Search
Close this search box.

Málþing – Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fimm ára.

bokmenntaborgReykjavík fagnar fimm ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO nú í haust. Af því tilefni efnir Bókmenntaborgin til málþings um gildi orðlistar í samfélaginu í samvinnu við Rithöfundasamband Íslands. Þingið er haldið í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur miðvikudaginn 19. október frá kl. 13 – 16 og er það öllum opið. Ekkert þátttökugjald.

Rithöfundar, fræðimenn, útgefendur, fjölmiðlafólk og lesendur taka til máls og ræða um orðlist í víðu samhengi. Hvaða máli skiptir það okkur sem samfélag að hlúa vel að orðlist og hvernig stöndum við okkur í þessu hlutverki í dag? Hvað gerum við vel og hvað getum við gert betur? Erum við bókmenntaþjóð? Hverskonar sögueyja er Ísland? Rætt verður um tilganginn og markmiðin, gildi orðlistar í samfélaginu og framtíðarhorfur texta og tungumáls. Hlúum við að bókmenntunum eða eru þær að hverfa sem áhrifavaldur og annað að koma í staðinn? Hvernig bregðast þá bókmenntaheimurinn, samfélagið og valdhafar við? Uppskurður, krufning, umræður.

DAGSKRÁ:

13:00
Setning
Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkur, setur þingið.

13:10
Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent: Bókaormar – dýrategund í útrýmingarhættu?
Íslenskir krakkar lesa of lítið, of sjaldan og lesskilningi þeirra hrakar. Allt of stór hópur les ekki neitt utan skólans og varla skólabækurnar heldur. Kennarar, rithöfundar og ráðamenn hafa áhyggjur; hvers konar bókaþjóð er það sem ekki getur alið upp lesendur? Orðræðan er hvöss: drengirnir geta ekki einu sinni lesið sér til gagns. En hver er staðan í raun og veru – hversu hátt hlutfall barna hafnar bókum? Og hvar standa bókaormarnir þegar athyglin beinist öll að bókleysingjunum? Rætt verður um niðurstöður rannsókna á lestrarvenjum barna og leiðir til að nýta þær til gagns og gleði.

13:30
Eliza Reid, forsetafrú og stofnandi Iceland Writers Retreat Retreat: Ísland sem skapandi fyrirmynd skrifandi fólks.
Flestir Íslendingar vita hvaða þýðingu bókmenntaarfurinn hefur fyrir þjóðina. En hvernig horfir hann við gestum og aðkomumönnum? Fornsögurnar hafa löngum laðað til landsins ferðamenn sem koma hingað til á slóðir fornkappa á borð við Gretti Ásmundarson og Egil Skallagrímsson en færri þekkja til íslenskra nútímahöfunda og þess hve mikils Íslendingar meta hvaðeina sem tengist bókmenntum. Eliza fjallar um bókmenntaarf Íslendinga frá sjónarmiði aðkomumanns: Hvað felst í „bókmenntaheimi“ Íslendinga? Hvað gerir hann einstakan í samanburði við bókmenntahefðir annarra landa? Og á hvað ættum við að leggja áherslu þegar við kynnum þennan arf fyrir gestum?

13:50
Hildur Knútsdóttir , rithöfundur – Orð um raunveruleikann.
Hugleiðing um orðaforða – mikilvægi þess að geta orðað hugsanir sínar, flóknar tilfinningar og allt það sem býr í ímyndunaraflinu.

14:10
Valgerður Þóroddsdóttir, skáld og útgefandi: Enginn er eyland: öll list er samstarf (þegar vel tekst til).
Valgerður, sem er stofnandi forlagsins Partusar, flytur erindi um mikilvægi samstarfs í listum og þá sérstaklega bókmenntaheiminum þar sem samvinna, oftast bak við tjöldin, getur skipt sköpum í sköpun.

14:20
Kaffi

14:40
FRESITO
Ásta Fanney Sigurðardóttir og Kött Grá Pje skemmta gestum

14.50
Já, er það ekki! – Pallborðsumræður.
Brynhildur Þórarinsdóttir, Hallgrímur Helgason, Jórunn Sigurðardóttir og Magnús Guðmundsson tala um stöðu orðlistar í íslensku samfélagi, gildi hennar, miðlun og framtíðarhorfur.
Pallborðsstjóri er Kristín Helga Gunnarsdóttir.

15:30
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir – Játningar lestrarfíkils
Íslendingar eru mjög á varðbergi gagnvart hvers kyns fíknum, við erum of fíkin í áfengi, hass, mat, klám, samfélagsmiðla og tölvuleiki, sumsé alls konar skemmtilega hluti. Við erum alveg jafn vel meðvituð um þetta vandamál og þá staðreynd að við lesum alls ekki nógu mikið. Hvernig lenti lesturinn í hóp með leiðinlegum hlutum á borð við megranir, sem við gerum einhvern veginn aldrei nóg af? Heimspekilegar hugleiðingar í bland við vandræðalegar játningar manneskju sem hefur stundað óheilbrigðan bókalestur í tvo áratugi.

15:40
Samantekt fundarstjóra, Svanhildar Konráðsdóttur.

16:00
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, ávarpar samkomuna.
Veitingar.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email