Search
Close this search box.

Sérsniðnar dagskrár

Margir höfundar bjóða upp á skemmtilegar dagskrár þar sem þeir fjalla um verk sín og bókmenntir í stærra samhengi. Skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök geta leitað til Höfundamiðstöðvar sem veitir upplýsingar um dagskrár og veitir ráðgjöf um aðra viðburði sem höfundar koma að.

 

ALLIR ERU Í AÐALHLUTVERKI!


Jóna Valborg
Jóna Valborg

Brosbókin, Knúsbókin, Vinabókin og Hetjubókin fjalla um hina ævintýragjörnu Sólu og eru vel til þess fallnar að hjálpa börnum að tjá sig og setja sig í spor annarra. Þær eru ríkulega myndskreyttar og ýta undir ímyndunarafl lesenda.

Kennsluleiðbeiningar fylgja bókunum sem ætlað er að hvetja til samræðna og stuðla að samkennd og samvinnu. Gengið er út frá því að allir taki þátt og miðast kennsluaðferðirnar við það. Notast er við umræðu- og spurnaraðferðir, hópvinnuverkefni, ritun og leikræna tjáningu. Efnið hentar vel fyrir nemendur í 1.-4. bekk grunnskóla. Kennsluleiðbeiningar má nálgast á vef Forlagsins, forlagid.is.

Nú býðst skólum að fá höfundinn, Jónu Valborgu, í heimsókn og láta hana leiða kennslustund þar sem bækur og nemendur eru í aðalhlutverki. Gert er ráð fyrir því að ein bók verði tekin fyrir í 80 mínútna kennslustund (að lágmarki). Miðað er við einn bekk hverju sinni.

Jóna Valborg er með M.Paed. gráðu í íslensku og kennslufræði frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi. Hún hefur kennt íslensku, lífsleikni og leiklist í framhaldsskólum.

Hægt er að hafa samband við Jónu Valborgu á netfanginu jonavalborg@simnet.is og í síma 897 2344.

 

LESTRARÞJÁLFUN


Huginn Þór
Huginn Þór

Huginn Þór Grétarsson kemur í heimsókn og spjallar við börn um lestur og léttlestrarbækur sem hann hefur skrifað og njóta mikilla vinsælda hjá grunnskólum landsins. Kisi fugl, Úlfar úrilli, Kata klára o.s.frv.

Þeir skólar sem hafa þegar keypt bekkjarsett geta fengið gefins verkefnabækur sem börnin fá afhent í heimsókninni.

Höfundurinn, Huginn Þór Grétarsson, les upp úr bók og ræðir við krakkana að lestri loknum.

Dagskrá u.þ.b. 45 mínútur eða eftir samkomulagi.

Hægt er að hafa samband við Huginn Þór á netfanginu kaupsala@hotmail.com og í síma 866 8800.

 

SÓL, TUNGL OG STJÖRNUR


Sævar Helgi
Sævar Helgi

Fyrir ofan okkur er heill alheimur sem fáir þekkja en margir eru forvitnir um. Á himninum er ótalmargt spennandi og fallegt að sjá. Sævar Helgi Bragason vísindamaður og rithöfundur kemur í heimsókn og fjallar um allt það helsta sem prýðir íslenska himinninn: Stjörnur og stjörnumerki, plánetur, tungl og goðsögur. Áhersla er lögð á að skemmta og fræða í senn.

Sævar Helgi er jarðfræðingur að mennt og hefur starfað við vísindamiðlun hjá Háskóla Íslands, kennt stjarnvísindi í framhaldsskólum, í Háskóla unga fólksins, Háskólalestinni og Vísindasmiðjunni. Hann er einnig tíður gestur í ýmsum fjölmiðlum þegar rætt er um vísindi.

Fyrirlesturinn hentar fyrir skólahópa, stofnanir, fyrirtæki og félög og alla aldurshópa. Tímalengd: 30-60 mínútur.

Hægt er að hafa samband við Sævar Helga á netfanginu saevarhb@gmail.com og í síma 896 1984.

 

TÖFRUM FRAM SÖGUR


Arndís Þórarinsdóttir
Arndís Þórarinsdóttir

Arndís Þórarinsdóttir varpar ljósi á störf rithöfunda með aðstoð sagna J.K. Rowling um Harry Potter.

Arndís kennir nemendum mikilvægi þess að stökkva óhræddir á góðar hugmyndir eins og Gryffindor, vefa slyngan söguþráð eins og Slytherin, fylla ótal rúllur af bókfelli eins og Hufflepuff og endurskrifa svo af hyggindum eins og Ravenclaw.

Kynningin er hugsuð fyrir miðstig grunnskóla en hægt er að fá hana sérsniðna fyrir bæði eldri nemendur og yngri eftir samkomulagi. Kynningin tekur 40 mínútur, en óski skólar eftir því að fá dagskrána í formi smiðju, þar sem æfingar og sköpunarleikir bætast við, tekur hún 80 mínútur.

Arndís er bókmenntafræðingur með meistarapróf í ritlist. Hún skrifar fyrir bæði börn og unglinga og nýjasta skáldsaga hennar er Nærbuxnaverksmiðjan. Nánari upplýsingar um verk hennar má finna á vefnum www.arnd.is.

Hægt er að hafa samband við Arndísi með því að senda tölvupóst á arndis.thorarinsdottir@gmail.com eða hringja í síma 897 2772.