SÓLVEIG PÁLSDÓTTIR – BÆJARLISTAMAÐUR SELTJARNARNESS 2019

BaejarlistmSeltjn_180119_JSX0991.JPGSólveig Pálsdóttir rithöfundur var útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness 2019 við hátíðlega athöfn á bókasafni Seltjarnarness föstudaginn 18. Janúar. Þetta er í 23ja sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur en í fyrsta sinn sem að rithöfundur hlýtur þennan heiður.
Menningarnefnd Seltjarnarness sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Guðrún Jónsdóttir formaður menningarnefndar Sólveigu viðurkenningingarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgir nafnbótinni.

Sólveig hefur búið á Seltjarnarnesi til fjölda ára og ætíð gefið mikið af sér til menningarmála í bæjarfélaginu. Var meðal annars formaður menningarnefndar í 8 ár, á árunum 2002-2010 og kom á þeim tíma mörgum góðum menningartengdum verkefnum á koppinn. Sólveigu hefur ennfremur í gegnum tíðina verið trúað fyrir ýmsum störfum í nefndum og fagráðum er varða listir og menningu innan og utan Seltjarnarness. Það er ekki ofsögum sagt að Sólveig er afar fjölhæf á sviði lista, skapandi greina og miðlunar. Hún er í grunninn menntuð leikkona frá Leiklistarskóla Íslands og starfaði sem slík auk þess að vera dagskrárgerðarmaður hjá RÚV frá 1982-1990. Sólveig leikur enn öðru hverju og lék m.a. í sjónvarpsþáttaröðunum Dagvaktin, Venjulegt fólk sem og Réttur 1 og Réttur 2. 

Á árinu 1996 lauk Sólveig almennri bókmenntafræði og kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað sem íslensku- tjáningar- og leiklistarkennari auk þess sem hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir einstaklinga og stjórnendur sem vilja bæta sig í samskiptum, sjálfstyrkingu, tjáningu og framkomu.
Frá árinu 2013 hefur Sólveig starfað sem rithöfundur. Þegar hafa komið út eftir hana fjórar glæpasögur sem allar hafa hlotið góða dóma og vinnur Sólveig nú að sinni fimmtu bók sem kemur út í haust. Fyrsta skáldsagan hennar, Leikarinn kom út árið 2012, Hinir réttlátu árið 2013, Flekklaus árið 2015 og Refurinn árið 2017. Bækur hennar hafa verið gefnar út erlendis og bíómynd eftir Leikaranum hefur verið í undirbúningi. Að auki vinnur breskt kvikmyndafyrirtæki að fjármögnun sjónvarpsþáttaraðar byggða á bókinni Refurinn. 

Við afhendinguna flutti Sólveig eftir farandi ávarp:

Að að vera valinn bæjarlistamaður gleður mig af öllu hjarta. Fyrir því liggja margar ástæður og ég ætla að telja upp nokkrar:
Af því að fyrir sex -sjö árum snéri ég lífi mínu á hvolf og sagði upp ágætri vinnu til að einbeita mér að því að skrifa bækur. Ég væri að ljúga ef ég segði að það hafi alltaf verið auðvelt.
Af því að mér þykir vænt um bæinn minn en hér hef ég, áður forfallinn Vesturbæingur, búið síðan 1995 og hef hreint ekkert á móti því að bera hér beinin.
Af því að í hópi þeirra 23 listamanna sem borið hafa titilinn síðan að Gunnar Kvaran sellóleikari var valinn fyrstur árið 1996 er enginn rithöfundur.
Af því að menning og listir eru nauðsyn öllum samfélögum eða reynið að ímynda ykkur heim án sagna, án myndlistar, án tónlistar, án hönnunar, án leiklistar og án skáldskapar.
Af því að ég trúi á bókina … í öllum formum, innbundna, í kilju, á lesbretti, í streymisveitum og hljóðbók. Því eitt form þarf ekki að útrýma öðru.
Af því að við þurfum bækur, allskonar bækur, fjölbreyttar bækur! Bækur sem heilla, spenna, trylla, fræða,sefa, græta, vekja hræðslu, hlátur, ótta … því bækur hjálpa okkur við að setja okkur í annarra spor og skilja manneskjuna í öllum sínum margbreytileika. Þær opna nýja heima, þenja tilfinningasvið okkar og skilning á veruleika annarra.
Af því að lestur er gríðarlega mikilvægur, miklu mikilvægri en margir gera sér grein fyrir. Ég fullyrði að lestarkunnátta sé undirstaða lýðræðisins eins og við þekkjum það. Því minna sem við lesum, því minna sem við skiljum af því sem er að gerast í veröldinni því auðveldara er fyrir fyrirsagna- og alhæfingarsmiði að ná tökum á hugsun okkar.
Lesfærni, lesskilningur, lesfimi og fjölbreyttur orðaforði næst aðeins með því að lesa alla ævina. Því að lestur er ekki meðfæddur hæfileiki heldur lært atferli sem þarf að þjálfa og halda við. Til þess að allt þetta gangi upp þarf fjölbreytt úrval bóka sem vekja áhuga á enn meiri lestri.
Af því að sem fyrrum kennari veit ég að hægt er að nota margar spennandi aðferðir til að glæða áhuga nemenda á bókalestri, auka skilning og innlifun þeirra. Ég veit líka að staðlaðar, þurrar staðreyndaspurningar og fráhrindandi lesefni getur gert nemendur fráhverfa bókum.
Af því að mér er annt um íslenskuna og að áfram verði skrifaðar bækur á íslensku, leikrit á íslensku, handrit að sjónvarpsþáttum og kvikmyndum á íslensku. Þeir eru til sem telja daga bókarinnar talda og að tungumálið okkar muni líða undir lok á næstu áratugum. Einu sinni áttu útvarpið og kvikmyndin að deyja vegna sjónvarpsins, sjónvarpið og kvikmyndalistin að lognast út af vegna myndbandanna, leikhúsin að deyja; fyrst vegna útvarpsins, seinna sjónvarpsins, svo myndbanda og enn síðar vegna streymisveita á borð við Netflix. Að ógleymdu andláti ljóðsins sem hefur margoft verið spáð og núna er víst bókinni búinn bráður bani. En höfum það hugfast að ekkert af þessu hefur ræst en margskonar sveiflur og þróun auðvitað átt sér stað. Og ef við sameinumst um að standa vörð um íslenskuna og sýnum metnað í verki þá lifir hún líka.
Af því að ég er hrædd um að ef við glötum tungumálinu okkar þá verði ekkert lengur sem sameinar okkur sem þjóð.
Ég vil þakka Menningarnefnd og Seltjarnarnesbæ innilega fyrir þá virðingu sem mér er sýnd sem listamanni og mun hér eftir sem og hingað til leggja mitt að mörkum til að efla menningarstarf bæjarins.
Takk fyrir mig!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email