Search
Close this search box.

Skýrsla formanns frá aðalfundi 2022

Kæru félagar!

Enn eitt árið. Enn einn aðalfundurinn. Og oft finnst manni lítið hafa gerst sem í frásögu sé færandi. Það er þó ekki sú tilfinning sem bærist í brjósti mér nú þegar ég stíg í pontu í fjórða sinn sem formaður RSÍ. Heimsfaraldurinn hafði býsna mikil og víðtæk áhrif á starfsemi Rithöfundasambandins, rétt eins og hann hreyfði verulega við lífi rithöfunda á Íslandi ekkert síður en annarra þjóðfélagshópa. Þetta er því í fyrsta sinn síðan árið 2019 sem RSÍ getur haldið aðalfund sinn án sérstakra ráðstafana af smitvarnaástæðum og fyrir það er ég að minnsta kosti afar þakklátur. Og það er gott að sýna þakklæti, þó að í smáu sé. Með öðrum orðum: Það er gott og ánægjulegt að sjá ykkur sem hér sitjið og ég vona svo sannarlega að ekki þurfum við að ganga í gegnum ámóta þrengingar aftur á næstunni. Því þó að það liggi ekki í augum uppi hafði kórónaveirufaraldurinn umtalsverð áhrif á starfsemi okkar og líf félagsmanna. Hugum nánar að því á eftir, en: Velkomin í húsið.

Síðasti aðalfundur okkar var haldinn 27. maí 2021. Síðan þá hafa níu félagsmenn kvatt okkur, en það eru rithöfundarnir -Aðalgeir Kristjánsson, Anna Kristine Magnúsdóttir, Elías Snæland Jónsson, Elín Pálmadóttir, Kristín Bjarnadóttir og Ólafur Ormsson. Og heiðursfélagarnir Vilborg Dagbjartsdóttir, Álfrún Gunnlaugsdóttir og Guðrún Helgadóttir. Ég vil biðja fundarmenn að rísa úr sætum og minnast þessara látnu félaga okkar með einnar mínútu þögn.

Í heimsfaraldrinum, sem nú er vonandi að mestu leyti genginn um garð, varð menningarlíf Íslands fyrir umtalsverðum skakkaföllum. Ég gæti í rauninni endurflutt stóran hluta af skýrslu minni frá því í fyrra, en læt það samt eiga sig. Samtök listamanna hafa þurft að þrýsta af öllum mætti á stjórnvöld landsins svo eftir því sé tekið að listamenn njóta upp til hópa ekki sömu réttinda og aðrir þjóðfélagsþegnar. Í því samhengi er ég einkum að tala um það öryggisnet sem Ísland stærir sig af að sé til staðar fyrir þá sem missa lífsviðurværi sitt af óviðráðanlegum orsökum. Enn er langt í land að listamenn hafi eðlilegan aðgang að velferðarkerfinu, eins og til dæmis atvinnuleysisbótum, sem þó er skýrt kveðið á um í stjórnarskrá að allir eigi að njóta.

Baráttan fyrir umbótum á þessu sviði er afar mikilvæg og fer fram í gegnum stéttar- og fagfélög listamanna bæði sameinuð og hvert í sínu lagi. Bandalag íslenskra listamanna hefur gengið í þetta baráttumál með oddi og egg og það er mín skoðun að við getum þakkað BÍL og samstöðu listamanna í mörgum tilfellum fyrir að ekki fór verr en raun bar vitni við þær háskalegu aðstæður sem íslenskt menningarlíf stóð andspænis á löngu tímabili – og stendur að hluta til enn.

