Ragnar Arnalds, leikskáld, rithöfundur og fyrrverandi ráðherra, er látinn. Ragnar fæddist í Reykjavík 8. júlí 1938.
Ragnar lauk stúdentsprófi frá MR árið 1958. Hann stundaði nám í bókmenntum og heimspeki við sænska háskóla 1959-1961 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1968. Framan af starfsævinni vann hann sem kennari og síðar sem stjórnmálamaður. Ragnar var þingmaður fyrir Alþýðubandalagið, menntamála- og samgönguráðherra 1978-1979 og fjármálaráðherra 1980-1983. Þá var hann fyrsti varaforseti Alþingis 1995-1999.
Meðal ritverka sem eftir Ragnar liggja eru leikritin Uppreisn á Ísafirði sem Þjóðleikhúsið sýndi 1986 og Sveitasinfónía sem Leikfélag Reykjavíkur setti upp 1988. Þá sendi hann frá sér skáldsögurnar Eldhuginn – sagan um Jörund, 2005, Drottning rís upp frá dauðum, 2010, og Keisarakokteilinn árið 2018. Hann skrifaði tvær æviminningabækur, Æskubrek á atómöld og Gandreið á geimöld sem komu út árin 2017 og 2018. Ragnar var félagsmaður í RSÍ frá 1989.
Rithöfundasamband Íslands vottar aðstandendum Ragnars samúð.