Search
Close this search box.

Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar

SS

Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar voru afhent í 10. skiptið þann 26. ágúst. Hlaut Steinunn Siguðardóttir verðlaunin fyrir bók sína „Af ljóði ertu komin.“ Auk ljóðaverðlaunanna voru afhent við sama tilefni Borgfisku Menningarverðlaunin, og komu þau í hlut þjóðlagasveitarinnar Slitinna strengja.

Verðlaunin eru afhent úr Minningarsjóði Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda og konu hans Ingibjargar Siguðardóttur. Yfirlýst hlutverk sjóðsins er að vekja athygli á því sem vel er gert í menningarmálum í Borgarfjaðarhéraði og ljóðlist á Íslandi. Fyrst voru veittar viðurkenningar úr sjóðnum árið 1991, en milli verðlaunaafhendinga hafa liðið 2-4 ár.

Kjarni Steinunnar býr í ljóðinu

Ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur Af ljóði ertu komin kom út haustið 2016 og vísar titillinn í þá staðreynd að Steinunn hóf feril sinn sem ljóðskáld, og líkt og segir í fréttatilkynningu „hefur hún aldrei sagt skilið við þann kjarna höfundarverks síns.“

„Helstu höfundareinkenni Steinunnar hafa löngum verið talin myndrænn stíll, sterkar og frumlegar náttúrulýsingar, undirfurðulegur húmor og léttleiki, þótt sársauki og tregi búi oft að baki. Ljóðin geta verið tvíræð og margræð, ástin og ástarsorgin eru tíðum viðfangsefni skáldsins, dauðinn kom snemma til sögunnar og gerist býsna fyrirferðarmikill í nýjustu bókinni, Af ljóði ertu komin.

Allt er undirbúningur.
Undir það sem ekkert er.
Dauðann, þannig séð.

Steinunn Sigurðardóttir er tvímælalaust í röð fremstu skálda og rithöfunda Íslands með langan og glæsilegan feril að baki.“

Hún hefur notið almennra vinsælda og viðurkenningar, einkum fyrir skáldsögur sínar, hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hjartastað 1995 og verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Heilsteyptur flutningur þjóðlaga

Slitnir strengir er fiðlusveit af Akranesi. Skúli Ragnar Skúlason er stjórnandi sveitarinnar og stofnaði hana árið 2001 þegar hann hóf störf sem kennari við Tónlistarskóla Akraness. Nú eru 19 fiðluleikarar í hópnum ásamt þremur meðleikurum. Hópurinn blandar saman hljóðfæraleik, söng og talkór og þykir útkoman vera heilsteyptur flutningur verka sem mest megnis eru þjóðlög af írskum, skoskum og íslenskum uppruna.

Sveitin á að baki fjölmarga tónleika innanlands sem utan, auk samstarfsverkefna með ýmsum tónlistarmönnum. Sveitin hefur gefið út tvær plötur, Milli tveggja heima árið 2007 og Slitna strengi sem kom út í vor. Hópurinn hlaut menningarverðlaun Akranesskaupstaðar árið 2009 og voru útnefnd Bæjarlistamenn Akraness 2016.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email