Nýstofnað Menningarmálaráðuneyti hefur gefið fyrirheit um stórefldan stuðning við listir og menningu hér á landi og við vonum að sá stuðningur reynist ekki orðin tóm. Stjórn RSÍ átti fund með ráðherra menningarmála 9. mars sl. Stjórnin kom þar skýrt á framfæri þeim eindregnu kröfum að fyrirhuguð endurskoðun á starfslaunakerfi listamanna verði gerð í samráði við forsvarsmenn þeirra sem málið snertir hvað mest. Við teljum að þeir sem best þekkja kjör hvers hóps fyrir sig hafi mest fram að færa þegar kemur að leiðréttingu á fyrirkomulagi starfslauna. Okkur þykir ekki rétt að sömu reglur gildi í öllum tilfellum, þar sem reynslan hefur kennt okkur að þarfir einstakra listgreina eru ekki endilega þær sömu. Við fórum þess vegna fram á það við ráðherrann að fulltrúar RSÍ yrðu með í ráðum þegar starfslaunasjóður rithöfunda yrði til umfjöllunar með breytingar í huga. Þessu var vel tekið í hinu nýja ráðuneyti, en við bíðum ennþá eftir því að sá starfshópur verði settur á fót og kallaður saman. Ég er hræddur um að menningarvinsamleg áform ráðherrans gangi ívið hægar í framkvæmd en vonir stóðu til. En hvað um það, við bíðum átekta.

Enn og aftur hlýtur það að vera einlægt baráttumál rithöfunda á Íslandi að litið verði á ritlist sem raunverulegt starf sem höfundar fái raunveruleg laun fyrir, en ekki hlutastarf, sem í engu tilfelli er reiknað með að hægt sé lifa af, heldur hljóti allir rithöfundar okkar að þurfa viðbótar lífsviðurværi sem ekki skapast af ritstörfum. Í mínum huga snýst þetta fyrst og síðast um virðingu fyrir skapandi hugsun – virðingu fyrir listinni og viðurkenningu á nauðsyn hennar fyrir samfélagið í heild sinni. Ef sú virðing væri innan kerfisins í réttu hlutfalli við þau fögru orð sem jafnan eru látin falla á tyllidögum í garð íslenskra rithöfunda, þá væri hópurinn miklum mun stærri sem nyti starfslauna allt árið, sem að auki teldust mannsæmandi fyrir fulla vinnu.

Þetta sagði formaðurinn. Samt hefur nú eitt og annað gerst síðan við sáumst síðast, sem ekki telst hábölvað. Starfslaun listamanna hækkuðu nú fyrir fáeinum vikum um 15 prósent og teljast nú 490.920 kr., sem vissulega er skárri tala en 428.820 kr. eins og þau voru fyrir hækkun. Þær viðbótarúthlutanir sem rithöfundar fengu 2021 vegna heimsfaraldursins skiluðu sér hins vegar ekki á þessu ári þó að þörfin hafi síst verið minni en á síðasta ári.

Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag allra skrifandi stétta og fyrir vikið er hlutverk þess að gæta hagsmuna allra hópa og einstaklinga sem fást við ritstörf á Íslandi, einkum félagsmanna sinna, en einnig þeirra sem til okkar leita með álitamál sem snerta höfundarétt og  kjör þeirra sem starfa við skriftir. Þessi hagsmunagæsla er misfyrirferðarmikil á milli ára, en hefur þó aukist talsvert í seinni tíð með tilkomu nýrra miðla, svo sem streymisveitna. Á síðasta aðalfundi minntist ég á samskipti okkar við RÚV og þau mál sem við þurftum að leiðrétta og sneru að greiðslum til höfunda fyrir endurflutt efni. Þessi mál leystust öll farsællega og um það bil tíu milljónir skiluðu sér til höfunda, sem annars hefðu ekki fengið neitt í sinn hlut.

Þó er eitt mál, sem enn er bitbein á milli RÚV og RSÍ, en það er samningur sem RÚV gerði við Storytel um sölu á höfundaréttarvörðu efni til streymisveitunnar. RSÍ dregur í efa rétt RÚV til að gerast útgefandi, selja umrætt efni og taka þar með til sín 77% af tekjum sem verkin eiga að skila rétthöfum. Okkur hefur ekki ennþá tekist að fá afdráttarlaus svör við því hvort þetta sé raunverulega tilfellið, því bæði RÚV og Storytel þverneita að sýna okkur samninginn svo við getum glöggvað okkur á því hvað í honum felist.

