvernig eðlilegar og eðlislægar langanir og athafnir eru dæmdar óæskilegar af samfélaginu, ég fæ hroll við tilhugsunina.

Í gær fór ég í Þjóðleikhúsið að sjá nýjan forsetaframbjóðanda og kættist strax þegar ég nálgaðist húsið því aldrei áður hef ég séð jafn mörg reiðhjól faðma Þjóðleikhúsið. Mig langar að spyrja forsetaframbjóðendur hvort þau setji iljarnar á oddinn á sinni stefnuskrá. Og öskrið. Og sönginn.

Eigðu góðan þriðjudag í sólargeislahafi.

Ciao,

Bjarney

Ps. af laginu er það að frétta að hljómagangurinn er kominn: d moll, a moll og E dúr og svo er lokahljómur sem ég finn ekki á hljóðfærinu og upp úr þessu kom einhver voðalega einföld laglína. Tungumálið er að reyna að brjóta sér leið inn í lagið en helst langar mig að úthýsa því. Tungumálið má stundum aðeins slaka á og hlusta. Eins og þú sérð er einhver mótþrói í mér en laglínan er of einföld eins og er, held ég reyni að bæta við hana krúsídúllum og slaufum. Síðan er spurning hvort laglínan fái rödd eða annað hljóðfæri. Og svo er enn stærri spurning hvort þurfi ekki að bæta við það berfættu öskri og þá hvort það verði háls á manneskju eða strengjahljóðfæri sem öskrar? Nei veistu, það er meira hvíslulag en öskur, já hljóðfærið þarf að hvísla, hálsinn á hljóðfræinu (taktu eftir skemmtilegu innsláttarvíxlun í orðinu).

Pppppsss. Dreymdi í nótt að ég væri með eina litla lús í hárinu. Nýtt draumdýr.

 

~

14. apríl 2016

ég held að afi minn

hefði átt afmæli í dag

 

Kæra Bjarney hljóðfræarleikarinn og smiðurinn besti,

Ég öskraði á þriðjudaginn var, ekki reiðiöskur, var að reyna að ná sambandi við veru og veran sú svaraði með hvísli. Þriðjudagsöskur: ex. Iljarnar taka ágætan þátt í sólarhringnum undanfarið, ég fer oft á dag úr lopasokkunum. Exposition of iljar: ex. Iljarnar mínar hafa grænkað. Nýlega byrjaði mér að þykja betra að vera farþegi en bílstjóri, en samt þykir mér líka betra að vera bílstjóri, ég á ekki bíl, flest geng ég, tek svo leigubíl og strætó lengri leiðirnar, svo gefa systur mínar og vinkonur mér far og lána mér líka bílana sína. Á eftir fer ég í bíltúr – í góða veðrinu – aðeins út fyrir bæinn, í góða verðinu. $$$$$. Ragna Sigurðardóttir er að gefa út bókina Vinkonur sem ég hlakka til að lesa. Uppskrift: túnfiskur, rauður og grænn chili, fiskisósa, læm, engifer, salthnetur. Ex við eitthvað. Maturinn í dag var svo góður, svo góður, svo góður, svo góður. Og ég elska það sem þú skrifaðir í nýju bókina í Brighton í fyrra, orðin þín bergmála í huganum: „Tungumálið er hús sem ég brýst inn í.“ Og: „Sál mín er hvítt tómt herbergi, einn gluggi og gras fyrir utan.“

Sko, sjáðu til, ég von á því að hlusta á hljóðfræ þín leika berfætt öskur einhvern tímann í bakviðlandi, úff, hlakka til. Bakviðland, bakviðland, bakviðland. Sérðu ljósmyndina af forsetanum í bakviðlandi sem birtist hvergi?

Lús læðist inn í draum þegar von er á launum. (Ekki endilega í $).

Í fréttum er það helst að mér hefur tekist ágætlega að brjóta mig niður, samt er eins og sjálfsánægjan verði bara sjálfsánægðari því meir og betur sem niðurbrotið heppnast, hún bara herðist við mótlæti, mögulega yfirgef ég niðurbrotsáætlun. Sjálfsánægjan þráir að sanna sjálfa sig og verja tilveruna, beitir öllum brögðum tiltækum, hef ég uppgötvað, besta ráð mitt hlýtur að vera að gefa henni þetta tækifæri á að berjast fyrir sjálfri sér og þar af leiðandi sigra mig. Þar af leiðir: héðan í frá legg ég niður vopn. Sjálfsánægja leiðir til fobíu. Sjálfsánægja = að ánetjast sjálfri sér, ánetjast hégóma. Sjálfsánægja er áunnin. Sjálfsánægjan er líka fyndin og sæt.

