Guðni Kolbeinsson, þýðandi og rithöfundur, hlaut í dag bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, Sögustein. Verðlaunin eru 500.000 krónur, auk verðlaunagrips til eignar, en þau eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir. Það var einróma álit valnefndar að Guðni skyldi hljóta verðlaunin í ár. Guðni er íslenskufræðingur að mennt og hefur starfað sem kennari, málfarsráðunautur, þáttagerðarmaður, þýðandi sjónvarpsefnis, fræðimaður og rithöfundur.
Í tilkynningu frá IBBY segir að verk hans megi finna á næstum hverju einasta heimili, en hann hefur kynnt nokkrar ástsælustu persónur barnabókmenntanna fyrir íslenskum ungmennum.