Search
Close this search box.

Jæja í desember

Jæja! þá eru margir félagsmenn á fleygiferð í jólabókaflóði og aðrir spinna sína þræði í fjölbreyttum miðlum ritlistarinnar. Höfundar koma enda víða við og hafa breiðvirk áhrif á samtímann með verkum sínum. Félagarnir sópa að sér vegtyllum og tilnefningum þessa dagana og þeir fá hér með hamingjuóskir. Upplestrarhrinan nær hámarki nú í desember og við minnum höfunda á mikilvægi þess að fá greitt fyrir vinnu sína, minnum aftur og aftur á nauðsyn þess að fá greitt fyrir að koma fram og troða upp!  Taxti RSÍ, sem sjá má á vefsíðu okkar, er afar hófsamur og ætlaður sem lágmarksviðmið.

Í Gunnarshúsi er þeytingur að venju. Við höfum fundað með útgefendum vegna hljóðbókamála, en RSÍ er með gildandi samning við menntamálaráðuneyti á grundvelli 19. greinar höfundalaga sem fjallar um réttindi prentleturshamlaðra. Víst er að margt er gallað við samninginn og við höfum óskað eftir viðræðum um endurupptöku svo laga megi ýmis ákvæði og setja í samhengi við tæknivæðingu og þróun rafrænna miðla, ásamt öðru sem uppfæra má og samræma í þessum samningi. Þessi vinna er að hefjast og munum við færa félagsmönnum fregnir eftir því sem línur skýrast.

Varðandi önnur samningamál þá má vænta þess að samningaviðræður við RÚV hefjist eftir áramótin. Útgáfu- og þýðendasamningar eru í skoðun.

Við Ragnheiður fórum nýverið á aðalfund Evrópusamtaka höfunda, EWC, í Brussel og urðum margs vísari. Þar var meðal annars rætt um bókasafnssjóði höfunda, en víða hefur ekki tekist að efla þessa sjóði svo þeir skili höfundum réttmætum afnotagjöldum. Nærtækt dæmi er frá Írlandi, en fulltrúi írskra höfunda sagði bókasafnssjóðinn þar nánast vera að hverfa og kallaði eftir stuðningi frá EWC. Við getum glaðst yfir stöðu sjóðsins hér á landi þótt hann sé enn langt frá okkar setta marki.  Á Evrópufundinum var einnig rætt um e-bækur og sýndist okkur fæstir vera komnir með nothæft og skilvirkt útlánakerfi fyrir þær. Vandinn felst víða í því að ná bókasöfnum samhæfðum að samningaborði. Hér á landi gegnir öðru máli. RSÍ hefur átt samstarf við  forsvarsmenn bókasafna og útgefenda um að koma á rafrænu útlánakerfi bókasafnanna. Borgarbókavörður hefur kynnt fyrir okkur kerfi sem til stendur að taka í gagnið og grunnhugsunin er að útlán rafbókar sé í engu frábrugðin útlánum bréfbóka, þ.e.a.s. eitt leyfi – eitt útlán.

Í Brussel var einnig tæpt á hlutverki ritlistarinnar þegar vernda skal tungumál á örtungusvæðum. Fulltrúi félags katalónskra höfunda sagði róðurinn þungan við verndun katalónskrar tungu á þeirra smáa málsvæði. Þó eru ríflega tíu milljónir manna mælandi á katalónska tungu. Norðmenn skilgreina sig líka sem örtunguþjóð og því má svo sannarlega reyna að finna nýja skilgreiningu fyrir málsvæði íslenskunnar. Evrópska samstarfið er afar mikilvægt og fulltrúar höfunda í EWC sérhæfa sig í því að rata um reglugerðarskóga Evrópusambandsins.

Gunnarshús er jólahús. Félagsmenn hafa svo sannarlega nýtt sér samkomuhúsið fyrir útgáfuteiti og upplestra undanfarnar vikur. Framundan er svo hið árlega jólaboð sambandsins. Það verður haldið fimmtudaginn 15. desember kl 17:00. Þá skreytum við húsið í einum grænum og fögnum lífinu og listinni. Félagsmenn eru vinsamlegast beðnir að taka daginn frá og fjölmenna á þann viðburð.

Ein er sú uppákoma í Gunnarshúsi í desember sem er löngu orðin ómissandi í jólahaldinu hér, en það er árlegur upplestur félagsmanna á Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Þá kyndum við upp í arninum og hitum kakó. Aðventa tekur ríflega tvo tíma í upplestri og er ljúft tækifæri til að hverfa inn á Mývatnsöræfin með Bensa, Eitli og Leó. Í þetta sinn verður það félagi Gunnar Helgason sem les. Það er tilvalið að líta inn, hlusta á sögubrot og ná sér í stutta kyrrðarstund, eða sitja söguna á enda. Sumir taka með sér handavinnu og allir eru hjartanlega velkomnir.  Þessi einstaka stund verður að venju þriðja sunnudag í aðventu, þann 11. desember,  og hefst stundvíslega kl. 14:00.

Og enn af Aðventu því um þessar mundir eru 80 ár liðin frá því að sagan kom fyrst út í Þýskalandi og Danmörku. Nýverið hefur hún verið þýdd á fleiri tungumál og kemur út nú fyrir jólin á hollensku, arabísku, ítölsku og norsku. Í tilefni af útgáfuafmælinu efna Gunnarsstofnun og RSÍ til málstofu um söguna í Gunnarshúsi miðvikudagskvöldið 7. desember næstkomandi, kl 20.00. Málstofan ber yfirskriftina Er Benedikt kominn til byggða? Fjórir fræðimenn munu fjalla um söguna frá ólíkum sjónarhornum og er málstofan öllum opin.

Þann 20. desember skellum við skytturnar þrjár í lás hér í húsi og förum heim að halda jól. Nýja árið kemur svo með alls konar fyrir alla og við hlökkum til að glíma við þau stóru verkefni sem bíða ritlistamanna og erum svo sannarlega tilbúnar að taka slaginn fyrir land, sögu og tungu!

Hjartans kveðjur til ykkar allra og megi þessi jól verða okkur gleðileg bókajól!

Kristín Helga

 

Facebook
Pinterest
LinkedIn
Twitter
Email