Jón Hjartarson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2021 fyrir ljóðahandritið Troðningar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti verðlaunin sem nema einni milljón króna. Fyrstu eintök af bókinni komu um leið út hjá JPV útgáfu.
Jón Jóhann Hjartarson er fæddur árið 1942 á Hellissandi. Hann útskrifaðist sem kennari frá Kennaraskóla Íslands 1965 og lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur 1968. Hann var fastráðinn leikari um margra ára skeið hjá Leikfélagi Reykjavíkur og lék í kringum 80 hlutverk á ferlinum. Jón lék einnig leikið með ýmsum leikhópum, s.s. Grímu, Litla leikfélaginu, Litla leikhúsinu, auk þess sem hann lék í fjölmörgum kvikmyndum sem og sjónvarps- og útvarpsverkum.
Jón hefur samið fjölda leikrita bæði fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Fyrsta leikrit hans, Afmælisboðið, er frá 1969. Hann hefur bæði leikstýrt verkum sínum og annarra hjá atvinnuleikhúsum og áhugaleikhópum. Síðasta bók hans er ungmennabókin Auga í fjallinu sem kom út hjá Skruddu árið 2017.
Jón sagði við athöfnina í gær að hann hafi löngum dáð þjóðskáldin og eins atómskáldin. „Ég dái þá höfunda sem nú fást við ljóð. Og mér sýnist íslensk ljóðagerð dafna býsna vel sem er gott. Ljóðið ratar til sinna og setur veruleikann svolítið úr skorðum sem er hollt“, sagði Jón.
Í dómnefnd sátu Sif Sigmarsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Eyþór Árnason. Í umsögn dómnefndar segir: „Troðningar eftir Jón Hjartarson er kraftmikið verk um hið óvænta í hinu augljósa, fegurðina í hversdagsleikanum og mikilfengleika þess smáa. Í bókinni fer Jón um víðan völl. En hvort sem yrkisefnið er náttúran, sagan eða samtíminn er sjónarhornið ávallt óvænt. Þekkt minni eru færð í nýjan búning. Kímnar hvunndagsmyndir eru dregnar upp innan um vísanir í stórskáldin. Hið hversdagslega verður ljóðrænt, hið háfleyga hversdagslegt,“
Rithöfundasamband Íslands óskar Jóni innilega til hamingju með verðlaunin!