Eftir flókin og árangurslaus samskipti við útvarpsstjóra ákvað lögfræðingur okkar, Sigurður Örn Hilmarsson, að vísa málinu til Úrskurðarnefndar upplýsingamála í þeirri von að RÚV verði á endanum skikkað til að sýna á spilin og við fáum óyggjandi upplýsingar um hvort hér sé verið að brjóta gróflega á rétti höfunda. Þessi samningur virðist gera ráð fyrir að RÚV geti selt upptökur af bókmenntaverkum sem fyrirtækið hefur í vörslu sinni, þó að upprunalegir samningar við höfunda og flytjendur geri hreint ekki ráð fyrir útgáfu af því tagi. Úrskurðarnefnd hefur velt málinu lengi fyrir sér en boðar svör í maí eða júní.

En við erum ekki einungis að tala um kvöldsögur, miðdegissögur og morgunstundir barnanna. Eins og margir hafa tekið eftir eru nú aðgengilegir á streymisveitu Storytel óhemju margir útvarpsþættir sem RÚV hefur framleitt á undanförnum áratugum. Í samningum við umsjónarmenn og handritshöfunda þessara þátta er hvergi minnst á streymisveitur, enda var það orð ekki til í íslensku máli þegar samningarnir voru gerðir. Höfundar virðast þó aldrei fá að njóta vafans, þar sem RÚV hefur ákveðið að líta svo á að það eigi allan rétt og geti ráðstafað verkunum eftir eigin geðþótta. Þetta getum við ekki liðið og verðum því að halda áfram að banka á þessa rammgerðu hurð þó að enginn þar fyrir innan sjái ástæðu til að koma til dyra.

Í ljósi þessarar reynslu vil ég hvetja alla höfunda til að láta okkur hjá RSÍ vita ef þeir hafa grun um að hallað sé á rétt þeirra. Einnig er rétt að benda á hvað það hefur í raun í för með sér þegar menn selja framleiðanda allan og ótakmarkaðan rétt að verkum sínum, en sú virðist vera krafa framleiðenda í síauknum mæli. Vitaskuld er ekki hægt að banna fólki að gera slíka samninga, en séu þeir gerðir er rétt að allar upphæðir hækki til mikilla muna, þar sem í raun er verið að selja miklu meiri verðmæti en samningar RSÍ við viðkomandi útgefanda eða framleiðanda gera ráð fyrir.

Það gerist æ oftar að höfundar hafi samband við skrifstofu okkar og kvarti yfir kjörum sínum í viðskiptum við hljóðbókaveituna Storytel. Fólk er sem sagt að átta sig á að hlutur höfunda í þeim viðskiptum er í flestum tilfellum miklu minni en þeir reiknuðu með. Storytel semur ekki við stéttarfélagið RSÍ, heldur við útgefendur og starfar eftir innfluttu viðskiptamódeli sem ekki er gefinn minnsti kostur á að hrófla við. Einn af félagsmönnum okkar leyfði sér opinberlega að setja fram afar réttmæta gagnrýni á streymisveituna og var látinn gjalda þess með því að Storytel hætti við fyrirhugaða kynningu á hljóðbókinni hans. Afar sérkennileg framkoma við höfund og íþyngjandi, einkum þegar um er að ræða fyrirtæki sem einokar hljóðbókastreymi á Íslenskum markaði.

Hún er orðin löng og langdregin, framhaldssagan af samningum á milli RÚV og RSÍ, og grátlega lítið gerist á milli aðalfunda. Samningaviðræður teljast vera í gangi, en þokast ákaflega hægt og ástæðurnar sagðar vera hinar og þessar, svo sem heimsfaraldur, en satt að segja held ég að annars vegar sé áhugleysi RÚV um að kenna og hins vegar sjái fyrirtækið sér hag í því að það sem óljóst er í gildandi samningum varðandi réttindi höfunda verði óljóst áfram. Öðrum samtökum listamanna gengur líka afar illa að draga Ríkisútvarpið að samningaborðinu og þrátt fyrir fögur fyrirheit hins nýja útvarpsstjóra þegar hann tók til starfa um að gerð yrði gangskör að samningum við listamenn, hefur ekkert þokast á þeim misserum sem liðin eru.

