Ólafur Gestur Arnalds hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis

Verðlaun Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2023 hlýtur Ólafur Gestur Arnalds, prófessor emeritus við Landbúnaðarháskóla Íslands, fyrir rit sitt Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, þriðjudaginn 6. mars.

Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina kæmu en að valinu stendur sérstakt viðurkenningarráð. Viðurkenning Hagþenkis felst í sérstöku viðurkenningarskjali og verðlaunafé upp á 1.500.000 krónur.

Ólafur Gestur hefur helgað sig rannsóknum á jarðvegi og náttúru landsins um langa hríð og alla tíð lagt áherslu á miðlun vísinda til almennings með kennslu og skrifum af margvíslegu tagi. Hann þróaði aðferðir fyrir flokkun jarðvegsrofs á Íslandi og stýrði kortlagningu þess á landinu öllu. Því verki lauk 1997 og fyrir það voru Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs veitt 1998. Ólafur vann við rannsóknir á eiginleikum íslensks jarðvegs. Hann mótaði meðal annars aðferðir við flokkun moldar og er aðalhöfundur jarðvegskorts fyrir landið.

Ólafur Gestur hefur tekið virkan þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um jarðveg á eldfjallasvæðum sem og þróun regluverks um jarðvegsvernd á vegum Evrópusambandsins. Enn fremur hefur hann stundað rannsóknir á landgræðslu, kolefnisbindingu í jarðvegi, vistheimt og ástandi lands.

Nú við starfslok kom út bókin Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra hjá Iðnú. Segja má að bókin endurspegli feril hans með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs. Fjallað er ítarlega um mikilvægi moldar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni. Fífa Jónsdóttir vísindamiðlari braut bókina um.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email