Search
Close this search box.

Sigrún Árnadóttir hlýtur þýðingaverðlaun Letterstedtska sjóðsins

Sigrún Árnadóttir þýðandi hefur hlotið norræn þýðingaverðlaun Letterstedtska sjóðsins árið 2020. Sigrún er fædd á Vopnafirði árið 1927. Hún hefur unnið við þýðingar frá árinu 1980 og hefur aðallega þýtt barna- og unglingabækur úr norrænum tungumálum, fyrst og fremst úr sænsku, yfir á íslensku. Sigrún hefur alls þýtt um 60 bækur, þar á meðal 20 bækur eftir sænska barnabókahöfundinn Astrid Lindgren og allar bækurnar um Einar Áskel eftir Gunillu Bergström.

Letterstedtski sjóðurinn var stofnaður árið 1875 og er markmið hans að styrkja norræna samvinnu í vísindum, listum og iðnaði. Höfuðstöðvar sjóðsins eru í Stokkhólmi en deildir eru starfandi í Danmörku, Finnlandi, Noregi og á Íslandi. Auk þýðingaverðlaunanna veitir sjóðurinn styrki til þátttöku í norrænu samstarfi, veitir heiðursorðu árlega fyrir vel unnin störf í þágu norrænnar samvinnu og norrænnar menningar og gefur út tímaritið Nordisk Tidskrift. Sjá nánar um sjóðinn og tilgang hans á www.letterstedtska.org.

Þetta er í níunda skipti sem sjóðurinn veitir norrænu þýðingaverðlaunin og er verðlaunaupphæðin 100 000 sænskar krónur. Verðlaunin eru ýmist veitt fyrir einstakar þýðingar á bókmenntaverkum eða fyrir allt lífsverk höfundar í heild.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email