RSÍ á um þessar mundir einnig í viðræðum við Félag bókaútgefenda um þýðendasamninga og sömuleiðis eru í gangi þreifingar um samninga handritshöfunda við Samband kvikmyndaframleiðenda í góðri samvinnu við Félag leikskálda og handritshöfunda. Í augnablikinu er of snemmt að segja fréttir af gangi þeirra mála.

Sú breyting hefur orðið á högum okkar að Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögfræðingur var skipuð í embætti héraðsdómara s.l. haust og varð því að láta af störfum fyrir okkur. Að henni er mikill missir en lögmannsstofan Réttur heldur áfram að þjónusta RSÍ og lögfræðingarnir Sigrún Ingibjörg Gísladóttir og Sigurður Örn Hilmarsson hafa tekið við þeim verkefnum sem áður hvíldu á Sigríði Rut, þar sem Sigrún Ingibjörg tekur til dæmis sæti í samninganefndum fyrir okkar hönd en Sigurður Örn rekur mál okkar fyrir gerðardómi. Þar eru málefni IHM   til umfjöllunar og skorið verður úr um hvernig sjóðir skiptist á milli rétthafa, þar sem samkomulag náðist ekki í stjórn IHM. Í þessu máli eins og fleirum starfa RSÍ og FLH saman eins og einn maður.

RSÍ á aðild að nokkrum viðurkenningum á störfum og verkum íslenskra rithöfunda, þar á meðal er Rithöfundasjóður RÚV. Á þessu ári var það niðurstaða stjórnar sjóðsins að veita Kristínu Helgu Gunnarsdóttur þessa viðurkenningu fyrir glæsilegan feril sinn sem rithöfundur og veitti hún  þeim heiðri viðtöku nú í janúar.

Einnig er rétt að nefna ljóðaverðlaunin Maístjörnuna, sem RSÍ stendur að ásamt Landsbókasafni-Háskólabókasafni. Maístjarnan verður veitt 18. maí, en tilnefnd til verðlaunanna eru skáldin Brynja Hjálmsdóttir fyrir bókina Kona lítur við, Haukur Ingvarsson fyrir Menn sem elska menn, Ólafur Sveinn Jóhannesson fyrir bókina Klettur – Ljóð úr sprungum, Ragnar Helgi Ólafsson fyrir Laus blöð, Soffía Bjarnadóttir fyrir Verði ljós, elskan og Þórdís Helgadóttir fyrir ljóðabókina Tanntaka.

Starf okkar innan fjölþjóðasamtaka rithöfunda breyttist töluvert í Covid faraldrinum og flestir fundir undanfarin tvö ár hafa farið fram í gegnum fjarskiptabúnað. Þetta er að færast hægt og bítandi til fyrra horfs og 22. mars var haldinn ársfundur International Authors’ Forum hér í Gunnarshúsi, þar sem fulltrúar u.þ.b. 70 samtaka rithöfunda vítt og breitt um heim þinguðu. Þó nokkur hópur átti reyndar fjarskipti við fundinn, en aðrir voru á staðnum. Umfjöllunarefnin voru ýmis mál tengd höfundarétti, sívaxandi þjófnaður og ólögleg dreifing á verkum höfunda, nútímalausnir á réttindagreiðslum og staða rithöfunda á Íslandi. Við Margrét Tryggvadóttir fluttum erindi um síðastnefnda efnið og sátum síðan fyrir svörum. Við ræddum einkum um starfslaunaumhverfið og drauma okkar um hvernig mætti bæta það og efla íslenska ritlist.

Í Evrópusamtökunum European Writers Councel var síðasti fjarfundur haldinn vorið 2021, en mun fara fram í Madrid 10.-12. júní næstkomandi og munu formaður og framkvæmdastjóri sitja fundinn.

Fyrir skömmu gekk RSÍ í CEATL, sem eru Evrópusamtök þýðendasamtaka, en einnig erum við í samstarfi við norrænu þýðendasamtökin Norne. Með þessu starfi er Rithöfundasambandið að leitast við að víkka út fjölþjóðasamstarft sitt í sem flestum greinum ritlistar, þar sem áhersla okkar í seinni tíð hefur í auknum mæli beinst að því að gæta hagsmuna allra höfunda burtséð frá því hvaða ritlistarform þeir velja sér og á hvaða sviði þeir starfa.

