Opinn fundur með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lez
Laugardaginn 10. október klukkan 14:00 býður PEN á Íslandi í samvinnu við Borgarbókasafnið í Grófinni til opins félagsfundar um stöðu málfrelsis og mannréttinda á Kúbu með kúbanska rithöfundinum Orlando Luis Pardo Lazo. Á fundinum mun hann fara yfir sögu mannréttindabrota á Kúbu undir stjórn kommúnistaflokksins ásamt því að lýsa ástandinu eins og það er í dag og segja frá ástæðum þess að honum varð ekki lengur vært í landinu.
Orlando Luis Pardo Lez er ljóðskáld, sagnahöfundur, ljósmyndari og samfélagsrýnir sem árið 2013 var neyddur í útlegð frá Kúbu vegna skrifa sinna en fyrir utan skáldskaparritun var hann ritstjóri sjálfstæðu stafrænu tímaritanna, Cacharro (s), The Revolution Evening Post, og Voces. Í dag er Orlando gestur Skjólborgar Reykjavíkur sem er þáttakandi í ICORN alþjóðlegu neti borga sem veita ofsóttum rithöfundum skjól. Hann er vefstjóri vefsins Boring Home Utopics og heldur úti bloggsíðunni Lunes de post-Revolución.
PEN á Íslandi er samtök rithöfunda, ritstjóra og útgefenda sem standa vörð um tjáningarfrelsið heima og erlendis í samstarfi við alþjóðasamtökin PEN International.
Samkvæmt síðustu úttekt nefndar PEN International um málefni fangelsaðra rithöfunda, Writers in Prison Committee, situr fjöldi kúbanskra höfunda í fangelsi eða sætir stöðugum lögsóknum og líkamsárásum. Það er því dýrmætt að fá þá beinu innsýn inn í líf þeirra sem Orlando mun veita fundargestum í Grófarhúsi næsta laugardag klukkan 14:00. Fundarstjóri verður Sjón, forseti PEN á Íslandi.