Sálfræðingur borgarinnar kallaði mig á fund en ég má víst ekki opinbera erindið, endursegi e.f., svona til gamans, þegar hann brá á leik til að sanna fyrir mér hvað sálin stjórnar líðan manns, þetta var svona saklausasti útúrdúrinn á fundinum:

Hann (hún, eða ég veit ekkert af hvaða kyni embættismanneskjan er) bað mig um að loka augunum og ímynda mér að tunga mín væri úr lambi. Það gerði ég. Þegar ég væri tilbúin skyldi ég mæla með lambstungunni. Og það gerði ég, með augun lukt, eins og við bænahald, lambstungan hrærðist í munnholinu, helli sínum og talaði sleitulaust. Eftir andartak mátti ég þagna, opna augun, tók á móti spurningablaði sem ég fyllti upp í svarreitina á. Þar mældi sálfræðingurinn tilfinningar og líðan ástandsins, á meðan ég bar lambstungu, og bar mér að svara eftir bestu getu og besta heiðarleika.

Heildarniðurstaðan: vilji ég forðast vanlíðan og ónot á ég að tala eins og lamb.

En sjálfsánægja mín haggast ekki, bara herðist, hlær að þessum tilburðum, þjálfun og æfingum, hlær að hæstvirtum sálfræðingi, hlær að lambstungunni sem hefur í vikunni ort tvö ljóð. Finnst þér þessi sjálfsánægja mín ekki svívirðilega hortugt?

Kæra pennavinkona, ég játa mig sigraða, sjálfsánægjan hefur þrengt að viðkvæmari blómum sem ljóðin mín þráðu að vökva og vaxa líka í blómagarðinum utan um hjartað mitt og sem sjálfsánægjan hefur hertekið, sem er þó ekki þannig illgresi sem maður upprætir. Þetta er ægilega sorglegt eða ægilega mikið dílemma eða hvorugt. Best að fara að yrkja á lambstungu.

Ciao,

k

 

ps

eldaði steinbít í dag – hvernig fisk kaupir þú, ferðu í fiskbúð, eldar þú stundum hlýra?

 

~

16. apríl 2016

Kæra Kristín,

Takk fyrir bréfið þitt fína. Ég hef aldrei ort á lambstungu og líst vel á að prufa það. Ef ég kaupi fisk þá er það yfirleitt frosinn þorskur í Bónus. Fer aldrei í fiskbúð og hef aldrei eldað hlýra. Verandi skipstjóradóttir og sjómannssystir þá hafa fiskarnir synt til mín sjálfkrafa og þá er það yfirleitt fersk og gómsæt ýsa. Reyndar gaf bróðir minn mér túnfisk um daginn, stærðarinnar flykki sem ég kann ekki að elda en ég glugga í uppskriftabækur og reyni að bjarga því fyrir horn. Elda túnfisk með lambstungu. Dóttir mín fæddist á afmælisdegi bróður míns og þau eru bæði í fiskamerkinu og það er eitthvað mjúkt flæði í persónuleika beggja.

Hér teikna ég andlausa mynd af fjalli sem er vonandi fullt af öndum. Afsakaðu skuggana á myndinni en ímyndum okkur bara að þeir séu hluti af blýantspárinu. Ég er svo úrvinda núna að ég held ekki augunum opnum. Dagurinn hefur verið óvenjulegur en ég rúntaði um og talaði í míkrafón og útskýrði fyrir hópi af fólki allt um allt á Íslandi. Þegar ég tek heilan dag í að hoppa í og úr rútu, tala ensku um allt um allt og telja hausa þá verð ég svo þreytt þegar ég kem heim að ég get varla talað. Sé að ég get ekki heldur skrifað því augnlokin síga svo hratt. Ætla að sofa lengi, lengi og sjá hvort ég verði skriffær í fyrramálið. Adios og góða nótt, mín kæra!
2016-04-16 22.48.54