Eins og allir vita hafa nú verið í gildi um nokkurt skeið lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Stuðningurinn felst í 25% endurgreiðslu á útlögðum kostnaði útgefenda. Einn ef þeim kostnaðarliðum felst í höfundalaunum og því þótti RSÍ hreint ekki óeðlilegt að höfundar nytu góðs af þessum stuðningi með því að sú endurgreiðsla skilaði sér til höfundanna, einkum og sér í lagi vegna þess að greiðslur til höfunda eru ekki eiginlegur kostnaður útgefenda, heldur hlutur rithöfunda af sölu verka þeirra. Þetta varð hins vegar að miklu bitbeini í síðustu samningum okkar við FÍBÚT, þar sem útgefendur völdu að líta svo á að umræddur stuðningur þess opinbera væri eingöngu stuðningur við bókaútgefendur. Á endanum tókst þó að semja um að hluti þessarar 25% endurgreiðslu á höfundalaunum rynnu til höfunda. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á þessum lögum og enn er það okkar bjargföst sannfæring að höfundar bóka eigi að njóta þess stuðnings sem ríkisvaldið vill veita til útgáfu verka þeirra. Annað er eiginlega fáránlegt og það munum við láta í ljós við hvert tækifæri.

Þá stendur einnig fyrir dyrum að lögleiða á Íslandi Evróputilskipun þar sem meðal annars er farið fram á sanngjarnar greiðslur fyrir afnot af höfundaverkum og einnig gagnsæi í uppgjörsmálum. Þetta er stórt hagsmunamál fyrir rithöfunda og ef rétt er á málum haldið ætti þetta að koma í veg fyrir að framleiðendur geti grafið samninga sína í skrifborðsskúffum og neitað að sýna þá í nafni trúnaðar.

Á síðasta aðalfundi nefndi ég frumkvæði RSÍ að samstarfi við Landsbókasafn um skráningu leikhandrita og leiðir til að gera þau aðgengileg almenningi í gegnum landskerfi bókasafna. Þetta mál fór afar vel af stað og við áttum góðan fund, þar sem lagt var á ráðin um hvernig mætti koma handritum leikskálda á rafrænt form án mikillar fyrirhafnar og lána þau út í gegnum rafbókasafn. Með því móti verður hægt að nálgast handrit sem ekki hafa verið gefin út á prenti og þau leikskáld sem ekki eiga útgefið efni öðlast um leið rétt innan Bókasafnssjóðs. Þetta mál hefur gengið mun hægar en við vonuðumst til, eins og oft vill verða þegar reynt er að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd, en nú virðist vera að komast á það skriður og við bíðum spennt eftir að hægt verði að ýta þessu formlega úr vör og vonum að íslensk leikskáld og handritshöfundar sjái sér hag í því að gera verk sín aðgengileg á þennan hátt.

Hér á Dyngjuvegi 8 er þjónustumiðstöð fyrir rithöfunda og aðra eigendur höfundaréttar. Enn og aftur vil ég hvetja félagsmenn í Rithöfundasambandinu til að leita aðstoðar og álits á hverjum þeim málum sem snerta rétt og kjör höfunda. Eins og mörg af þeim dæmum sýna sem ég hef nefnt í þessar skýrslu er ástæða til að vera vel á verði, því réttur okkar er því miður alltof oft fótum troðinn.

En  heimsóknir hingað í Gunnarshús þurfa ekki eingöngu að tengjast vandamálum, hingað eru allir félagsmenn okkar velkomnir til skrafs um daginn og veginn, lífið og listina, því samtöl okkar á milli eru dýrmæt í sjálfum sér. Ég þakka öllum sem sáu ástæðu til að sitja þennan aðalfund og óska okkur öllum góðs og kraftmikils starfsárs.

Karl Ágúst Úlfsson, formaður RSÍ

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email