Search
Close this search box.

Rithöfundasjóður ríkisútvarpsins – orð ársins

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf en tilkynnt var um menningarviðurkenningar RÚV við hátíðlega afthöfn í Efstaleitinu föstudaginn 6. janúar 2017. Þá var „hrútskýring“ valið orð ársins 2016. Að auki voru veittir styrkir úr Tónskáldasjóði RÚV og tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti hlaut Krókinn 2016 – viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu.

Blómið lofsamað

solvi-bjorn-sigurdsson

Skáldsaga Sölva Björns, Blómið – saga um glæp, sem kom út haustið 2016, hefur hlotið góðar viðtökur og lof gagnrýnanda. Bókmenntarýnir Víðsjár hafði þetta að segja um höfundinn: „Sölvi Björn Sigurðsson hefur sýnt að hann er þjóðhagur á flest bókmenntaform. Hann hefur frumsamið og þýtt, laust mál og bundið, notað gamlan efnivið og nýjan. Og allt þetta leikur í höndunum á honum.“

Sjá umfjöllun Steinunnar Ingu Óttarsdóttur um Blómið á RÚV

Meðal verka Sölva Björns, auk Blómsins, eru skáldsögurnar Gestakomur í Sauðlauksdal (2011) og Síðustu dagar móður minnar (2009), ljóðabækurnar Gleðileikurinn djöfullegi (2005), Kristalsaugað (2015) og 50 1/2 sonneta (2015), þýðingar á ljóðum eftir Melittu Urbancic, Robert Burns og Arthur Rimbaud og fræðibækur, svo sem Stangveiði á Íslandi (2013).

Orð ársins

Orðið hrútskýring var valið orð ársins 2016. Á vef RÚV segir þetta um hrútskýringu:

„Orðið er þýðing á enska hugtakinu mansplaining og komst í hámæli á liðnu ári þegar væntanlegur forsetaframbjóðandi var sakaður um athæfið sem orðið á við um; að karlmenn útskýri fyrir konum á yfirlætislegan og lítillækkandi hátt og gefi sér að þeir viti betur. En merkingin hefur víðari skírskotun og í raun geta allir – sem hafa einhvers konar forréttindastöðu gagnvart öðrum – hrútskýrt. Yfirburðirnir geta verið fólgnir í ímynduðu stigveldi hverskonar – í kynhneigð, kynþáttum, aldri eða öðru. En í rauninni þarf ekki að eiga sér stað bein útskýring – hrútskýringar geta birst sem framígrip, þegar einhver grípur orðið á lofti og finnur sig knúinn til að koma viti fyrir viðmælanda sinn eða jafnvel niðurlægja með ímyndaða yfirburði að vopni.Þess má geta að höfundur orðsins er Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður.“

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email