Kveðja: Oddný Sv. Björgvinsdóttir

Oddný Sv. Björgvinsdóttir, ljóðskáld, rithöfundur, framkvæmdastjóri, ritstjóri og blaðamaður lést á Hrafnistu í Reykjavík miðvikudaginn 15. október sl., 85 ára að aldri.

Oddný fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1940 og var dóttir hjónanna Sverris Einarssonar og Ragnheiðar Björgvinsdóttur. Oddný ólst upp hjá afa sínum og ömmu, Björgvini Þorsteinssyni kaupmanni og Oddnýju Jóhönnu Sveinsdóttur að Ási á Fáskrúðsfirði.

Oddný varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands og BA-próf í ensku og íslensku frá Háskóla Íslands. Að loknu námi starfaði Oddný um skeið við kennslu. Síðar varð hún fyrsti framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda. Þá hóf hún störf við blaðamennsku og var um tíma blaðamaður á Morgunblaðinu þar sem hún sérhæfði sig í að skrifa um ferðamál. Hún var einnig fyrsti ritstjóri tímaritsins Listin að lifa, sem gefið var út af Félagi eldri borgara í Reykjavík og Landssamtökum eldri borgara.

Oddný hafði ástríðu fyrir því að ferðast um heiminn og mikinn áhuga á fjölbreyttum trúarbrögðum, heimspeki og menningu. Hún miðlaði reynslu sinni af þessum heimsreisum í útvarpsþáttum, blaðagreinum og bókum, þar á meðal Safaríparadísin Kenýa: Íslendingar á veiðislóð Savannagresju Austur-Afríku sem út kom árið 1997.

Eftir Oddnýju liggur einnig fjöldi ljóðabóka auk leikrita og smásagna. Eitt af yrkisefnum hennar voru æskuslóðirnar á Fáskrúðsfirði. Reist var skilti í miðju bæjarins með einu þekktasta ljóði hennar. Ljóðið fjallar um bæjarfjallið Digratind og lýkur á þessum orðum: „Stígur fram höfðingi sveitar / skyggnir sviðið / með huliðsmætti / svo rumska reginöfl / Fjarðarvætturinn tignarhár / fangar storminn / faðmar fjörðinn / hlífiskjöldurinn sterki, stóri.“

Rithöfundasambandið þakkar Oddnýju samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum hlýjar samúðarkveðjur.

Útför Oddnýjar verður þann 7. nóvember nk. frá Háteigskirkju.

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email