Ólafur Ormsson rithöfundur lést miðvikudaginn 27. október síðastliðinn, 77 ára gamall.
Ólafur fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1943. Hann hóf ungur ritstörf. Sat meðal annars í ritstjórn æskulýðssíðu Þjóðviljans og var í hópi útgefenda og höfunda að Lystræningjanum og tónlistartímaritinu TT og stóð að bókaútgáfu. Hann er höfundur að ljóðabókum, skáldsögum og smásagnasöfnum. Fyrsta ljóðabók hans, Fáfniskver, kom út á árinu 1973. Hann skrifaði skáldævisögu í þremur bindum, Ævintýraþorpið, Byltingarmenn og bóhemar og Skáldaspegill, sem kom út á árunum 2007 til 2013. Eftir hann liggja einnig nokkur útvarpsleikrit og smásögur sem lesnar hafa verið upp í Ríkisútvarpinu.