Sigrún Pálsdóttir hlýtur EUPL-verðlaunin 2021

Tilkynnt var um þá 13 verðlaunahafa sem hljóta Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2021 við rafræna athöfn í dag.

Sigrún Pálsdóttir hlýtur verðlaunin fyrir bók sína Delluferðin (2019), útgefandi JPV.

Í rökstuðningi dómnefndar segir:

Delluferðin er skrifuð af listfengi höfundar sem hefur náð gríðarlegu valdi á bæði formi og stíl. Hér er sögð saga stúlkunnar Sigurlínu Brandsdóttur sem heldur heimili fyrir föður og bróður í Reykjavík undir lok 19. aldar. Faðir hennar hefur umsjón með fornminjasafni sem er til húsa í Alþingishúsinu og auk þess að sjá um heimilið er dóttirin hægri hönd föður síns við vinnuna. Fyrir röð tilviljanna leggur hún af stað út í heim þar sem svo ótrúleg ævintýri bíða hennar að jafnvel má segja að skáldverkið stökkvi milli bókmenntagreina og úr sögulegri skáldsögu yfir í melódrama. Hér er sannarlega ekki á ferðinni hefðbundinn þroskasaga heldur er miskunnarlaus snúið upp á allar hefðir. Frásögnin er knöpp, engu er ofaukið og hálfkveðnar vísur æsa upp lyst lesandans sem þarf að hafa sig allan við til þess að halda í við söguna sem rúllar áfram án afláts, nemur aldrei staðar, kemur sífellt á óvart og skýtur að lokum öllum væntingum um hefðbundin sögulok ref fyrir rass. Menningarleg sjálfsmynd þjóðar er hér í mótun, þjóðar sem rétt fyrir aldamótin 1900 var ein sú vanþróaðasta og fátækasta í Evrópu. Hvernig fá atburðir sögulegt gildi? Hvernig verða menningarverðmæti til? Hér er allt undir; þjóðararfurinn og þeir brauðfætur sem söguleg sýn hvers samfélags stendur á, en einnig stéttarskipting, staða konunnar, staða Íslands, staða erlends vinnuafls í New York undir lok 19. aldar og síðast en ekki síst skáldsagan sjálf.

Skáldverkið er í senn frumlegt og nútímalegt en um leið afskaplega aðgengilegt og skemmtilegt.

Í dómnefnd sátu: Elín Edda Pálsdóttir, Helga Ferdínandsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Tinna Ásgeirsdóttir og Þorgeir Tryggvason.

Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins eru veitt þátttökuríkjum Creative Europe, menningaráætlun Evrópusambandsins. Verðlaunin eiga að hampa framúrskarandi hæfileikafólki sem er að þreifa sig áfram á bókmenntavellinum, 13 höfundum að þessu sinni. Áður hafa þau Ófeigur Sigurðsson, Oddný Eir Ævarsdóttir og Halldóra Thoroddsen hlotið verðlaunin fyrir Íslands hönd. Verðlaunin vekja athygli á menningarauði evrópskra samtímabókmennta sem og tungumálum og menningu álfunnar, en tungumálastefna Evrópusambandsins snýst ekki síst um að vernda fjölbreytileika evrópskra tungumála.

Rithöfundasamband Íslands óskar Sigrúnu innilega til hamingju með verðlaunin!

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email