Search
Close this search box.

Maístjarnan – ný ljóðabókaverðlaun

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hafa stofnað til nýrra ljóðabókaverðlauna sem bera heitið Maístjarnan og verða veitt árlega 18. maí, á degi ljóðsins. Það er Rithöfundasambandinu og Landsbókasafninu sönn ánægja að ýta Maístjörnunni úr vör. Verðlaunin eru einu verðlaun á Íslandi sem eingöngu eru veitt fyrir útgefna íslenska ljóðabók og eru löngu tímabær viðurkenning á útgefnum ljóðabókum. Fram að þessu hafa einungis verið veitt sérstök verðlaun fyrir stök ljóð og handrit að ljóðabókum og þrátt fyrir að útgefnar ljóðabækur séu gjaldgengar til annarra verðlauna hafa þær oftar en ekki orðið út undan við tilnefningar og verðlaunaveitingar.

Verðlaununum er ætlað að hvetja skáld til að yrkja og koma ljóðum sínum í útgáfu en frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar (og nafngift!) átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Rithöfundasambandið tóku tillögu hans fagnandi og leggur Rithöfundasambandið árlega til verðlaunafé að upphæð 350.000 kr. Allar íslenskar ljóðabækur sem komið hafa út á almanaksárinu á undan og skilað hefur verið til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru gjaldgengar til verðlaunanna og fær dómnefnd þær til umfjöllunar.

Fyrstu tilnefningar til Maístjörnunnar voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi 25. apríl sl. Við sama tækifæri undirrituðu Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður, og Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambandsins samning milli Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email