Viðurkenning Hagþenkis var veitt 6. mars í Þjóðarbókhlöðunni við hátíðlega athöfn, og hana hlaut Kristín Svava Tómasdóttir fyrir ritið, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar, sem Sögufélag gaf út.
Í ályktunarorðum Viðurkenningaráðsins sagði um ritið: Brautryðjandaverk um sögu kláms og kynverundar á Íslandi sem byggir á afhjúpandi rannsóknum á vandmeðförnu efni. Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis Jón Yngi Jóhannsson, sem felst hún í árituðu skjali og 1.250.000 kr. Tónlist fluttu Tómas R. Einarsson og Sigríður Thorlacius, meðal annars við ljóð Kristínar Svövu.
Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt Viðurkenningu fyrir fræðirit og námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna 10 höfunda og rit sem þykja framúrskarandi og til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað félagsmönnum til tveggja ára í senn, ákvarðar tilnefningarnar og hvaða rit og höfundur hlýtur Viðurkenninguna. Í Viðurkenningarráðinu fyrir útgáfuárið 2018 sátu: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.
Rithöfundasamband Íslands óskar Kristínu Svövu innilega til hamingju með viðurkenninguna!