Nú er kominn sautjándi apríl og ég skrifa úthvíld með kaffibolla við höndina. Hópferðin í gær endaði á sýningu á verkum Kjarvals á Kjarvalsstöðum. Þar stóð ég fyrir framan verk eftir hann og hugsaði (vonandi næ ég að orða þessa hugsun því hún er meira tilfinning, órökrétt og loðin): Mikið erum við heppin að Kjarval hugsaði ekki eins og ég og svo margar konur sem ég þekki (hef ekki ennþá orðið vör við þennan þankagang hjá körlum) en hann er þessi: ,,Hver þykist þú eiginlega vera? Hvað ert þú að vilja upp á dekk? Þú hefur enga hæfileika og ef þú hefur þá þá munu þeir hverfa á morgun eða á eftir? Þú ert örugglega að misskilja þetta allt saman, þú skynjar heiminn ekki rétt en heldur að þú skiljir og skynjir.” Ég vona að þessi þankagangur komi aldrei nálægt þér, að sjálfsánægjan bjargi þér frá þessu. Æ, ég varð allt í einu voðalega ánægð yfir því að Kjarval hefur líklegast ekki þurft að glíma við þessa drauga, eflaust hafa þeir verið allt annars eðlis því öll höfum við drauga, mismarga og misstóra og missterka. Verkin á sýningunni hefðu ekki orðið til ef þessi efasemdadraugur hefði ásótt hann. Svo gerði ég aðra tilraun sem misheppnaðist en ég verð að prufa aftur seinna. Það kemur fyrir ef ég hugleiði með opin augun þá sé ég liti sem sveiflast um eins og bylgjur sem koma og fara, stundum er liturinn blár eða hvítur eða gulur. Ég ákvað að stilla mér upp fyrir framan eitt stórt verk og athuga hvort ég sæi svona bylgjur. Það tókst ekki því ég lét fólkið í kringum mig trufla mig. Ein glögg vinkona mín segir að þetta sé áran sem ég sjái en ég veit ekki meira um það og efast um að þetta sé neitt merkilegt, eflaust eitthvað sem við getum öll gert ef við beinum sjónum okkur inn í bakviðlandið, bakviðlandið (takk fyrir það orð).

Ætli sé það geti gerst ef við skrifumst á yfir langan tíma og erum í sitt hvoru lagi að skapa texta að við förum að skrifa um sömu hlutina? Kannski pikkum við hugmyndir og áhrif úr bréfunum og lendum á svipuðum slóðum. Það er engin leið að vita óravíddir dulvitundarinnar og þér er velkomið að taka allt sem ég segi og nýta það beint í skáldskap. Það á enginn hugmyndir, þær eru frjálsar og allir geta notað þær og útfært eftir eigin geðþótta. Um daginn þegar ég hélt fyrirlestur um handrit frá sautjándu öld leið mér á eftir eins og ég hefði verið að gefa frá mér kveikjur og hugmyndir að skjáldskap, efni í bækur. Sú tilfinning er óþægileg og ég reyni að sannfæra mig um að þó að einhver nýti efnið í skáldskap þá vinna engir tveir eins úr sama efni og því meira sem ég gefi frá mér því meira fái ég til baka, trúi í blindni á þá staðhæfingu.

Ég er kannski kannski með lausnina á sjálfsánægju-bólgunni en hún gæti falið sig í zen búddisma. Prufaðu að lesa eitthvað úr þeim fræðum (æ afsakaðu boðháttinn í byrjun setningarinnar) og þá kannski fuðrar þetta allt saman upp.

Læt mig dreyma um skjálausan dag, heilan dag þar sem ég horfi ekki á síma-, tölvu- né sjónvarpsskjá. Þar sem vinna mín og frístundir og áhugamál renna saman og fara fram á skjáum þá horfi ég meira á tölvuskjái en nokkuð annað. Núna er tölvuskjárinn minn byrjaður að brotna og ég heyri hvísl frá snúrum sem eru alveg að slitna: ,,Hættu að glápa á okkur! Líttu annað!” Verður þú aldrei þreytt á skjáglápinu mikla?

Sunnudagar kalla á hástemmda tónlist. Skil hér eftir ekta sunnudagstóna úr Hymnodíu Sacra, gömul íslensk tónlist sem lyftir iljunum örlítið frá jörðinni.

 

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Qd87Bs2lwCs]

 (held að enginn hafi fengið jafn margar ástarjátningar á byggðu bóli og guð almáttugur)

Eigðu góðan dag mín kæra!

 

Ciao,

Bjarney

~

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email